Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Jóna Rúna miðill svarar bréfi frá "Kalla"

Ill öfl mögnuð upp í húsum og fólki

Flest snúist til verri vegar
Á liðnum árum hef ég fengið allmargar fyrirspurnir um möguleika á því að ill öfl geti verið föst í vissum húsum og geti komið sér fyrir jafnvel í besta fólki þannig að til vandræða sé. Eiginlega mögnuð upp með hvers kyns neikvæði.Það bréf, sem mér finnst allrar athygli verðar, er frá manni á miðjum aldri sem kýs að kalla sig Kalla og segir farir sínar og sinna hreint ekki sléttar síðustu fimm árin. Hann telur eiginlega að flest hafi snúist til verri vegar í lífi þeirra og tilveru.

Vanstilla og myrkfælni
Við gefum Kalla orði." Það byrjað eitthvað mikið að ske hjá okkur hjónunum þegar við fluttum í húsið sem við búum í núna.Það hefur bókstaflega allt gengið á afturfótunum í langan tíma hérna hjá okkur.Konan mín er til að mynda óþekkjanleg á köflum verð ég að játa. Hún er mjög vanstillt verð ég að segja." Kalli heldur áfram og segir mér undan og ofan af högum þeirra í gegnum tíðina."Það er svo skrýtið Jóna Rúna að meira að segja krakkarnir eru ókyrr hérna heima ef þau eiga t.d. að vera ein. Sonur minn undir fermingu vill alls ekki sofa í herberginu sínu á nóttunum og neitar að vera einn heima með systkinum sínum, þó um hábjartan dag sé, ef enginn fullorðin er heima. Hann er líka mjög hræddur við mömmu sína þegar hún er í vanstilluköstunum eins og við hin reyndar líka. Ég er þó sæmilega hávaðasamur sjálfur ef því er að skipta" segir Kalli.

Hegðunarörðuleikar og annað vesen
Hann bætir við heilum helling af alls kyns lýsingum á undarlegum hegðunarörðuleikum konu hans oftast af engu tilefni. Hann telur að þetta atferli sé eins og sviðsett og hafi alls ekki verið einkennandi fyrir hana áður en hún flutti í þetta hús. Hann segir að áður hafi þau nánast aldrei rifist, en núna má segja útaf öllu mögulegu og ómögulegu. Hann er mjög svekktur og hefur sjálfur verið að kljást við atvinnuleysi, en úr því hefur sem betur fer ræst segir hann og er að vonum mjög ánægður með það.Kalli segir," Það er engu líkara en allt hafi breyst til hins verra hjá okkur við að flytja í þetta hús. Endalaus leiðindi, veikindi, peningaleysi, rifrildi og annað vesen"

Galdrar og djöfladýrkun
Hann spyr töluvert um hvort það geti verið að mannseskjan sé andsetin, vegna þess að hann vill meina að hún sé í eðli sínu bæði góðlynd og jákvæð. Hann segir,"Það getur varla staðist að ein manneskja breytist svona, nema eitthvað mikið og erfitt utanaðkomandi afl komi til." Húsið sem þau búa í, eitt og sér, gefur tilefni til að láta sér detta í hug einmitt þetta með andsetnina heldur hann. " Mér er", segir Kalli" kunnugt um að fólkið sem bjó hérna áður var á mjög neikvæðum leiðum. Óhætt er að fullyrða að það hafi misnotað eiturlyf, verið í kukli og mjög sennilega hafi þau stundað einhvers konar djöfladýrkun." Hann lýkur bréfi sínu leiður á þessum orðum og hann þakkar mér fyrir svarið fyrirfram.
Ég nota áfram hyggjuvit mitt, innsæi og reynsluþekkingu til svaranna eins og alltaf áður.

Ýtt undir ill öfl
Það fer víst ekki á milli mála að eitthvað meira en lítið er gangi hjá þessari ágætu fjölskyldu eins og reyndar mörgum öðrum virðist vera. Kalli telur engan vafa á því að samband er á milli nýja hússins og þess sem þau eru að upplifa sem er vissulega erfitt og sérkennilega óþægilegt fyrir alla heimilisfasta. Eins og hann bendir á þá er forsaga hússins heldur dapurleg a.m.k. andlega og því mjög sennilegt að það þurfi að hreinsa með sérstökum aðgerðum húsakynin. Það segir sig sjálft að það er mjög hættulegt að ástunda hvers kyns uppmögnun á illum öflum. Við lifum í heimi þar sem ríkjandi eru tvö andstæð öfl að staðaldri. Öflin gott og illt.

Dýrkun á myrkri og neikvæð hugsanagervi
Hafi í þessu húsi sem Kalli býr í núna verið búandi fólk í langan tíma sem hefur verið bæði á valdi eiturlyfjafíknarinnar ekkert síður en á valdi annars konar og ekki síður varhugaverðs myrkurs. Nefnilega dýrkunar á alls kyns óvættum myrkursins, þá getur ýmislegt óhuggulegt hent. Ekkert óeðlilegt er, þó einhverjar tímabundnar eftirhretur slíks neyðarástands kunni að lifa eftir í formi óþægilegra og neikvæðra hugsanagerva í húsnæðinu.Hugsanagervi eru lifandi afl sem er að sjá fyrir þann skyggna eins og litríkir magnþrungnir skýjahnoðrar, sem safnast saman í híbýlum manna t.d og mynda eins og hugsanaský.

Áður óþekkt vandræði
Misstór og öflug, allt eftir magni hugsananna sem upphaflega kom þeim af stað og lifa í þeim mismunandi óþægilegar eða þægilegar allt eftir atvikum. Auðvitað valda þau þeim sem inní slík hugsanagervi flytja einhverjum áður óþekktum vandræðum séu þau í eðli sínu neikvæð. Kalli talar sérstaklega um konuna sína og ungan son í þessu sambandi. Hugsanlega eru þau næmari fyrir hvers kyns ósýnilegu áreiti af þessum toga en aðrir fjölskyldumeðlimir. Einmitt þess vegna verða þau vör við að þau breytast meira en hinir. Hugsanagervi þau sem hlaðast upp í híbýlum manna, gera það einungis vegna hugsana viðkomandi íbúa. Þau liggja í alls konar litum útum allt eins og litlir eða stórir skýjahnoðrar eins og áður sagði og eflast við frekara áreiti hugsana séu þær neikvæðar, en þvert á móti séu þær jákvæðar.

Óheppileg víxlverkun hugsana
Ef kona Kalla er sífellt í uppnámi má halda því fram að hún auki og efli vægi þessara hugsanagerva og hreinlega viðhaldi þeim með neikvæði sínu. Hún aftur á móti fær jafnframt vissa andlega næringu úr þeim af því að þau eru hlaðin andleg áhrifaorka sem nærast á slæmum hugsunum og eflist og braggast vel við hvert neikvætt atferli nálægra. Þannig að þarna má segja að um geti verið að ræða andlega og óheppilega víxlverkun hugsana. Eiginlega ómeðvitaðs samspils á milli konunnar og hennar hugsana og svo aftur á móti hugsanagerva sem fyrir voru í húsinu þegar þau hjónin fluttu þangað inn og eru í eðli sínu áreitandi við vissar aðstæður sýnilega.Ef þetta reynist rétt greining getur þetta ástand breytt atferli og hegðun konunnar það óeðlilega, að virst getur að um alvarlega andsetni gæti verið að ræða, að minnsta kosti þegar hún fær þessi svo kölluðu köst.

Jákvæð lífssýn mikilvæg
Þetta þýðir að í raun í eiginlegum skilningi þarf hún ekki að vera andsetin, mun frekar í þessu tilviki að hún sé yfirþyrmandi neikvæð og óréttlát og sækji meðal annars til þess arna aukin styrk í hugsanagervin svokölluðu sem fyrir voru neikvæð og ill í húsinu. Þær varnir sem eru heppilegastar þegar um er að ræða vandræði vegna neikvæðra hugsanagerva eru einfaldlega sterkar jákvæðar hugsanir þeirra sem á heimilinu búa á móti þeim uppsöfnuðu neikvæðu sem fyrir voru. Þær jákvæðu myndu smátt og smátt eflast og mynda þá annars konar ský hugsana sem eru öllu léttbærari hugsanagervi andlegrar orku sem myndi virka mjög vel á alla heimilisfasta.

Andsetni eða yfirskygging möguleg
Hvað varðar mögulega andsetni konurnar og þá er átt við væntanlega að einhver látinn finni sig yfirskyggja vitund hennar er þetta að segja. Það er vissulega til í dæminu að slíkt geti gerst og kannski oftar en við viljum trúa. Er þá um að ræða einhverja jarðbundna veru sem finnur sig fjötraða hinum megin og óskar eftir að vera komin í jarðlíkamann aftur. Slík vera eða andi án efnis getur ekki tekið sér bólfestu í manneskju sem hefur andlegar varnir sínar í lagi og hefur lagt sig eftir að efla innra með sér jákvæða lífssýn. Öllu jafna sem betur fer er kona Kalla jákvæð og réttsýn sem er verndandi auðvitað.

Hvetjandi ylstraumar
Það er manneskju sem hefur stillt og heflað skap og er í raun friðsöm og kærleiksrík. Er réttsýn, bjartsýn og trúuð. Manneskju sem er í vilja sínum til lífsins velviljuð og heiðarleg og vill veg þess góða og göfug sem mestan í sjálfs síns dagfari. Þannig einstaklingur brosir við tilverunni og gefur sjálfkrafa ylstrauma frá sér sem virka bæði hvetjandi og andleg nærandi á þá sem á vegi viðkomandi verða. Þannig hugsandi persóna myndar sinn eigin innri varnarvegg og heldur er ósennilegt að nokkuð skaðvænlegt kunni að taka sér bólfestu í hug hennar eða hjarta, fremur auðvitað eitthvað þvert á móti. Hún geislar af góðvilja og fær allt og alla til að upplifa tilveruna á ögn friðsamari máta en sá sem alltaf er ósáttur, neikvæður, nöldrandi og leiðinlegur öllum til ama og sjálfum sér til megnustu armæðu auðvitað.

Áran og verndarenglarnir
Kalli talar um að allt hafi farið úr böndunum og meðal annars sé ungur sonur þeirra ákaflega myrkfælinn og óöruggur. Vissulega er það erfitt fyrir hann sjálfan. Hann kann að hafa veiklað eða illa þroskað orkusvið eða það sem venjulegast er kallað ára eða blik. Það er þá mun viðkvæmara fyrir öllu utanaðkomandi áreiti, hvort sem það tilheyrir þeim sem farnir eru og þeirra hugsunum eða einfaldlega þeim sem eru hérna megin grafar og kunna ekki að stilla skap sitt og neikvætt hugarfar. Einmitt eins og móðir hans sýnilega á stundum á allerfitt með, þó góð kunni að vera og vönduð að ýmsu öðru leiti. Best væri sennilega að byrja á því að segja honum frá þeirri staðreynd sem er hákristileg og ákaflega mikilvæg og það er að hver einasta persóna sem lifir á sér sinn verndarengill sem hún getur beðið um að umvefja sig og vernda dag og nótt, sem betur fer. Eins er vissan um nærveru Krists mikilvæg staðreynd og holl umhugsun.

Umvefjandi öryggisfaðmur Guðs
Við eigum í gegnum bænina kost á guðlegri forsjá sem orkar eins og umvefjandi öryggisfaðmur utan um sál okkar, einmitt á augnablikum þar sem við finnum okkur hrædd, einmanna og umkomulítil. Þannig væri eðlilegt að Kalli kenndi honum, ásamt móður hans náttúrulega á gildi trúarinnar og á mikilvægi þess að rækta bænina og samfélag við Guð, Krist og verndarengilinn. Hann með þannig vitneskju og vissu fer ósjálfrátt sjálfur veg þess góða og gegna í tilveru sinni. Og hlýtur þar af leiðandi að finna fyrir öryggiskennd hið innra fyrr en síðar. Einmitt með þessum aðferðum losnar fólk oftast fyrirhafnarlítið við það sem kallað er myrkfælni og óþarfur ótti við ókunn öfl tilverunnar.

Vesen og vandræði
Vissulega gæti verið eðlilegt að álykta sem svo þegar vinnan hverfur,peninga vantar, og hitt og þetta mótdrægt kemur upp á yfirborð hins venjulega lífs, að eitthvað afl neikvætt vinni á móti hamingju þessarar fjölskyldu eins og um einhvers konar álög væri að ræða.Jafnvel uppmagnað í húsinu af því ófullkomna fólki sem bjó þar áður. Sé svo verður því aldrei létt nema með jákvæðri afstöðu til þess sem hefur hent viðkomandi og er erfitt. Öll él birtir upp um síðir og vonandi verður raunin sú hjá Kalla og hans fjölskyldu. "Lát ekki af trú yðar", stendur einhvers staðar í hinni helgu bók. Eða eins og dauðskelfdi maðurinn sagði eitt sinn í ágætum hópi vina."Elskurnar mínar, auðvitað hefur gengið á ýmsu. Eiginlega má segja að flest hafi hrunið. Það sem þó alltaf stóð eftir var vissa mín um það að Guð sér um sína og þar við sat og situr.

Með vinsemd
Jóna Rúna


Póstur til Jónu Rúnu


.