Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.


























     
Jóna Rúna miðill, svarar bréfi "Snúllu".

Ég ofvernda barnið mitt

“Kæra Jóna Rúna,
Ég les alltaf það sem þú skrifar og finnst þú meiriháttar. Mér datt í hug að prófa að skrifa þér um svolítið sem liggur mjög þungt á mér, ef ske kynni að þú gætir kæra Jóna sagt mér hvað er til ráða í gegnum innsæi þitt. Þannig er mál með vexti að ég á dreng sem hafði töluvert fyrir því að koma í þennan heim, auk þess sem ég þurfti að leggja á mig mikið erfiði, til að fæðing hans mætti heppnast.

Það má segja að hann sé eins og hvert annað kraftaverk,
enda mikið beðið fyrir bæði mér og honum á meðan á öllu þessu stóð sem tengdist tilkomu hans inní þennan heim. Hann er fallegur, skýr, heilbrigður og alveg yndislegur sem betur fer. Heldur er af ýmsum ástæðum ósennilegt að ég komi til með að eignast fleiri börn og þar liggur vandinn. Ég fór í gegnum erfitt ferli tengt fæðingu hans og hef síðan farið í gegnum eitt og annað sem mögulega gæti aukið líkur á að eignast fleiri börn, en sú fyrirhöfn hefur ekki skilað neinum árangri.

Ég ofvernda hann fyrir vikið.
Ég er ekki rónni ef ég sé hann ekki, þá er ég farin að leita . Hann fær ekki að fara nema vissa götur og svæði, en börnin sem hann umgengst hafa miklu meira frelsi og þá finnst mér foreldrar þeirra kærulaus og vond sem þau eru að sjálfsögðu ekki. Ég veit alveg að þetta er rangt og óhollt fyrir hann og gerir hann ósjálfstæðan og barnalegan. Ég bara get ekkert að þessu gert. Ég verð bara stjörf við tilhugsunina um að missa hann. Ég velti mér oft uppúr þessum hugsunum.

Ef þetta kunni nú að koma fyrir
eða ef hitt komi nú uppá og áður en ég veit af er ég komin með bullandi hjartslátt og skelf öll. Pabbi hans virðist alveg laus við þetta og gerir bara grín að mér. Finnst ég gera of mikið úr þessu. Ég lifi bókstaflega fyrir hann og vil veita honum sem mest og allra best og ekki síst það sem ég sjálf fór á mis við í minni æsku. Kæra Jóna Rúna, segðu mér nú þitt álit á þessu ástandi ef þú vilt vera svo góð. Með fyrirfram þökkum og gangi þér alltaf sem best. Viltu passa uppá að ég þekkist ekki, það væri óþægilegt.

Kveðja Snúlla .”

Svar

“Kæra Snúlla.
Innilegar þakkir til þín fyrir uppörvunarorð til mín. Eins og þú sérð varð ég bæði að stytta bréfið og breyta því nokkuð, án þess að veikja markmið þess og vonandi líkar þér hvernig ég hef gert það. Bréfið er satt best að segja afar elskulegt og mjög heilbrigð skynsemi sem kemur fram í flestu sem þú segir þó ástandið sé þér ofviða eins og er.

Vissulega skal ég koma með mínar hugmyndir
og íhuga ástand það sem hvílir svona þungt á þér, en þær ábendingar og sú leiðsögn sem ég kann að veita þér og öðrum í svipaðri stöðu verða aldrei til að leysa neitt. Mun frekar og kannski öllu heldur geta ráðin mín verið heppileg til að styðjast við ásamt öllum þeim stuðningi sem þú kýst að nota þér og verður að teljast hefðbundinn. Það er er því hyggjuvit mitt, reynsluþekking og innsæi sem er þungamiðja svara minna, en alls ekki nokkurs konar fagleg þekking.

Náð Guðs
Það er stundum engu líkara en að inní þennan ágæta heim fæðist börn eins og fyrir alls kyn raðir af tilviljunum þó flest læknisfræðilegt hugvit dugi ekki til að gera fæðingu viðkomandi barns mögulega, þrátt fyrir augljósa yfirburði á hinum ýmsu sviðum tækni og vísinda. Það er því ekkert óeðlilegt við þá hugmynd sem flögrar um hug minn núna og einmitt í beinu framhaldi af lestri bréfs þíns að vera kunni að þessi litli drengur sé tilkominn inní þennan heim vegna lífræðistaðreynda en ekki síður vegna einhvers konar náðar.

Ef honum hefur í fyrstu vart verið hugað líf
eins og þú gefur í skyn þá er í sjálfum sér ekkert undarlegt þó þú finnir til óttablandins óöryggis vegna hugsanlegrar framvindu hans hér á þessari jörð. Þú manst svo innilega og svo undur skýrt hvað litlar og hverfular lífslíkur hans voru, bæði á meðgöngu og eftir hana. Ótti sá sem hefur grafið um sig í hugskoti þínu tengdur líklegum lífslíkum hans er að öllum líkindum enn þá til staðar og þú eins og yfirfærir hann ómeðvitað á alla hans tilvist núna og veldur bæði þér og honum ákveðnum þrautum fyrir bragðið.

Lífshlutverk framtíðarinnar
Ef þú íhugar möguleikan á að Guð sé almáttugur og hann hafi gefið þessum litla dreng lífsneistann þegar flest mælti á móti lífslíkum hans, er mjög sennilegt að það hvarfli að þér að Guð hafi í þessum litla dreng séð möguleika einhvers þess lífshlutverks framtíðarinnar sem ekki er í dag augljóst. Lífshlutverki sem kemur í ljós þegar fram í sækir. Náð er meðal annars það þegar það sem ekki ætti að getað gengið upp eftir venjulegum og áður rannsökuðum og bókfærðum staðreyndum gerist, þrátt fyrir að allt mæli því móti. Það er það sem hefur gerst tengt fæðingu hans og síðustu árum og þá væntanlega vegna þess að forsjónin sér tilgang í tilvist stráksa.

Óttinn fjötrar
Ef þú efast um velferð hans og lífslíkur við flest allar aðstæður sem honum stafar alls ekki hætt af ,ert þú þar með að efast um tilgang Drottins þegar hann af miskunnsemi sinni gaf þessu barni líf og í framhaldi af því þau ár sem þegar eru komin þar sem hann hefur verið þér til ánægu miklu fremur en til hugarangurs. Þú segir nefnilega “hann er fallegur, skýr, heilbrigður og alveg yndislegur". Þessi upptalning þín á eðlisþáttum, heilsu og útliti drengsins gefur alls ekki til kynna að hann sé í neinni sérstakri hættu vegna eigin axarskafta eða öðrum merkjanlegum ástæðum eins og þú veist náttúrlega.

Það þýðir jafnframt
að hann hefur mun meiri möguleika við ýmsar aðstæður til að standa sig og sigrast á ýmsu en kannski aðrir og ófullkomnari. Ef þú ert viss um að mat þitt á honum sé svona er full ástæða fyrir þig að endurskoða allt það atferli þitt sem mögulega kann að verða til að grafa undan því sem honum hefur verið gefið og getur ekki fengið að fullu notið sín ef hann er hundeltur af innibyrgðum ótta þínum sem fyrr eða síðar verður honum fjötur um fót og stórminnkar náttúrlega allar líkur á hugsanlegu heilbrigði hans og hamingju í framtíðinni.

Ofverndun skaðleg
Eins og þú bendir svo skynsamlega á sjálf ert þú með þessum stanslausa ótta vegna hans velferðar og ótæpilegri óttatengdri ofverndun, að valda honum hugarangri og hugsanlega innri skaða sem ekki verður svo auðveldlega bættur síðar og kannski alls ekki. Börnin okkar verða að finna sem fyrst sinn eigin mátt og megin og því fyrr sem þeim skilst að þau búa yfir miklu og stórtæku vali tengdu möguleikum á hugsanlegri gæfu því betra.

Vegna þess hvað þú þjáist af óöryggi
á meðgöngu hans og vegna þess að eftir fæðingu hans hefur komið í ljós að hugsanlega verða börnin ekki fleiri, er í sjálfum sér ekkert skrýtið þó þú breiðir þig yfir hann eins og stór vængur öllum stundum til að vernda hann fyrir einhverju sem mögulega kann að henda hann. Málið er bara elskuleg, að það er alveg sama hvað við verndum bæði sjálf okkur og börnin okkar, við erum ekki höfundar lífsins heldur partur af því og þess vegna heldur ósennilegt að við getum af eigin rammleik stjórnað öllu því sem lífið færir börnunum okkar og okkur í fang.

Við getum jú passað þetta og passað hitt
og auðvitað verðum við að veita börnunum okkar uppeldi sem er bæði kristilegt, grandvart og friðsamt en málið er enn og aftur að aðeins brot af því sem hver og einn verður að takast á við á þessari ágætu jörð er á hans valdi að hafa áhrif á. Sem þýðir við getum alls ekki við allar aðstæður baktryggt þá sem við elskum alveg sama hve snjöll og fyrirhyggjusöm við erum.

Við eigum vissulega val
Hvað það varðar sem þú bendir svo raunamædd á að þú bara getir ekki við þetta innra óttatferli ráðið,er þetta að segja: ef við erum svo heppin að sjá að framkoma okkar og framferði við börnin okkar gerir þau bæði barnaleg og ósjálfstæð eins og þú segir sjálf svo greinilega, þá höfum við engan rétt til að taka ekki á þannig vanda og uppræta. Þú segir jafnframt að þú getir ekki stjórnað þessu og alls ekki að þessu gert.

Ef það er rétt mat hjá þér, ert þú í raun að segja að vandi þinn sé þess eðlis að þú kunnir ekki leið frá honum án hjálpar eða stuðnings. Þú snýrð þér til mín sem í sjálfum sér er ágætt en ég aftur á móti vil meina að sá stuðningur dugi skammt þó gagnlegur geti verið sem viðmiðun við annað. Ekki síst vegna þess að ég held, af því að þetta ástand hefur staðið í nokkur ár og er þegar að parti orðið ómeðvitað sé það orðið dálítið taugaveiklunarkennt og jafnframt orðið sennilega að einhvers konar ósjálfráðri þráhyggju sem þýðir elskuleg að nú er komin tími til að leita sér stuðnings sérfræðings um tíma og fá hann til að hjálpa þér að uppræta ótta þann sem tengist tilvist litla kraftaverkadrengsins og er ofureðlilegur að parti en óeðlilegur ef hann fær að blómstra og stækka og breiða sig frekar yfir sálarlíf þitt og þaðan yfir á sálarlíf litla kúts.

Sálfræðingar og vanlíðan
Sú reynsla sem þú hefur farið í gegnum og tengist drengnum og þeim þrautum sem fylgdu í kjölfarið hefur veikt sálræna og tilfinningalega tilvist þína um tíma og til þess að yfirstíga þá vankanta og vanlíðan sem henni fylgja, er mjög sniðugt og jákvætt fyrir þig að drífa þig um tíma til sálfæðings sem er skilningsríkur og vitur og hann mun örugglega verða til að opna þér einhverjar þær leiðir til léttis ástandi þessu.

Sálfræðingur er leið sem hentar
öllu heilbrigðu fólki til að nota sér einmitt vegna ótta sem viðkomandi getur ekki sjálfur og einn unnið á og upprætt. Til þess meðal annars eru sálfræðingar menntaðir og enginn ætti að láta fordóma eða hæðni annarra verða þess valdandi að sá hinn sami missir kjark og nýtir sér ekki þá faglegu þjónustu sem einmitt sálfæðingar samfélagsins geta svo ljúflega og auðveldlega veitt þeim sem þannig þjónustu leitar.

Við verðum að næra okkur sjálf líka
Þegar tilvera okkar öllum stundum snýst um velferð barna okkar og annarra ástvina er það oftast á kostnað okkar sjálfra. Þú varst ekki frekar en við hin látin fæðast á þessari jörð til að taka að þér stjórnunar- og fórnalambshlutverk í lífi barnsins þíns, heldur og miklu fremur hefur þú jafnframt þeim skyldum sem þú hefur við hann, líka skyldur við sjálfa þig og þær eru ekki ræktaðar ef við erum svo gagntekin af því að ekkert hendi afkvæmi okkar.

Ef þú ert lömuð af ótta og óöryggi flesta daga
og getur sjaldan eða aldrei slappað af er ansi hætt við að þú verðir svo andlega yfirkomin og þreytt að þegar svo þú ætlar og nauðsynlega þarft að standa með litla drengnum og þá af gefnu tilefni kannski, getir þú það bara alls ekki vegna þess að margra ára óttferli hefur kaffært allt viljaþrek þitt, skynsemi og viðnámsþrótt. Svo ef þú vilt þessari elsku vel þá leitaðu þér stuðnings og minntu sjálfa þig á að ef ótti þinn fær áframhaldandi líf og nær að taka sér bólfestu í drengnum og valda honum vandræðum eins og þeim sem vissulega skapast hjá öllum þeim sem eru ofverndaðir og skipulagðir of mikið, ert þú þegar betur er að gáð ósjálfrátt að skapa glóðir elds að höfði hans sem síðar í lífi litla drengsins gætu reynst honum þyngri en hann væri maður til að bera og taka afleiðingum af.

Taugaþreyta ekkert til að hæðast að
Hann á sitt líf sjálfur og hefur einungis þann tíma í samfélagi við þig sem Guð ætlar honum og enginn ástæða til að efast um að sá tími geti orðið ykkur bæði hamingjuríkur og happadjrúgur jafnvel mun lengur en við höldum báðar í dag. Alla vegna er sýnilegt að hann er hér og nú og ýmsar hættur kunna að bíða hans eins og okkar hinna. Sumar eru þess eðlis að auðvelt er að fyrirbyggja tilvist þeirra. Aðrar eru aftur á móti þess eðlis að enginn mannlegur máttur getur séð þær fyrir vegna þess að okkur er ætlað af forsjóninni að takast á við þær og vinna okkur á einhvern hátt í gegnum þær og frá þeim.

Við verðum að sætta okkur við það
sem við fáum ekki að hafa áhrif á nema að litlu leyti og vinna úr því sem er á valdi okkar að hafa áhrif á og reyna svo að öllu mætti að greina á milli þessa tvenns. Mundu bara elskuleg að sýna erfiðum og neikvæðum tilfinningum þínum öllum stundum nærfærni og alls ekki koma neinum uppá að hæðast að þeim, því þær eru þó erfiðar séu og óhentugar í augnablikinu, tilkomnar af ástæðum en ekki af ímyndun, eiginlega vegna of mikils taugaálags á löngum tíma. Þær verða því ekki upprættar nema með fullri virðingu við þær og skynsemi, ásamt slatta af þolimæði og skilningi í bland, bæði frá þér og þeim öðrum lærðum sem ólærðum sem blandast inní málið.

Mundu líka að óttablandin hugur
sem við tengjum öðrum hefur áhrif á þann sem fyrir verður og því miður neikvæð, ekki síður en sami hugur veldur okkur sjálfum einhvers konar skaða eða tímabundnu tjóni ef óttinn ræður alfarið ferðinni í öllum tengslum okkar við þá sem við elskum eða tengjumst með einhverjum hætti.

Eða eins og meðvitaða mamman sagði
eitt sinn þegar þreytan á allsherjarvaktinni var gjörsamlega að sliga hana." Elskurnar mínar, eitt er að fæða ykkur og klæða, ásamt því að elska ykkur og örva en annað öllu óviturlegra að hugsa fyrir ykkur og kveikja í ykkur nokkra þá möguleika á ósjálfstæði sem gæti reynst manngildi ykkar fjötur um fót þegar kemur að því að þið ein og óstudd verðið að axla ábyrgð á eigin lífi og framkvæmdum. Svo verið þið bara blessuð börnin mín þið sjálf, en ég skal leiðbeina ykkur og styðja hvenær sem þið óskið þess og ekki síður þegar ég vegna forskots í þroska eygi einhverja þá hættu sem mögulega mætti koma ykkur hjá og ýtt gæti undir óþarfa erfiðleika hjá ykkur. Meira get ég ekki gert nema ég æski þess sjálf að tapast og hverjum gagnast ég þá? Ekki einu sinni sjálfri mér hvað þá ykkur eða þannig."

Guð gefi þér styrk til að yfirvinna óttan
og ná að nálgast barnið þitt með öryggi í hug og hjarta. Þannig eflir þú ósjálfrátt líklega velferð hans við flestar aðstæður en ekki öfugt.

Með vinsemd
Jóna Rúna.


Póstur til Jónu Rúnu


.