Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Jóna Rúna miðill svarar bréfi frá "sakamanns" undir tvítugu

Fyrrverandi afbrotamenn geta orðið fyrirmyndarmenn

Kæra Rúna!
Mér finnst þó ég viti varla hvernig að ég eigi að skrifa þér og bæði segja þér svolítið frá reynslu minni og svo að leyta hjá þér ráða og leiðsagnar ef hægt er. Ég hef fylgst með því sem þú ert að gera og þakka þér fyrir það. Vonandi kem ég skammlaust orðum að því sem mig langar að ræða. Ég er einn af fimm systkinum sem áttum heima í þorpi út á landi. Foreldrar mínir voru bæði áfengissjúklingar og venjulegast var drukkið allar helgar og oft þess á milli. Það má segja að við systkinin höfum alið okkur upp að mestu sjálf. Pabbi var líka og er pilluæta og gjörsamlega snarvitlaus undir þessum áhrifum saman.

Þegar ég var átta ára
fór ég að eiga mjög erfitt með að vera í skólanum og hætti að mæta og faldi mig. Ég kynntist eldri strák sem bæði drakk og reykti og var í innbrotum. Saman fórum við að stela og ég síðan að reykja eitthvað um níu ára og skömmu seinna að drekka. Þegar ég var um tólf ára var ég orðinn mjög háður pillum sem stundum eru kallaðar "Dísur" og stal þeim hvar sem ég vissi um þær, auk þess sem drykkjan jókst. Mér var komið fyrir hjá vandalausum vegna heimilisástæðna, þjófnaða og óreglu á sjálfum mér sem vissulega samanlagt var allt til að auka vandræði mín gagnvart sjálfum mér og öðrum. Mér var alls staðar ofaukið bæði heima og síðar hjá fósturforeldrum þannig að á endanum mátti gatan einfaldlega eiga mig.

Afbrotaferill minn tengist í öllum tilvikum
rugli og brjálsemi minni undir áhrifum. Ég varð alltaf að hafa nóg af pillum og víni. Ég var búinn að skipta um vinnu eins og aðrir um náttföt áður en ég varð sextán ára. Það oft að það virtist vera flestum ljóst og á endanum fékk ég ekki vinnu. Bæði var að ég leit illa út og svo að ég hef kannski virkað frekar heimskur, vegna þess að þegar bráði af mér var sjálfstraustið ekki mikið og ég átti sérlega erfitt með að tjá mig og á reyndar enn þá.

Í dag er ég búinn að fara í meðferð
og er að reyna að byggja mig upp, en mér finnst flestir hunsa mig. Ég á kærustu, en henni finnst ömurlegt að ég skuli eiga eftir að afplána þó nokkra dóma ennþá og suma frekar langa. Allt tengt eiturlyfja og brennivínsrugli. Við eigum von á barni og það veit Guð að ekki langar mig til að ala barnið mitt upp eins og ég var alinn upp með því að velja sjálfur sömum hegðun.

Ég held Jóna Rúna að það sé nokkuð erfitt
fyrir mig að fá uppreisn æru og stundum verð ég mjög þungur og lífsleiður og langar bara að klippa á þetta allt með sjálfsvígi. Samt held ég að ég berjist áfram barnsins vegna. Hvert get ég leitað til að fá meiri persónulega uppbyggingu? Ég sæki A.A. fundi, en samt vil ég og þrái að vera með öðru fólki líka og þá fólki sem ekki á sömu rætur og ég. Heldur þú að það væri athugandi fyrir mig að læra eitthvað? Ég er frekar handlaginn og á mjög auðvelt með flest sem tengist smíðum og tækjum.

Finnst þér ekki að þessi saga mín
sé það ömurleg að hún geti kannski hjálpað einhverjum sem er að byrja það fáránlega líf sem ég lifði en er nú hættur? Ef ég á einhverja ósk þá er hún sú að foreldrar hugsi sig tvisvar um áður en þeir vísvitandi eyðileggja líf barnanna sinna með alls kyns óreglu og ömurlegheitum. Ég var á vissan hátt heppinn amma mín var mjög góð við mig og kenndi mér að biðja og trúa á Jesú Krist. Ég er þó ekki í trúfélagi.

Eiga sakamenn og klúðrarar eins og ég
að þínu mati Jóna Rúna einhvern rétt á annars konar lífi ef þeir myndu vilja? Heldur þú að kærasta mín yfirgefi mig með barnið af því að ég á dómana eftir? Ég hef ekkert brotið af mér í tvö á og ekki notað neitt efni sama tíma. Þetta kannski segir þér eitthvað um mig. Í dag vinn ég verkamannavinnu og vinn mjög mikið. Heldur þú að þegar ég dey verði mér refsað fyrir syndir mínar á jörðinni? Er alveg víst að við lifum líkamsdauðann?

Hvað heldur þú að megi
rekja mikið að fyrri og núverandi erfiðleikum mínum til drykkjuskapar og vandamála pabba og mömmu? Mér finnst sjálfum ég ekki vera haldinn glæpahneigð og á raunverulega nokkuð gott með að sjá mun á réttu og röngu, þó virðist annað vegna alls sem ég hef gerst brotlegur með. Lengi átti ég í miklum erfiðleikum vegna þess að ég hélt að það vildi mig enginn og enginn gæti elskað mig af því að ég væri ógeðslegur afbrotamaður. Nú læt ég þetta nægja og vona kæra Jóna Rúna að þú verðir áfram þú.

Takk fyrir allt
Sakamaður

Elskulegi Sakamaður!
(Eins og þú kýst sjálfur að kalla þig.) Ég þakka þér fyrir frábært bréf og vona að slóð þess verði aldrei rakinn til þín. Ég varð að stytta og breyta smávegis orðalagi þínu og persónulegum stíl, vegna hættu á að.þú kynnir að þekkast. Kærar þakkir til þín frá mér fyrir góð hvatningarorð og áhuga á því sem ég er að gera.

Auðvitað gleður það mig
að guttar eins og þú skulir lesa þessa pistla mína og vona bara að ég haldi þeim áhuga ykkar þangað til ég fer að lesa pistla eftir einhvern ykkar, sem alveg eins gæti orðið ef þið smá saman reisist við og eflið það besta í ykkur. Ég svara eins og alltaf áður með innsæi, hyggjuviti og reynsluþekkingu minni því sem þú spyrð um og læt jafnframt hugsanlegt fordómaleysi hafa áhrif á það annað sem ég kann að segja í svari mínu til þín og annarra í svipaðri stöðu.

Gallaðar fyrirmyndir
Lýsing þín á uppvexti þínu er heldur nöturleg og þú bendir svo sannarlega á ákveðinn sannleik þegar þú segir okkur foreldrunum að hugsa okkur tvisvar um áður en við verðum til þess að eyðileggja lífsmöguleika barna okkar með óreglu og öðrum álíka ósóma. Það fer ekkert framhjá sæmilega vitibornum einstaklingum að það getur alls ekki verið rósina til framdráttar eða aukið líflíkur hennar í hvaða garði sem hún á athvarf sitt í að um hana leiki stanslaust vonskuveður vinda og harðræðis. Hún myndi missa á einhvern hátt vaxtarskilyrði sín og tapa eðlislægum lit og angan og mögulega deyja. Eins er með börn og kannski allt fólk sem ætlað er að búa við hörmungar þær og vanlíðan sem óreglu alltaf fylgir inná öllum heimilum sem eru aflöguð vegna þess arna. Þeir missa eitthvað.

Það er í sjálfum sér mjög athugandi
fyrir foreldra sem bjóða börnunum sínum af þessum ástæðum kolómögulegar aðstæður að átta sig á að það er siðferðislega mjög hæpið að láta það hvarla eina mínútu að sínum ágæta huga að það boði barninu gæfu eða auki persónulegan árangur þess í samfélagi þar sem allir verða að standa sig hvað sem raular eða tautar. Við eigum sem foreldrar og uppalendur ekki að hegða okkur á neinn þann máta að það sé líklegt til að verða börnunum okkar fjötur um fót. Reyndar er það ágæt viðmiðun í siðferðislegum samskiptum barna og foreldris að við eldri og vonandi þroskaðri einstaklingar séum ekkert það að framkvæma eða bauka hér og þar í þessu ágæta samfélagi okkar allra sem börnin okkar gætu ekki horft á eða hugsanlega sameinast okkur í ef grannt er áætlað og við sleppum því alpersónulegast og miðum fremur við áhugamál og skemmtan.

Ófullnægjandi uppvaxtarskilyrði
Það er alveg ljóst að óviðunandi kærleiksvana glundroða heimilisaðstæður eru ekki vetvangur þar sem líkur eru á að börn njóti sín. Mjög sennilegt er að þannig heimilisbragur komi til að valda mun meiri skaða en einungis tengist þeirri aflögun sem viðkemur barninu á uppvaxtarárum þess og veldur því að viðkomandi barn á kannski ömurlega æsku. Og uppvaxtarár sem eru yfirfull að sorg og sársauka. Ástand erfiðleika sem hæglega getur fylgt því alla ævina, enda spennuvaldandi og niðurbrjótandi og á sér alfarið rætur í alröngu samskiptamynstri vandræða og vesens.

Það er því ekkert einkamál foreldra
að bjóða börnunum sínum uppá heimilisiðnað þann sem heimskulegur er og tengist óreglu ýmis konar. Það er mál barsins og komandi kynslóða líka. Það er ekkert skemmtilegt til þess að hugsa að verða vegna vanrækslu foreldra sinna einhver flutningsmaður vandræða yfir á sín börn og mögulega aðra, ef maður er ekki svo lánsamur að ná að átta sig á ósómanum og grimmdinni sem honum venjulegast fylgir og stöðva með harðfylgi framgang hans fyrir fullt og fast. Einmitt hvað þetta varðar og þú spyrð réttilega um verð ég að segja eins og er að eftir aðhafa lesið bréfið þitt og spáð svolítið í þig dulrænt þá verð ég því miður foreldra þinna vegna að viðurkenna að það virðist fátt í manngerð þinni benda til möguleika eða tilhneiginga í þær áttir sem þú hefur nú þegar gengið tengdar rugli og sakamálum.

Þess vegna leyfi ég mér að fullyrða
að ef þú hefðir fengið annars konar uppeldi við kærleiksríkar og siðfágaðar aðstæður með nokkru af aga í bland er miklu líklegar en ekki að þú hefðir alls ekki gengið þá vegi sem þegar hafa valdið þér og þínum vanda og kvöl, heldur einfaldlega þvert á móti.

Uppreisn æru og siðfágun
Hvað varðar spurningu þína um hvort þú kunnir að getað hreinsað af þér fortíð þína og náð að verða marktækur í samfélaginu með þennan sorglega bakgrunn er þetta að segja. Sem betur fer lifum við Íslendingar í siðfáguðu samfélagi og höfum tileinkað okkur flest af kenningum kristindómsins og þess vegna vitum við að það er ósæmilegt að gerast dómari í lífi samferðafólks síns og sér í lagi ef viðkomandi er þegar búinn eftir lagalegum leiðum að gjalda fyrir brot sín.

Það er nú einhvern veginn þannig
að oft er verið að smjatta á og blása upp það litla sem sést af flísinni í auga náungans á sama tíma og við erum með í eigin auga heilan bjálka vandræða og almennra axaskafta. Auðvitað tekur tíma að byggja sig upp frá aflöguðu mannorði og kannski ennþá erfiðara hér á Íslandi af því hvað við erum svo fámenn og rosalega forvitinn þegar kemur að því sem miður kann að hafa farið í lífi einhvers.

Dómgreindaraleysi og skortur á ábyrgð
Samt sem áður er þess virði að klóar í bakkann og ákveða nýja lífsýn sér til handa sem er jákvæð og fyrirhyggjusöm, þegar maður er búinn að átta sig á að rangt líferni gengur bara alls ekki nema stuttan tíma og skildi raunar aldrei gera. Hægfara viðleitni til góðrar breytni sem er heiðarleg og aðhaldssöm er hyggilegust í þinni stöðu. Betra er það líf sem kostar nokkuð puð, en það líf sektarkenndar og sjálfútskúfunar sem fylgir rangri breytni okkar hvert við annað og heimskulegum framkvæmdum. Hvimleitt innra ástand sem veldur tjóni því sem venjulegast fylgir dómgreindarleysi því sem þeir ástunda sem ekki vilja bera neina lámarksábyrgð á röngum athöfnum sínum og alltof oft í einhvers konar tilgangs-leysi.

Sjálfsvíg og líf að loknu þessu
Hvað varðar hugmynd þína um að fremja sjálfsmorð er þetta að segja. Það breytir hreint engu elsku drengurinn minn. Þvert á móti eykur á kvöl þína og áhyggjur. Þú lifir líkamsdauðann og verður því eins og við hin hvort sem þú ert hér eða hinu megin grafar að taka öllum afleiðingum af gjörðum þínum. Það mun aldrei á endanum verða verk neins nema en þín.

Þú refsar þér sjálfur
með öllum ákvörðunum og framkvæmdum sem eru í eðli sínu rangar. Við tökum ekki líf okkar sjálf af því að það er ekki til neins, auk þess sem þannig framkvæmd er óguðleg og siðferðislega röng. Það benda allar rannsóknir vísindanna í sömu átt þegar kemur að möguleikum á að við lifum líkamsdauðann. Hugur okkar er ekki efniskenndur og hann lifir þrátt fyrir að efnislegir þættir persónu okkar deyi. Persónuleiki okkar og vilji, auk hugsanna okkar lifa eftir dauðann sem þýðir að draumar okkar og þrár gera það líka ásamt náttúrlega öllu því sem við kemur dulminni okkar. Svo þú sérð að lausn þinna mála er ekki svo kallaður dauði. Aftur á móti verður þér aldrei refsað fyrir það sem þú hefur sjálfur sæst á að taka afleiðingum af hér á jörðinni og fylgt hefur refsikerfi mannanna og þeim dómum sem þeir láta falla hver við annan af alvarlega gefnu tilefni refsiverðs athæfis

Við ef við eins og áður sagði
iðrumst og förum í gegnum þá refsingu sem mennirnir hafa með hinum ýmsu lagasetningum ákvarðað fyrir hvern annan, þegar þeir sitja meðal annars lagaákvæði sem fela í sér refsingu í formi fangelsisvistar eða fjárútláta vegna brota á hegningarlögunum, er það náttúrlega sú refsing sem við tökum út hér og nú. Aftur á móti er engin ástæða til að ætla yfir okkur vaki refsandi guð heldur gilda bara þau lögmál báðum megin grafar að sá sem flýr og felur brot sín sleppur ekki við að taka afleiðingum af þeim, þó að hann hverfi úr líkamanum. Við eigum ekki að ákveða sjálf okkar skapadægur, það gerir Guð einn fyrir okkur. Annað er alrangt atferli og óréttlætanlegt og það veldur jafnframt öllum þeim sem eftir lifa og elska okkur kvöl og pínu sektarkenndar og vonleysis.

Persónuleg uppbygging jákvætt markmið
Það er afar hyggilegt hjá þér að sækja A.A. fundi og ekkert sem mælir því mót. Hitt er alveg rétt ályktað hjá þér að það er og verður alltaf rétt að fara nokkuð ólíkar og umfram allt jákvæðar leiðir að sjálfs síns sjálfstyrkingu. Það er sennilega athugandi fyrir þig að fá um tíma uppbyggingu hjá góðum og skilningsríkum sálfræðingi eða félagsráðgjafa.

Eins myndi ég kynna mér
flestar þær sjálfstyrkjandi bækur sem verslanir bjóða uppá núna í seinni tíð. Þær geta ef þú lest þær hægt og veltir innihaldi orðanna vel fyrir þér hjálpa þér mikið. Eins er að það eru og hafa verið starfandi alls konar félagssamtök fólks sem vill deila áhugamálum sínum og lífs viðhorfum saman. Líknarfélög er oft góð leið til að byggja sig upp í gegnum bæði félagslega og andlega. Láta sem sagt eitthvað gott af sér leiða um leið og við fáum ágætis félagsskap út úr störfunum líka.

Eins er hægt að kynna sér
störf hinna ýmsu trúfélaga sem bjóða fólki bæði stuðning og fræðslu biblíutengda sem virkar oftast ákaflega vel þegar við viljum byggja okkur upp í gegnum aðra og með öðrum andlega og félagslega hafandi þá góðu tilfinningu að Jesú Kristur sé nálægur manni. Það að skiptast á skoðunum og deila reynslu hvert með öðru er mjög jákvætt og getur bara ekki verið annað vegna þessa að þegar þannig sjónarmið ríkja erum við bæði að vinna á sem manneskjur og styrkja það góða í okkur á sama tíma sem við erum að uppræta það sem miður kann að vera í okkar ágætu persónu.

Lærdómur eykur ýmsa möguleika
Það væri reglulega sniðugt fyrir þig að drífa þig á skólabekk við fyrsta tækifæri og velja þér til lærdóms fag sem sameinar sem flesta hæfileika þína og jafnframt býður uppá að sú persónulega erfiða reynsla sem þú býrð yfir gagnist þér líka. Vissulega mun það breyta ýmsu í lífi þínu ef þú tekur þá ákvörðun að bæta úr þekkingarskorti þínum með námi sem getur svo síðar meir gefið þér starfsréttindi.

Þú getur aldrei tapað
á að mennta þig hvorki manneskjulega eða peningalega. Hvað varðar sjálfstraust og almenna sigurvissu þér til handa þá er alveg ljóst að hvort tveggja mun vaxa við hverja þá þraut og dáð sem þú drýgir sjálfum þér til framdráttar. Hvort heldur það er í nýju lífhlutverki tengt starfslegum framgangi þínum eða einfaldlega því sem gerir tiltrú þína á eigið ágæti manngildislega séð að auknu keppikefli. Svo langi þig til að læra þá gerðu það.

Sakamenn eiga sinn rétt
Auðvitað er ekki lokum fyrir það skotið að fyrrverandi sakamenn eig möguleika á annars konar og ögn jákvæðara lífi en því lífi sem dregur dilk vandræða á eftir sér. Sá sem að einlægni ákveður að breyta lífi sínu og snúa frá villu síns vegar er og verður alltaf á mjög athygliverðan máta eftirtektarverður og öðrum og óverulegri stórgóð fyrirmynd. Það er fáranlegt að hafa fólki einungis af því að það hefur um tíma farið útaf sporinu. Sem sagt fyrrverandi afbrotamenn geta orðið fyrirmyndarmenn hvað sem öllum fyrri mistökum og öðrum almennum axasköftum líður. Bara ef þeir vilja og nenna að sitja sér þannig keppikefli sjálfir og fá að auki rétta aðhlynningu þeirra sem erum bæði umburðalyndi og víðsýnir.

Betra er að hafa í huga
að það er satt best að segja ekki útilokað að syndir annarra geti einmitt orðið þær syndir sem við eigum eftir að drýgja, þó fátt eða ekkert bendi til þess, eins og málum okkar er háttað í dag. Við erum þegar grannt er skoðað flest á mismunandi máta eitthvað breysk og í sjálfum sér ekkert athugavert við það. Aftur á móti eigum við ekki að þurfa að gera sömu mistökin nema einu sinni. Það er nefnilega enginn sem kýs að vera afbrotamaður og öðrum mönnum aumari í mannvirðingu og tækifærum.

Það er bara svo misjafnt
hvað við erum staðföst í mótlæti og meðvituð um rétt og rangt. Þau okkar sem telja sig með heilbrigða hugastarfsemi og siðprúð verðum vonandi aldrei til þess að fara með þeim hætti útaf sporinu að það verði vart aftur tekið. Það sem við eigum að meta og meta réttlátlega er þegar sá sem er aflagaður ákveður að snúa frá villu síns vegar og meinar það og tekst það jafnframt.

Það er ekki til neins
þegar búið er að taka afleiðingum af syndum sínum og brotum að vera velta sér upp úr fortíðartengdum hlutum sem við höfum nú þegar unnið okkur frá og tekið út okkar refsingu fyrir, þó þeir séu og hafi verið í eðli sínu bæði slæmir og vart réttlætanlegir. Við ættum aldrei að gera þeim sem hefur kosið að breyta lífi sínu til hins betra ókleift að að gera það með sífellum áminningum um að fortíð þeirra sé og hafi verið bæði dökk og aflöguð ef nútíð þeirra og hugsanleg framtíð er ekki líkleg til að innihalda neitt annað en góða og gagnlega breytni og þó nokkuð af sólskinköflum fyrir okkur sjálf og aðra okkur nálæga.

Saga þín athyglisverð
Ég vil að lokum þakka þér innilega fyrir það hugrekki að skrifa mér og gefa öðrum um leið hlutdeild í erfiðri og brottgengri reynslu þinni. Það er alveg víst, eins og þú spyrð mig um sjálfur, að þín saga er ágæt áminning um það sem betur má fara í samskiptum okkar hvert við annað. Við vitum eftir að þú hefur upplýst okkur um gang mála í ævisögu þinni að það er svo sannarlega ekki röð af tilviljunum sem veldur því að svo fór sem fór.

Við skulum bara gera okkur grein fyrir
því að í fyrstunni byrja aðstæður þínar allar mjög óhöndulega og eru þar ekki síst foreldrar þínir sem eru og hafa verið í hvers kyns klúðri í sínu lífi töluvert sek gagnvart þér og systkinum þínum. Þau því miður hafa flutt ákveðið magn eigin vanda yfir á börn sín með þeim hætti að þessi börn sammanber þig hafa átt í erfiðleikum með að stjórna lífi sínu skynsamlega og því erfitt fyrir uppdráttar ef byrjun lífs okkar er böguleg. Ekki hefur auk þessa bætt úr ská afleiddur félagsskapur þér eldri og lífsreyndari einstaklinga, sem því miður reyndust ekki fremur en foreldrar þínir heppilegar fyrirmyndir fyrir ómótaðan og siðferðislega ófullkomin barnshuga þinn á árum áður.

Tímabundnir krossar
Hvað um það þú ert að átta þig og rólega að aftengja þig rugli fortíðarinnar og er það vissulega aðdáunarvert hvað sem öllum hroka annarra líður. Ég á ekki von á að kærasta þín yfirgefi þig, ef hún bara áttar sig á góðum markmiðum þínum tengdum framtíð ykkar, þrátt fyrir að þú komist vart hjá að taka afleiðingum þeirra dóma sem þú átt ennþá eftir að sitja af þér. Auðvitað verður erfitt fyrir hana eins og þig að bera þá krossa tímabundið sem röngu líferni þínu áður fyrr óneitanlega fylgja enn um sinn. Hún þarf eins og þú að átta sig kirfilega á því að við getum sem betur fer valið okkur lífssýn eftir geðþótta, ef við óskum þess og vinnum kerfisbundið að því að gefa henni líf á jákvæðri forsendu.

Hitt er svo annað mál
að það hefur varla farið framhjá henni að þú vilt annars konar og heilbrigðara líf og engin sérstök ástæða til að efa að sá góði vilji þinn sé raunverulegur. Það kemur fram í athöfnum þínu síðustu tvö árin þar sem þú hefur vissulega staðið þig frábærlega vel. Ef ég væri sem þú myndi ég sýna henni þessi svör mín og um leið segja henni frá ótta þínum og áhyggjum í sambandi við framhald á ykkar samvistum. Það borgar sig alltaf að vera heiðarlegur og taka í því sambandi smá áhættur.

Eða eins og gamli puttinn sagði
einu sinni þegar hann var að rifja upp fortíð sína þá níræður."Elskurnar mínar, þegar ég var yngri gerði ég eitt og annað rangt, en eftir að ég eltist sá ég að það borgaði sig bara alls ekki. Málið er nefnilega að það koma svo miklar og erfiðar afleiðingar af öllum þeim athöfnum okkar sem eru vanhugsaðar og sjálfmiðaðar að það hálafa væri reyndar nóg. Ég ákvað bara að taka mig þessu líka takinu og hef eiginlega verið nokkurn veginn hálf heilagur síðan eftir seinna stríð góðra breytinga. Í dag gengur mér vel og er bæði sáttur við mig guð og menn. Enda geri ég ekki hrossaflugu mein, þó hún valdi mér bæði svefnleysi og öðrum álíka óþægindum. Svona hef ég nú breyst og það var ekkert mál þegar frá leið að greiða úr flækjum fortíðar sem var vægast sagt bágborin siðferðislega og telur maður þá ekki ótæpilegt kvennafar með eða þannig."

Guð gefi þér tiltrú á sjálf þíns ágæti
og gangi þér virkilega vel að rétta endanlega úr þínum áhugaverða og sérstaka kút góðs manngildis.

Með vinsemd
Jóna Rúna


Póstur til Jónu Rúnu


.