Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Jóna Rúna miðill svarar "Jóa" 16 ára
Ég er skyggnn og hræðist það.
Kæra Jóna!
Ég er búin að vera ansi lengi að skrifa þetta bréf. Mér finnst eitthvað svo ömurlegt að þurfa að viðurkenna það, að ég er alveg rosalega óöruggur og feiminn. Ég er elstur af fimm systkinum og hef alltaf þurft að standa mig. Í skólanum og heima. Ég meira segja vaska upp og skúra gólfin.
Málið er bara að ég er
ekki svona rosalega klár eins og foreldrar mínir halda. Þau eru mjög upptekin af sér of oftast einhversstaðar úti, þegar ég þarf á þeim að halda. Pabbi er iðnaðarmaður og mamma vinnur í banka. Þau vilja ákveða allt fyrir mig. Mér finnst þau mjög ósanngjörn og tilætlunarsöm við mig. Ég hef þörf fyrir að ráða mér sjálfur.
Vandamál mín eru nokkur.
Ég t.d. hef verið skyggn frá því ég var fimm ára. Ég verð svo ofboðslega hræddur, þegar ég kannski sé persónu allt í einu, sem ég veit að er dáin. Þetta dána fólk getur birst hvar sem er jafnvel í skólanum. Mér bregður svo að ég fer alveg í kerfi og félagar mínir vita ekkert hvað er að ske. Ég kannski svitna allur og verð mjög órólegur, auk þess sem mér verður meiriháttar kalt, þegar þetta látna fólk birtist mér alveg á óvart. Stundum finnst mér ég eins og heyra eitthvað, en samt ekki eins og ég heyri með venjulegri heyrn, en ég kalla það að heyra.
Ég get ekki talað um þetta við foreldra mína,
þau trúa mér ekki segja bara," láttu ekki eins og asni". Pabbi er öllu verri en mamma, því hann gerir líka grín að þessu og segir: " Stundum hvað segja draugarnir núna? Ég er hreinlega að truflast útaf þessu og langar alls ekki að vera svona. Mér hundleiðist reyndar oftast vegna þess að ég er greinilega öðruvísi einhvern veginn, en félagar mínir. Ég myndi aldrei segja þeim þetta, vegna þess að þeir myndu örugglega halda að ég væri geðveikur eða eitthvað, sem er nokkuð sem hefur svo sem hvarflað að mér sjálfum.
Elsku Jóna! Er eðlilegt að vera skyggn?
Hvernig get ég losnað við þetta? Á ég að svara foreldrum mínum fullum hálsi, þegar þau gera grín af þessu? Mér hefur stundum dottið í hug að fara til sálfræðings eða eitthvað. Móðuramma mín er víst rosalega berdreymin, auk þess er hún skyggn og hún skilur mig. Mér bara finnst hún heldur gömul, til að tala við og stundum heldur leiðinleg. Hún skilur ekki annað sem ég þarf að tala um eins og mínar tilfinningar. Viltu vera svo góð að reyna að leiðbeina mér kæra Jóna? Hvernig manngerð heldur þú að ég sé? Heldurðu að ég hafi einhverja möguleika í lífinu. Í hvaða stjörnumerki ert þú? Þú ert ábyggilega í einhverju eldsmerki?
Fyrirfram þakklæti
Þinn einlægur Jói
P.s Vonandi lifirðu sem lengst.
Elskulegi Jói!
Takk fyrir bréfið það var meiriháttar að fá svona áhugavert bréf frá strák á besta aldri. Vonandi er eitthvað sem skýrist fyrir þér eftir að ég hef skoðað með innsæi mínu, reynsluþekkingu og hyggjuviti það sem þú óskar svara við. Mundu bara elskan að skrif mín eru hugsuð sem þjónusta við heilbrigða fólk, sem eru að fara í gegnum eðlilegt vesen, sem engin sleppur við í lífinu í einhverjum myndum. Við leysum ekkert, en íhugum leiðir til mögulegra lausna á öllu því sem fellur undir tímabundið viðkvæmt ástand heilbrigðra.
Vandamál aftur á móti leysa þeir sem hafa sérþekkingu, svo sem sálfræðingar, félagsráðgjafar og geðlæknar. Mundu að gleypa ekki svör mín ómelt. Ég er í eldsmerki eins og þú heldur. Er reyndar bogmaður og finnst það meiriháttar eins og sönnum bogmanni sæmir ha ha.
Kröfur og ekki kröfur
Þú talar um að til þín séu gerðar miklar og ósanngjarnar kröfur um að standa þig bæði í skólanum og heima fyrir. Bendir jafnframt á því til áréttingar, að þú sért viðloðandi hin ýmsu húsverk. Í sannleika sagt Jói minn, er það mjög gott mál, vegna þess að karlmenn sem eru ekki liðtækir í heimilisstörfum eru ekki sérlega áhugaverðir í augum okkar stelpnanna. Eins og við vitum hefur vægi kvenna útá vinnumarkaðinum aukist gífurlega á síðustu árum og þær margar af þeim ástæðum horfið úr öskubusku- hlutverki heimilanna, sem var eins og sjálfskipað fyrir þær hér á árum áður.
Það er því ekki spurning
um að standa sig á ósanngjarnan hátt, þó við höfum sameiginlega ábyrgð á því sem tengist heimilinu beint eða óbeint. Athugum það líka að það er mjög óeðlilegt, að á sjö manna heimili eins og þínu, ef einungis húsmóðirin jafnvel þó hún væri heimavinnandi sæi um allt það sem viðkemur húsverkum. Hún á líka sinn rétt og hefur auðvitað annars konar þarfir jafnframt þeim sem tengist húsverkum. Eðlilegt er að allir heimilisfastir deili nokkuð svipaðri ábyrgð inná heimilinu satt best að segja. Halli eitthvað á þig í þessum þörfu efnum, þannig að þinn hlutur sé mun meiri en annarra þá einfaldlega bendir þú hinum á það og neitar að gera það sem er umfram það sem sanngjarnt er.
Gildi náms
Hvað varðar kröfu foreldra um að börn þeirra standi sig sem best í skólakerfinu er þetta að segja. Allur ótæpilegur metnaður fyrir hönd barna okkar hvað varðar einkunnir og nám er heimskulegur. Aftur á móti er miklu eðlilegra, að örva heilbrigðan metnað í huga barna okkar á þeirri forsendu að barnið skilji, að það er að vinna að námi sínu fyrir sig fyrst og fremst, en engan annan raunar.
Við sem viljum vera eitthvað
og kjósum ekki að verða undir í lífinu leggjum töluvert á okkur til að gera það mögulegt og þá meðal annars með því að standa okkur í námi. Þess vegna erum við ekki að mennta okkur fyrir foreldra okkar, heldur fyrst og fremst okkur sjálf. Það er alls ekki sanngjarnt af foreldrum að heimta meiri árangur í námi af barni, en það sýnilega er fært um. Svo ef þú gerir öllum stundum þitt besta, ert þú í fullum rétti til að vera sáttur við eigin útkomu, jafnvel þó þeim líki hún ekki. Það er aftur á móti þeirra mál.Við getum aldrei staðið okkur svo öllum líki enda aðalatriði hvers árangurs, að okkur sjálfum falli við hann, en ekki öðrum endilega.
Sjálfstæði er öllum nauðsynlegt
Hvað varðar það að vilja ráða sínum málum sjálfur, þá er það ofureðlilegt og heilbrigt reyndar, að 16 ára strákur óski þess annað væri undarlegt. Ef þú ert tilbúin að taka öllum afleiðinum af athöfnum þínum og verkum sjálfur, ert þú að sjálfsögðu sjálfráður gjörða þinna. Aftur á móti ef þú ætlast til að þau bjargi þér fyrir horn, ef óheppilega tekst til er eðlilegt, að þau vilji hafa hönd í bagga með sem flestum framkvæmdum þínum. Þarna greinum við á milli elskulegur.
Þér finnst þau upptekin
af sér og lítið sinna þér nema til að gera kröfur til þín um eitthvað sem þú ert ekki tilbúin til. Um þetta atriði skaltu ræða við þau í einlægni og helst á þeirri forsendu, að þér finnist áhugvert að deila þér og tilfinningum þínum meira með þeim. Þú ert þrátt fyrir augljósa sjálfstæðisþörf enn þá ungur og jafnvel misþroskaður eins og gengur og hefur rétt á að vera það. Það getur því verið mjög gott fyrir þig að vera litli strákurinn þeirra stundum og fá að vera það á þess að gerðar séu með þeirri þörf nokkra kröfur til þín. Þú þarft þá einstaklingsumhyggju sem foreldrar eiga að veita börnum sínum og ætla sér góðan tíma í það meira að segja.
Skyggnigáfa
Dulrænar gáfur okkar eru oftar en ekki tengdar erfðum einhvers konar. Eins og þú bendir á er amma þín dulræn. Oftar en ekki er engu líkara en að barnabörn þeirra, sem hafa sterkar dulargáfur fái þessa erfðaþætti í ríkara mæli, en kannski börn þessa fólks, þó það sé að sjálfsögðu ekki regla. Það verður þó að viðurkennast, að þetta er fremur tilgáta en staðreynd, því ekkert hefur verið rannsakað í þessum efnum mér vitandi, sem færir sönnur á að um einmitt þannig ferli sé að ræða.
Hvað um það þú hefur verið skyggn
frá fimm ára aldri og ert það enn. Oftar en ekki er skyggnigáfa mun sterkari hjá sálrænum börnum frá ungbarnaaldri og svona undir sex til átta ára aldurinn. Hún vill svo liggja í dvala fram undir unglingsár og opnast oft á þeim árum mjög sterklega. Við erum eðlilega viðkvæmari og næmari þá vegna fjölþættra hormónabreytinga, en kannski á milli sex og tólf ára.
Eins er iðulega,
ef um erfiðar heimilis aðstæður er að ræða, að þessi sérstaka gáfa verður mun meira áberandi en ella. Það er ósköp eðlilegt vegna þess, að ef við erum stanslaust í einhvers konar tilfinningalegri- eða sálarlegri spennu, þá erum við óneitanlega mun næmari og erum þó næm fyrir. Þú ert einmitt á þessum unglingsárum núna og það er því afar skiljanlegt, að þú getir verið næmari sálrænt sé og þá að meðfædd skyggnigáfa sé öllu meira að gera vart við sig.
Aftur á móti á ég bágt með að trúa
að hún hafi allt í einu láti kræla á sér við fimm ára aldurinn. Sennilegra er, að þegar við erum komin á þann aldur getum við betur greint á milli þessara tveggja raunveruleika, það er að segja þess yfirskilvitlega og þessa sem öllum er opinn. Þú hefur því trúlega alla tíð haft skyggnigáfu, því hún er meðfædd á undantekninga en ekki áunnin, þó sumir virðist halda að svo sé, vegna þess að hún getur verið mismunandi virk eftir aldursskeiði og jafnvel aðstæðum.
Ótti gerir fólk næmara
Ótti við það sem er ekki á valdi okkar að hafa áhrif á er mjög skiljanlegur enda gera sálræn fyrirbrigði sjaldan boð á undan sér þau bara koma. Hvað varðar óttann, þá má benda á það, að hann gerir okkur mun næmari ef eitthvað. Best væri sennilega, að gera sér grein fyrir því að ekkert er að óttast nema óttan sjálfan, því hann er fremur niðurrífandi, en alls ekki uppbyggjandi afl í mannsálinni. Sá sem er sálrænn eins og þú verður að temja sér eins mikið óttaleysi og framast er unnt og hann treystir sér til, vegna þess, að því liggur ein hans sterkasta andlega vörn í óttaleysi.
Sterk trú á guðlega vernd
er jafnframt nauðsynleg, ekki bara dulrænum einstaklingum líka öllum öðrum. Bænir sem fela í sér ósk um guðlega forsjá eru nauðsynlegar og því hyggilegt að temja sér þannig bænir kvölds og morgna, vegna þess að reynsla þeirra sem það gera er afar jákvæð. Þetta fólk finnur sig mun öruggara en þeir sem ekki ástunda reglulegt bænahald gera að því er virðist. Gott er að biðja um vernd og leiðsögn og temja sér eins kristilegt hugaþel og framast er hægt. Ef þú ert í upplagi þínu jákvæður og velviljaður, auk þess að vera kærleiksríkur þarft þú ekkert slæmt að óttast. Guð mun sjá svo um að þú sér óhultur fyrir öll því sem í eðli sínu er gagnstætt kærleikanum ef þú biður hann að vernda þig og leiðbeina þér.
Með þessum fullyrðingu
er ekki verið að heimta fullkomnun af þér eða öðrum sem eru sálrænir. Heldur miklu fremur hvetja þá til vilja til góðrar og heilbrigðrar viðleitni á vegni þess kristilega og kærleiksríka. Sem sagt elsku Jói minn, þú þarft alls ekki að vera hræddur við það sem þú sérð, vegna þess að það er ekkert í þeim áhrifum sem merkjanleg eru í bréfi þínu, sem gefa til kynna að þú bjóðir sjálfur andlega uppá að þér birtist sýn sem er í eðli sínu neikvæð, til þess að slíkt gerðist er hætt við að þú þyrftir að breytast mikið og þá í verri áttir.
Náðargáfur
Hvað varðar kuldann, sem þú finnur er rétt að benda þér á að oftast virðist þeim látnu fylgja eins og raka- eða kuldatilfinning, sem grípur svo þann dulræna rétt á meðan sá látni birtist hvort sem við sjáum hann eða ekki.
Hvað viðkemur hótfyndni föður þíns,
þegar þú í einlægni ert að reyna að deila þessum sérstaka veruleika með honum, er þetta að segja: Engin skildi gera lítið úr dulargáfum annarra. það er óviðeigandi og oftast gert í einhvers konar hugsanaleysi eða af vanþekkingu. Pabbi þinn getur ekki upplifað þig eins og þú ert, til þess þyrfti hann að vera eins og þú. Segðu honum í fullustu alvöru, að þú óskir ekki eftir viðbrögðum sem særa þig og veikja trú þín á þá þætti í sjálfum þér, sem tengjast náðargáfum, sem geta bæði orðið þér og öðrum til blessunar, þó síðar verði.Guð útdeilir okkur mismunandi náðargáfum í vöggugjöf og þær ber að virða og rækta hverjar svo sem þær eru.
Reyndu að ræða þessar upplifanir þínar
við ömmu þína, þó leiðinleg sé eins og þú segir. Hún skilur þó þennan þátt í þér vegna eigin áþekkra hæfileika. Enginn ástæða er til að ætlast endilega til, að hún skilji annað líka, þó mikilvægt sé fyrir þig. Það gera þá bara aðrir sem þú þekkir eða átt eftir að kynnast. Þarna verður þú elskulegur dálítið að vera sanngjarn og velja vini og trúnaðarsambönd við þína eftir því hvað hver og einn er fær um. Annað væri ósanngjarnt frá þinni hendi. Á milli ömmu þinnar og þín er heil kynslóð og þess vegna ekki hægt að ætlast til fulls skilnings hennar á ungum huga þínum. Aftur á móti eru engin kynslóðabil á milli dulrænna hæfileika fólks, þá geta ungir sem aldnir haft og fundið fyrir þeim á áþekkan máta jafnvel.
Að vera öðruvísi
Vissulega ertu öðruvísi en þeir félagar þínir, sem ekki eru dulrænir og við því er ekkert að gera annað en að muna, að á einhvern hátt eru þeir líka með tilfinningu þess að þeir séu öðruvísi en aðrir. Engin er þegar á allt er litið eins. Við erum hvert og eitt einstök sem betur ver. Aðalatriðið er að þú gerir þér grein fyrir því, að það að vera öðruvísi er kostur, sérílagi, ef við virkjum það sem styrk í persónuleika okkar, en ekki óstyrk.
Hvað varðar það að þú upplifir þig
einmanna er það skiljanlegt, vegna þess að það gera allir sem upplifa dulrænar skynjanir. Þeim er erfitt að deila með öðrum og ósálrænum enda endurtekur þannig skynjun sig aldrei eins hvorki hjá okkur sem upplifum þær eða þeim sem reyna að skilja þær og skynja í gegnum okkur. Hætt er við elskulegur að þú yrði fremur fátækur andlega, ef þú misstir þennan sérstaka þátt úr upplagi þínu.
Heilbrigði og óheilbrigði
Það að það skuli hafa hvarflað að þér, að þú værir geðveikur er mjög gott mál, vegna þess að ég veit ekki betur, en það sé mjög augljós heilbrigðisvottur. Sá sem er svo ógæfusamur að vera geðveikur þarf alls ekki að gera sér grein fyrir því að hann sé veikur og heldur ósennilegt að ef hugurinn er óstarfhæfur á réttan hátt, að viðkomandi skilji að eitthvað sé að. Sérfræðingar vita og kunna skil á þeim mismun sem þarna er á. Þeir sem efast um geðheilsu sína eru ekki endilega geðveikir, þó þeir geti átt við einhver sálræn vandamál að stríða tímabundið. Þeir sem aftur á móti eru geðveikir eiga það sannmerkt held ég að finnst þeir vera heilbrigðir, en flestir sem þeir umgangast svo einfalt er þetta að ég held. Þú getur vissulega fengið sálfræðing eða geðlækni til að meta geðheilsu þína og er það bara gott mál ef eitthvað er. Heldur er þó ósennilegt, að slíkur vilji hefði komið fram hjá þér, ef þú værir alvarlega geðskertur.
Hitt er svo annað mál sem vert er að gefa gaum,
að sálfræði- eða geðheilbrigðisþjónusta er líka hugsuð fyrir heilbrigða, sem þurfa oft tímabundin stuðning þessara stétta og mjög jákvætt að notfæra sér þessa heppilegu þjónustu í öllum þeim tilvikum, þar sem við finnum ekki leiðir eða skýringar á þeim vanda sem verið er að kljást við eftir atvikum hverju sinni. Einmitt er mjög heilbrigt að óska eftir slíkum stuðningi, ef við finnum okkur þurfa á honum að halda eins og áður sagði.
Manngerð og möguleikar
Við skulum svo að lokum elskan íhuga í gegnum innsæi mitt og brjóstvit eins og þú óskar eftir manngerð þína og hugsanlega möguleika. Þú virðist fremur margþættur, örgeðja og hugmyndaríkur. Sjálfstæðisþörf þín virðist mikil og töluvert mál fyrir þig, ef hún nýtur sín ekki. Þetta þýðir að þú hefur þörf fyrir tilbreytingu og lifandi tengsl við sjálfan þig og aðra.
Feimnin sem þú finnur oft fyrir
á sér trúlega fremur rætur í óöryggi og þekkingarskorti á sjálfs þíns ágæti, heldur en að hún sé eðlislæg því er hún trúlega áunnin. Spennandi og flóknar aðstæður freista þín sennilega meira, en öll lognmolla og deyfð. Þú reiðist sennilega illa þegar það gerist og trúlega átt erfitt með að kyngja hvers kyns óréttlæti. Þú virðist framtaksamur og fylgin þér í þeim málum sem varða áhugasvið þín.
Sennilega ertu að eðlisfari
frekar duglegur og útsjónasamur. Tilfinningar þínar virðast einfaldar en sterkar. Þetta gæti vísað til þess, að þegar að ástinni kemur verðir þú að flýta þér hægt, vegna þess að vonbrigði tengd ástarmálum gætu reynst þér erfiðari en önnur. Hugur þinn stendur mjög líklega til þjóðþrifamála, sem meðal annars gæti tengst ákveðnu frumkvæði þínu í leit að lausnum þeirra mála, sem vara heill hins almenna borgara. Þú átt trúlega eftir að eiga hvað þetta snertir meiriháttar góðan kafla í lífsgöngu þinni á milli fertugt og fimmtugt.
Eftir þann tíma gætu ný og breyt viðhorf
átt hug þinn allan og þau sennilega verða tengd menningu og jafnvel listum og þá auðvitað tengd fyrri vilja til framkvæmda. Sennilega átt þú eftir að skrifa bókmenntaverk einhvers konar um eða eftir fimmtugt.
Hæfileika þínir eru augljósir
og liggja framar öðru á huglægum sviðum virðist vera og þess vegna hyggilegt að mennta sig og leggja drög að heppilegri nýtingu eðlisþátta þinna. Eins og þú sérð þá er lítið fjallað um dulræna þætti þína í þessari umsög og kannski ekkert skrýtið, því þó þeir séu augljósir, er sennilegra að þú noti þá í mjög hagkvæmum skilningi fyrir þig og heildina. Verður semsagt ekki á neinu sérstöku andlegu flugi fyrr en þá seinni part ævinnar og er það bara gott mál, því þú gagnast sennilega sjálfum þér og öðrum best þannig.
það er mikill kostur að vera næmur,
þegar kemur að fram-kvæmdum ýmis konar, sem krefjast skynsamlegra og skjótra úrlausna. Þess vegna er nokkuð víst að dulargáfur þína verða styrkur fyrir þig í lífinu, þar sem þeirra er þörf, án þess að trufla líf þitt eins og núna.
Þú þarf ekki að vera hræddur
við þessa skyggnigáfu, því látið fólk þarf ekki að vera hættulegt fólk, þó vafalaust sé til óþroskað og erfitt fólk beggja megin grafar. Þú manst bara elskulegur, að við drögum báðu megin heimana þá einstaklinga að okkur, sem eru á einhvern hátt í samræmi við hugsunarhátt okkar. Sért þú í eðli þínu jákvæður, er ekkert að óttast, þó þú sjáir einn og einn draug eins og sumir kalla látna. Sjálf trúi ég ekki að draugar séu til.
Eða eins og gúrúinn frægi
sem var með þá látnu alveg á hreinu sagði eitt sinn að alvarlega gefnu tilefni." Elskurnar mínar ef við ættum val í þessu ágæta lífi um hvort hentugra væri að umgangast látna eða lifendur, er enginn spurning um að ég kann betur við þann frið og ró sem látnum oftast fylgir. Eins fylgir þeim kærleikur til þeirra sem lifa og þess vegna er nærvera þeirra þægileg tilhugsun fyrir mig. Hitt er svo annað mál að í ríki Guðs er þeirra heimur og þar eru þeir, en ekki niður við jörðina nema í undantekningar tilvikum, sem oftast er einhver andleg skýring á. Þess vegna eru lifendur þeir sem við höfum að sjálfsögðu mest samskipti við, hvort sem okkur líkar betur eða verr og þannig á það að sjálfsögðu að vera."
Guð styrki þig og
hughreysti á öllum þeim stundum,
sem þú mögulega kannt að finna þig óöruggan.