Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Jóna Rúna miðill, svarar bréfi "Gabriellu".
Lífsneistinn að fjara út.
Kæra Jóna Rúna!
Ég þakka þér kærlega fyrir vel skrifaðar greinar, sem gera manni svo gott. Vandamál mitt er þess kyns að erfitt er að útskýra það, en ég ætla samt að reyna það eins vel og ég get. Til að byrja með vil ég að það komi fram að ég er vel undir tvítugu og er í skóla, ásamt því að vinna um helgar.
Þannig er mál með vexti
að síðustu tvö árin hafa verið mjög erfið fyrir mig, ekki endilega það að utankomandi aðstæður hafi verið erfiðar, heldur er eins og lífs-neisti minn sé að dofna. Ég er smá saman að verða áhugalaus fyrir öllu, finnst jafnvel það besta sem ég geri sé að sofa.
Þegar ég var yngri var ég alltaf vinsæl.
Átti nóg af vinum og hafði mikinn metnað tengdan öllu því sem ég gerði. Núna er eins og ekkert veki áhuga minn og allur metnaður minn sé horfinn, t.d. hef ég alltaf verið há í skólanum, en nú er áhuginn fyrir því að minnka líka. Ég er farin að öfundast út í þá sem gengur vel hjá, því mig langar svo að hafa það gott.
Mig langar svo að verða virkilega góð í einhverju.
Ég þekki marga stelpur sem gengur vel í dansi, tískusýningarstörfum og við þetta er eins og ég fái sting í hjartað. Á tímabili var ég að hugsa um að taka þátt í fegurðarsamkeppni, því þar þarfnast ekki svo ýkja mikilla hæfileika og ég verð víst að teljast frekar andlitsfríð. Málið er bara að ég fer óðum fitnandi því maturinn eins og svefninn er það sem virðist gefa lífinu gildi um þessar mundir.
Ég hef stórar áhyggjur af því, að mér finnst ég ekki eiga neina vini, er reyndar farin að fjarlægast fólk. Ég þrái það svo innilega að tilheyra hópi og þekki reyndar fullt af fólki, en það er bara eins og ég eigi ekkert sameiginlegt með þeim. Þegar ég er með öðru fólki veit ég ekkert hvað ég á að segja, mér finnst ég svo skoðanalaus og óáhugaverður persónuleiki.
Vissulega er ég ekki alltaf þunglynd,
rýk stundum upp í mikla gleði og er þá hrókur alls fagnaðar, en það er svo sjaldan og þá er engu líkar en ég vilji gleypa allan heiminn. Ég er búin að vera með sama stráknum í eitt ár og mér þykir ótrúlega vænt um hann. Með honum finn ég líka fyrir áhugaleysi, og ég hef ekki lengur áhuga á að sofa hjá honum, samt vill ég alltaf umgangast hann, því ég á svo erfitt með að vera einsömul.
Ég hef verið með mörgum strákum
og held það stafi af öryggisleysi, því foreldrar mínir skildu þegar ég var níu ára og ég einfaldlega þarfnast sárlega pabba.
Elsku Jóna Rúna viltu reyna að leiðbeina mér. Ég vil síst af öllu vera óvirkur þátttakandi í lífinu.
Kær kveðja
Gabriella
Elskulega Gabriella,
mikið ertu jákvæð og skilningsrík í skrifum þínum um mig, þakka þér innilega fyrir, því ekki veitir af á þessum síðustu og allra undarlegustu tímum. Við reynum elskuleg, að skoða ástand það sem þú ert í og þig sjálfa í gegnum innsæi mitt og lítillega skoða ég vísbendingar í skriftinni þinni, sem koma mættu að einhverju gagni fyrir þína ágætu persónu. Mér þykir svo vænt um að fá bréf frá fólki undir tvítugu, sem er að pæla í sér og lífinu sem slíku og þá bæði strákum og stelpum.
Skilnaður foreldra áhrifaríkur
Við skulum til að byrja með, kæra Gabriella, hverfa nokkur ár aftur í tímann og íhuga eilítið hvað gerist í litlu barns hjarta, þegar pabbi og mamma skilja. Þegar við erum börn erum við mjög háð foreldrum okkar og ef við finnum að ekki er allt með felldu í framkomu þeirra og samskiptum hvert við annað erum við óaðvitandi flest í því að reyna að milda ástandið með því að reyna að þóknast þeim og reyna jafnframt að uppfylla flestar þeirra kröfur hvort sem þær koma frá þeim eða bara að við búum þær til fyrir þeirra hönd.
Undanfari skilnaðar er alltaf erfiður
og á einhvern hátt taugatrekkjandi fyrir okkur smáfólkið. Við getum ekki áttað okkur á hvers vegna Pabbi og mamma geta ekki fellt sig hvert við annað sérstaklega, þegar við sjálf getum auðveldlega lifað þau bæði af svo vel fari finnst okkur.
Rétt er þó að taka það fram,
að við erum mjög mismunandi sterkt tengt hvoru um sig. Það virðist í þínu tilviki vera eins og þú hafir verið tilfinningalega háðari föður þínum, en undir meiri stjórn mömmum þinnar og þess vegna hangir þú í ófull-komnu sambandi við strákinn sem þú ert með. Væntumþykja og smyrsl á gömul sár er allt annað en ást, elskuleg.
Það rót sem kemur á okkur krakkana
við skilnað foreldra okkar er meiriháttar mál, því ef okkur verður á þessum tíma sem skilnaðurinn er að ganga í gegn á að vera óþjál eða erfið, getum við þess vegna ímyndað okkur, að við vegna þess hvað við erum erfið getum hafa gert þetta stríð þeirra raunverulegt, sem náttúrlega er algjör grundvallar misskilningur. Öryggisleysi það sem þú talar um, sem afleiðinu af skilnaði foreldra þinnar er örugglega rétt greining hjá þér, en málið er bara að þú bætir það ekki upp í gegnum aðra og alls ekki hitt kynið. Það er líka bersýnilegt að þú ert sjálf það klár, að þú sérð þetta, ef þú slakar aðeins á og lætur eins og þú sért að skoða einhvern annan en þig og þá persónu sem er í sömu eða svipaðri aðstöðu.
Fullkomnunarárátta óæskileg
Þú talar um að þú sért sérlega óáhugaverð og ófær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þetta getur ekki verið, elskan því þú hefðir aldrei valið að skrifa mér svona einlægt og greindarlegt bréf ef þú værir ekki undir niðri bæði þroskuð og líklega býsna sjálfstæð, þó minnimáttarkenndin sé að gera þér lífið leitt í augnablikinu.
Ef við reiknum með því,
að þú sért að fara í gegnum svo sem eins og þriðja og kannski fjórða kafla þinnar eigin lífsbókar er ekkert dularfullt við það að þér hundleiðist. Þú veist það, elskan, að bækur eru með mismunandi áhugaverðum köflum og tímabilum út alla bókina. Hver persóna fær í vöggugjöf óskrifaða bók, sem henni ber að leggja metnað sinn í að gera eins áhugaverða aflestrar og hægt er, þegar upp er staðið ef hægt er. Viljann til verksins átt þú sjálf því Guð gaf okkur öllum frjálsan vilja. Ef ég ætti að lesa lífsbók þína á endanum þá bið ég þig vinsamlegast að gleyma ekki að vera leiðinleg, döpur, óviss, óörugg og fúl af og til gegnum þína ágætu bók, því annars verður bókin svo flöt og á annan hátt óeðlileg.
Mistök er nauðsyn til að við getum lært og þroskast af þeim.
Þú aftur á móti virðist í dag einungs geta fellt þig við það liðna og, þá þau tímabil þegar þú stóðst þig betur, heldur en kannski var eðlilegt fyrir litla viðkvæma stelpu eins og þú óneitanlega ert elskan. Málið er að ekkert okkar er fullkomið sem betur fer.
Svefn og aukakíló
Þegar við viljum sofa af okkur lífið erum við vissulega dálítið þung, og ef við svo í þokkabót örfum okkur með aukabitum og kannski sælgæti erum við líka pínulítið þung. Við sem þannig er ástatt fyrir skortir flest persónulegan áhuga á okkur sjálfum á þann hátt sem örfar okkur til dáða.
Sjálfsást er mjög mikilvæg
og fyrsta og eina forsenda þess að geta elskað aðra. Megrunarkúrar geta verið hættulegir og alls ekki hollir unglingum, því ef þeir eru ekki framkvæmdir með hjálp læknis, er hætt við að eitthvað fari úrskeiðis, sem erfitt getur verið að sjá fyrir endann á. Aukakíló er alls ekki það versta, sem getur hent okkur, því að útlitið er ekki mælistika á manngildi okkar sem betur fer. Hitt er svo annað mál, að það er ekkert skemmtilegt, að fá ekki á sig þær buxur sem við vildum helst, eða að þurfa kannski að draga peysuna óþarflega langt niður, ef rassinn er of stór að okkur finnst. Mundu bara elskan að fitubollustand er eitthvað sem er hægt að laga, en aftur á móti ef þig vantaði heyrnina væri öllu erfiðara að eiga við það fyrir læknisfræðina, þó hún sé langt komin.
Hvað varða mikinn svefn
og ánægjuna sem honum fylgir, þarf slíkt ekki að vera neitt sérlega dularfullt eða annarlegt. Sumt fólk er t.d. mjög þungt og slappt í lægðum sem fara yfir landið og þær eru nánast eitt algengasta veðurfarið á þessu annars ágæta landi. Ef þú ert ein af þeim sem ert plöguð af slíku, er mjög gott fyrir þig að sofa tvisvar á sólahring og þá á nóttunum og svo aftur á milli svona fimm og átta síðdegis. Þú kemst fljótt að því að þú breytist og færð aukin þrótt í ofan á lag.
Ef ég væri þú myndi ég fá mér góðan
og nærgætinn sálfræðing til að koma mér út úr fortíðinni, og þá sérstaklega skilnaði foreldra þinn á sínum tíma. Þar hafa greinilega skapast röng samskiptatengsl þín við sjálfa þig og sjálfsmatið farið úr böndunum og þetta má auðveldlega laga með réttum sálfræðingi. Eins myndi ég byrja markvissa sjálfshjálp með lestri sjálfsstyrkjandi bóka eins og " Elskaðu sjálfa þig og Vertu þú sjáfur". Þetta eru meiriháttar góðar bækur og fást hjá bókaforlagi í vesturbæ Reykjavíkur og gettu nú. Þessar mögulegu leiðir til bóta, verða þér örugglega happadrjúgar, hvora sem þú velur, og kannski henta jafnvel báðar, elskan.
Lífsleiði
Ef við finnum fyrir því að það er enginn sýnilegur tilgangur með tilvist okkar, erum við fremur ósanngjörn og grunnhyggin. Það er margsannað mál að ekkert líf er tilgangslaust og þar á meðal er þitt líf. Þú ert ung og á margt eftir ógert, sem betur fer.
Strákamálin myndi ég hvíla um sinn,
vegna þess að þau íþyngja þér, en ekki auðvelda ástand það sem gerir þig svo dapra. Hvað sem hinn aðilinn kann að vera þægilegur og góður, eru alltf einhverjar kvaðir og kröfur sem svoleiðis samböndum fylgja. Hann getur eins og þú bentir á slegið dálítið á óöryggi þitt, með nærveru sinni og þar með virkað eins og foreldri, sem gerir barn sitt afslappaðra með nærveru sinni. Þetta er því ekki tilfinningasamband,
sem líklegt er til að gera þig hamingjusama og um leið gerir þú hann náttúrlega vansælan, af því, að þú sennilega getur ekki leynt því til lengdar, að þú ert ekki fljúgandi áhugasöm. Til vara vil ég segja þér, að ég benti á þetta af nauðsyn, en ekki til að læða inn hjá þér viðbótar sektarkennd, nóg er af henni samt sýnist mér.
Metnaður nausynlegur
Við verðum öll að hafa einhvern æskilegan metnað í lífinu og þar verður þú að íhuga þinn gang, þar sem mér sýnist Guð hafa beinlínis stútfyllt þig hæfileikum og greind er það fyrir neðan virðingu þína að hafna gróflega öllu saman og ganga um fullkomlega metnaðarlaus.
Þú segist sjálf ekki óska eftir
að vera óvirkur þátttakandi í lífinu, sem er mjög glögg og áhugaverð niðurstaða, sem afleiðing af þessu tímabundna ástandi uppgjafar sem þú ert í. Hver manneskja á sína dimmu dali af og til sem viðkomandi verður að ganga í gegnum, og er hreint ekkert við það að athuga, nema þá kannski að nenna ekki að klæða sig upp og berjast dálítið við vinda þá sem í dalnum eru, og labba í róleheitunum dalinn á enda og yfir í birtuna, sem bíður róleg við enda hans.
Engin hefur enn þá efast um tilgang andstreymis,
sem hefur orðið að vinna sig frá því vegna þess, að einmitt í gegnum örðuleika lífsins verðum við hæfari til að skilja hugsanlegan lífstilgang, þó vissulega það hvarli ekki að okkur þegar okkur líður sem verst og sjálfstraustið er langt frá því sem raunhæft er, eins og það er hjá þér í augnablikinu, kæra Gabriella.
Manngerð skoðuð með innsæi og skrift
Þegar kemur til greina að velja ævistarf verður þér nokkur vandi á höndum, vegna þess, hvað fjölhæf þú ert. Öll störf sem krefjast andlegrar dýptar ættu mjög vel við þig. Þú ert mjög næm og hefur sennilega áhuga fyrir innri hlutum mannsálarinnar.
Eins ertu greinilega músíkölsk
og gætir auðveldlega reynt fyrir þér á þeim sviðum. Þú ert mjög forvitin og leitandi manngerð, sem kannski villt fá rökrænar skýringar á sem flestu, og líka á því, sem erfitt getur verið að skýra þannig svo vel fari. Þetta gerir þig nokkuð jarðbundna og fráhverfa öllu hugsanlegu tilgangsleysi.
Þú þarft nauðsynlega að eignast trúnaðrvin,
sem þú getur verið svolítið hallærisleg í samræðum við, því þú felur þá þætti sem eru okkur öllum eðlilegri of mikið. Reynir að virka fullkomnari en hollt er og það getur gert þig fráhverfa fólki.
Ég held til að byrja með
að þú gætir fengið mikið út úr því, að fara í kór eða danstíma, þar myndast félagsleg tengsl, sem eru í flestum tilvikum jákvæð og upp úr því getur komið góð vinátta þeirra sem henta þér. Gömlu dansarnir eru sniðugir og þjóðdansar líka, þó vissulega séu tískudansar meiriháttar. Aftur á móti sting ég uppá steppi, og vonandi færðu ekki taugaáfall yfir þessari frábæru hugmynd minni.
Kristileg samtök ýmis konar
eru líka mjög góð leið fyrir okkur þegar við erum ekki viss um lífstilganginn og þau eru nánast á hverju götuhorni. Þar er elskulegt fólk að þroska sjálft sig í gegnum trú sína á Jesúm Krist. Þú hefur mikinn húmor, sem liggur óvenjuvel greindarlega, auk þess sem þú getur verið mjög frumleg og skapandi, ef því er að skipta.
Þig virðist vanta dálítinn sjálfsaga,
einbeitingu og ögn af þolimæði, ásamt því að vera stundum dálítið eirðarlaus. Öll flatneskja hlýtur að fara rosalega í taugarnar á þér og af þeim ástæðum máttu ekki verða til þess að gefa henni líf sjálf. Hugmyndarík ertu, en nokkuð smámunasöm. Sem sagt, elskuleg, þér er vorkunnar-laust að taka þig svolítið upp á eyrunum og breyta þessu viðkvæma ástandi þér í hag smátt og smátt. Það þarf ekkert að gerast í hvelli sem betur fer.
Eða eins og sæta skólastelpan sagði
eitt sinn þegar flest virtist vaxa þessari elsku í augum:" Hugsið ykkur ég var búin að gefa allt frá mér, þegar ég datt niður á þá frábæru hugmynd að byrja mitt innra uppbyggingarstarf. Nú það var eins og við manninn mælt, að það bara rann upp fyrir mér, að ef ég kæmi á móti lífinu með bros á vör og gleði í huga, kæmi það á móti mér á nákvæmlega sama hátt. Síðan hefur flest breyst hjá mér og það þakka ég þessum frábæra möguleika, enda er ég miklu bjartsýni og reyndar nýt þess að fá að lifa".
Guð verði þér hjálplegur á leið þinni að sjálfri þér,
þar sem þú augljóslega ert hæfust og hamingju möguleikar þínir eru mestir. Þó þú þurfir að berjast dálítið til þess. Guð hjálpar nefnilega þeim sem hjálpar sér sjálfur og því megum við aldrei gleyma elskuleg.