Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Jóna Rúna miðill svarar bréfi "Villa"
Brennivínstengd offita
Kæra Jóna Rúna!
Ég vil eiginlega byrja á að þakka þér fyrir allt gott og gagnlegt hér efni. Þau mál sem ég vil bera undir þig, eru kannski ekki stórmál, en alla vega frekar óþægileg fyrir mig. Ég er undir sautján ára og alltof feitur, þannig að það veldur mér leiðindum. Ég hef breyst að þessu leiti til hins verra á síðustu tveim árunum.
Flestir strákar á mínum aldri eru komnir með kærustu, en ég hef greinilega enga möguleika á slíku. Stelpunum finnst ég eins og mér sjálfum ég alltof mikill hlunkur, til að ég freisti þeirra greinilega, þó hef ég reynt að vekja athygli á mér. Ég er sagður frekar fyndinn og léttur í skapi. Áður var ég frekar mjór ef eitthvað var. Mér leiðast allar íþróttir og þykir mjög gott að borða. Sælgæti af ýmsum gerðum á líka vel við mig.
Ég veit ekki hvort það segir þér nokkuð,
en einmitt fyrir rúmum tveim árum skildu foreldrar mín eftir mjög mikla erfiðleika í sambúð meðal annars vegna drykkjuskapar beggja á tímabili. Pabbi er hættur núna. Mamma á og átti við áfengisvandmál að stríða og við búum saman eftir að pabbi fór, ásamt þrem systkinum mínum sem eru yngri en ég. Ég hef mjög miklar áhyggjur af henni og við rífumst mikið. Henni finnst ég of afskiptasamur og gagnrýnir mig stöðugt, ef ekki fyrir þetta, þá hitt. Hún vinnur alltaf, en drekkur svo þegar hún kemur heim á kvöldin og um helgar líka. Það má segja að hún og flaskan búi í svefnherberginu á þessum stundum, saman í sátt og samlyndi, ef enginn truflar þær.
Ég þoli ekki að sjá hana eyðileggja sig
svona og sjálfur hef ég aldrei smakkað vín og reyki ekki heldur. Þá má segja að ég verði að sjá um yngri systkini mín og hana líka. Mig langar að í raun og veru ekki að lifa, en líður þó betur ef ég bara borða og borða reyndar sama hvað það er liggur við. Mér finnst núna að ég sé bæði feitur og ljótur og engum að gagni. Kæra Jóna Rúna viltu vera svo góða að leiðbeina mér og kannski segja mér það sem þú skynjar og finnur sem þín skyggnu augu kannski sjá. en ekki ég í augnablikinu.
Með fyrirfram þakklæti
Villi
Elskulegi Villi!
Kærar þakkir fyrir einlægt og skynsamlegt bréf, auk hvatningar til mín. Þú ert svei mér þá allur í steik og kannski ekkert skrýtið, þó ekki væri nema vegna heimilisaðstæðna. Eins og þú sérð hef ég vísvitandi breytt bréfinu þínu þannig, að útilokað er að rekja slóð þess til þín að mínu mati. Eins og þú að aðrir lesendur vitið eru sérfræðingar í heilbrigðiskerfinu, þeir einstaklingar sem eiga að fjalla um og meðhöndla vandamál þeirra sem eru sjúkir. Mitt hlutverk er fremur að styðja þá, sem sýnilega eru heilbrigðir og eru að fara í gegnum eðlilega og tímabundna erfiðleika hins venjulega lífs.
Ég nota eins og áður innsæi mitt
reynsluþekkingu og hyggjuvit til leiðsagnar og mögulegra ábendinga, en í mínu hugskoti hvílir engin hefðbundin fagþekking, sem líkleg er til að leysa nokkurs manns vanda. Allt sem fjallað er um hér er hugsað fyrst og fremst sem viðmiðun og möguleg huggun fyrir heilbrigt fólk, en engar patentlausnir fáanlegar af neinu tagi.
Ég vil benda á sérstaklega þín vegna og ekki síður vegna þeirra ótal mörgu sem líða stórlega af svipuðum ástæðum og þú, að hyggilegt er þegar vandi sem þessi er okkur ofviða, að snúa sér t.d. í upplýsingaskini til að byrja með til skrifstofu SÁÁ samtakanna í Síðumúla 3-5 í Reykjavík og afla sér allra þeirra gagna og upplýsinga um mögulegan stuðning fyrir þig og aðra sem hægt er að fá þar, vegna þess vanda sem vímuefnum ýmis konar fylgir og mögulegum afleiðingum þeirra fyrir þá, sem fyrir afleiðingum þeirra verða og ánetjast hafa eða eru þolendur neytenda þessarar váar. Starfsfólk þessara ágætu samtaka geta örugglega opnað augu okkar fyrir margþættum möguleikum hina ýmsu félagssamtaka og meðferðarleiða, sem standa fólki opnar til stuðnings, sem er að kljást við annað hvort áfengissýki sína eða sinna og hörmulegar afleiðingar þessarar váar á allt heilbrigt og stöðugt heimilislíf.
Reyndu því til að byrja með
jafnframt að kanna þessa áður sögðu möguleika, með því að hringja í símanúmer það sem SÁÁ gefa upp og er á skrifstofu þeirra. Spurðu sérstaklega um FBA, sem eru samtök kvenna og karla, sem öll eiga það sameiginlegt, að hafa fæðst eða alist upp við aðstæður, þar sem vímuefnaneysla var vandmál og er jafnvel enn fyrir hendi á heimilum þeirra. Eins er hyggilegt að nota sér stuðning AA samtakanna og einnig AL-Anon. Eitthvað af þessu ættir þú hiklaust að notfæra þér elsku drengurinn minn og það sem allra fyrst.
Sambúðarslit erfið börnum
Eins og greinilega kemur fram í bréfi þínu, eru þeir erfiðleikar sem þú átt við að etja í dag, sennilega meðal annars afleiðingar af þeim sambúðarörðuleikum sem foreldrar þínir áttu í fyrir skilnað og trúlega tengdum áfengi í einhverju mæli. Eins er að eftir lifir og eimir duglega af þeim vanda í móður þinni elskulegri, sem ekki virðist hafa gert sín mál upp þrátt fyrir viðskilnað frá föður þínum. Hitt er svo augljós staðreynd og þekktur sannleikur, að skilnaðarbörn þurfa að fara í gegnum miklar sviptingar í sínu daglega lífi, svo sem umhverfisbreytingar, alls kyns aðstöðubreytingar og annað það sem upplausn heimila alltaf fylgir, þó ekkert fyrirfinnist brennivínið í fjölskyldumynstrinu. Það þarf ekki satt best að segja ekki endilega til, svo að erfiðleikar skapist vegna þess arna.
Ásamt áður sögðu,
eru þær innri þrautir alls kyns áhyggna, vonbrigða, vanræktra tilfinninga og almennum ótta við höfnun af hendi annars hvors foreldris, ef ekki beggja, það tilfinningaflæði sem kvelur svo kölluð skilnaðarbörn ekki síst.
Rétt er að hafa í huga,
að þær áhyggjur barns sem skapast geta í huga þess, vegna t.d. þess foreldrisins sem hverfur af heimilinu og þá aðallega óttablandin umhugsun um, að því líði ekki bara ekki nógu vel kannski eru mjög algengar og kannski eðlilegar ef dýpra er kafað. Í sjálfum sér er ekkert óeðlilegt við hræringar í barnssálinni af þessum toga á stundum skilnaðar, þó óeðlilegt og óréttlætanlegt sé með öllu að foreldrar þessara barna, vegna eigin sálarkreppu taka ekki eftir eða átta sig ekki á vanda blessaðra barnanna.
Það er því ekkert skrýtið þó í þjóðfélagi, þar sem skilnaðir eru eins tíðir og hér á okkar ágæta landi, séu börn sem eru lífsleið og örvæntingarfull vegna meðal annars ómeðvitaðrar andlegrar vanrækslu foreldra sinna. Eins og við vitum getur þannig sálarástand barns jafnframt þrifist innra með því, þó það hafi ekki kynnst andlegum kvölum skilnaðar og búi með báða foreldra sína við nef sér öllum stundum.
Umframskammtar ástar og athygli mikilvægir
Skilnaðarbörn þurfa umframskammta af ást og athygli og ekki af ástæðulausu, vegna þess að það er svo mikil og margþætt reynsla sem þeim er ætlað að takast á við og vinna úr, þó lítil séu og óþroskuð, þegar skilnaður foreldra fer fram.
Unglingur eins og þú
er ekki feitur og ljótur eins og þú heldur fyrir alls kyns raðir af tilviljunum þvert á móti. Raunveruleikinn sem betur fer segir oftast annað. Oftast er bara elskan um að ræða rangt sjálfsmat barna í þinni stöðu, á sjálfs síns ágæti og útliti.
Þessi óhamingjusömu
og illa þjáðu börn, eru iðulega með kolvitlaust og alvarlega skert sjálfsmat og útlitsímynd, sem er ofureðlilegt miðað við erfiðleika þá, sem þeim er ætlað að horfast í augu við og jafnvel yfirvinna. Flestum þeirra finnst því miður að þau séu óalandi og með öllu óferjandi, nema að þeim sé einfaldlega bent á að svo sé ekki. Vandi þeirra og sjálfsóánægja sé einungis partur ömurlegs ytra sem innra ástands. Ef við íhugum stöðu þína í mynstri því sem viðgengst heima hjá þér, er margt og miður sorglegt við hana að athuga og það alvarlegt.
Þú ert t.d. bara unglingsstrákur
með viðkvæma sál og særanlegt hjarta. Hvernig í ósköpunum átt þú, að kljást á sama tíma, án þess að eitthvað láti undan, við ótæpilega áfengisneyslu þeirra sem eiga bera ábyrgð á þér, en þú ekki þeim og þær skyldur sem þjóðfélagið reiknar þér að auki, svo sem skólann. Nú eins og flestir vita sem vilja það, eru yfirleitt allir unglingar sem lenda mislengi þó í sálarkreppu útaf furðulegustu hlutum og eru viðkvæmnisleg viðhorf til sjálfs síns ofarlega á blaði í þeim kreppum og oft tengd hormónabreytingum ýmis konar og þeim augljósu þrautum sem fylgja því að vera hvorki barn eða fullorðin manneskja.
Börn og unglingar eiga sinn rétt
Nokkuð sem má að skaðlausu starla við, vegna þess að stundum er það nú svo, að við foreldrarnir krefjum ykkur ýmsist um þroska þess fullorðna og þá sér í lagi ef ykkur elskunum verður eitthvað á að okkar mati á. Hins vegar, ef við viljum leiðbeina ykkur eða umvanda við blessuð börnin, þá eruð þið skyndilega kannski á sama augnabliki orðin átta ára aftur og framkoma okkar fullorðinna í samræmi við það við ykkur, sem er vissulega fúlt.
Það er því verulegur vandi, að vera unglingur yfirleitt og ekki síst vegna mismunandi viðhorfa fullorðinna til ykkar og þá á þeim nótum eins og áðan var bent á.
Af þessum ástæðum,
er ágætt fyrir ungling að átta sig á rétti sínum og reyna sjálfur að jafna þetta óréttlæti með t.d. ábendingum til fullorðinna um, að sá sem er á mörkum barns og fullorðins, þarf sérstaka meðhöndlun andlega og kröfur um fullkomnun koma alls ekki til greina í því sambandi þó þið fengin vilduð enda asnalegt einu sinni að nefna slíkt við ungling einfaldlega vegna þess, að það er enginn fullkominn ekki einu sinni fullorðið fólk.
Málið er nefnilega,
að við sem fullorðin erum, getum átt það til að vera býsna barnaleg stundum, eins og t.d. kemur fyllilega í ljós hjá öllum þeim skara fullorðinna, sem ekki hikar við að skapa misgengi í höfðinu á sér með ótæpilegri drykkju áfengis. Sömu einstaklingar láta jafnframt líta út, eins og þeir séu slævir og dómgreindarlausir einhverjar þær fyrirmyndir ungs fólks, sem ástæða sé að taka mark á. Nei takk fyrir. Sá einn getur verið holl og góð fyrirmynd, sem gerir eins vel við barnið sitt hverju sinni og hann hefur vit til og það gerir ekki foreldri sem drekkur frá sér ráð og rænu. Þeir skapa því miður börnum sínum bæði sársauka og vonbrigði, sem erfitt getur verið að vinna bug á, þó reynt sé síðar með tiltækum ráðum þess, sem kann að iðrast hegðunar sinnar og framferðis við afkvæmi sitt.
Vanrækslubrot áfengissjúkra foreldra
Áfengissjúkt foreldri íþyngir afkvæmum sínum á mjög raunarlegan máta endalaust, eins og áður sagði og oft þannig að viðkomandi barn stórlíður fyrir afleiðingar heimskulegra hegðunar áfengissjúks foreldris langt fram eftir ævi sinni, jafnvel þó viðkomandi nýti sér góða hjálp þeirra félagssamtaka, sem sérhæfa sig í að laga og bæta það, sem bætt verður, vegna alvarlegra vanrækslubrota þeirra sem ofurseldir eru áfengi við börnin sín.
Vissulega er áfengissýki sjúkdómur
en þó einn fárra sjúkdóma sem fullkomlega er hægt að halda blundandi, ef viðkomandi sjúklingur kýs og hefur hugrekki til að takast af karlmennsku á við sjúkdóm sinn, með hinum ýmsu meðferðarmeðulum og til þess gerðum aðferðum og tækifærum sem bjóðast þeim áfengissjúka og eru aldeilis ekki svo fá, þó ekki sé grannt skoða í heilbrigðisþjónustu íslendinga. Á þessu sérstaka sviði mögulegrar viðreisnar og vætanlegs viðskilnaðar við vímuefni, stöndum við virkilega styrkum fótum miðað við aðrar og stærri þjóðir, þrátt fyrir allt.
Við skulum líka átta okkur
á þeim einfalda sannleik, að foreldrar barna, eru og verða alltaf ákveðnar og óumdeilanlegar fyrirmyndir barna sinna hvort sem þeir ætla eða ekki. Börn alkóhólista fá sjaldnast þá ástúð og einstaklingsumhyggju, sem þau þurfa og eiga rétt á.
Eins er, að ýmist hvílir á þeim
alltof mikil ábyrgð annars vegar eða óhófleg eftirgjöf hins vegar, af ýmsu tagi. Þetta eru aðstæður sem barnið elst upp við og er beinlínis neytt til að takast á við, hvort sem því líkar betur eða verr. Það, vegna heimilissýkingar að auki, kemst jafnframt upp með að nota sér eitt og annað miður hentugt, til að lifa af erfiðar aðstæðurnar og verður oft vegna neyðar sinnar bæði misþroskað og óþarflega slægt. Þessi slægð sem vill verða viðloðandi einstaklinga, sem alast upp í þessu hörmulega andrúmslofti örvæntingar og spennu og ómeðvitað styrkir þau, þó umdeilanleg sé í aðstæðum, þar sem allt getur gerst og fátt sem blessuð börnin geta svo auðveldlega komið í veg fyrir.
Það liggur því í hlutarins eðli
að þessi börn vilja verða óþarflega þroskuð á óheppilegum sviðum alltof snemma, sem getur háð þeim sem fullorðnum einstaklingur, fyrir utan það að þau festast flest svo kirfilega í þessu sjúka mynstri alkahólismans, að þau geta illa komist frá því, þó fullorðin verði og þau verði ekki sjálf neytendur og hana nú.
Offita áfengistengdra barna
Það er afar sjaldgæft að fólk ástundi ótæpilega drykkju, nema gefa sér einhverja þá ástæðu innri eða ytri vandræða, sem það telur réttlæta það að fara deyft með þessum átakanlega hætti í gegnum sitt daglega líf. Vissulega verður að segjast eins og er, að móðir sem drekkur áfengi í öllum sínum frítímum vanrækir gróflega skyldur sínar bæði við sig og börn sín og er alls ekki fær um að meta hvaða skaða hún veldur afkvæmum sínum. hálfdeyfð frá raunveruleikanum, á einhverum því óraunsæisflugi, sem óhófs drykkju alltaf fylgir.
Þegar foreldrar okkar skilja
veldur það okkur börnunum oftast miklum áhyggjum eins og áður hefur verið bent á og við erum ekki síst í vandaræðum með tilfinningar okkar og sálarlíf. Í þínu tilviki kemur sú vanlíðan fram í óhófi í matarvenjum, sem draga þann leiða dilk á eftir sér að þú verður óþarflega íturvaxinn eða feitur eins og þú bendir svo hryggur á.
Það má því með sanni segja elskan mín
að þú ert á þínu fyllieríi líka, án þess að átta þig beinlínis á því. Vegna þess að þér er hitt kynið hugleikið og telur möguleika þína fremur hæpna í þeim ágætu málum vegna aukakílóa, vill ég sem kona með gott auga fyrir hinu kyninu, benda þér á að feitir strákar eru ekki síður kynþokkafullir, en þeir mjóslegnu. Ef eitthvað er finnst okkur sumum þeir þéttu í við meira spennandi og þar hefur þú það.
Hitt er svo annað mál
og ekki síður athugandi að auðveld-lega má stjórna matarvenjum sínum, ef við kjósum og treystum okkur til. Eins og þér líður í dag, er kannski erfitt fyrir þig að leysa þyngdarvandann, jafnframt öðrum og áreynslu meiri verkefnum. Það sem þú telst elsta barn alkóhólista ert í miklum vanda og verður að fá viðeigandi hjálp, ekki seinna en núna.
Þú kemur ekki sjálfur í veg fyrir
drykkju móður þinnar, það gerir hún sjálf. Þér er því nauðsynlegt að leita þér hjálpar og stuðnings faglærðra og einmitt þeirra, sem sérstaklega hafa sérhæft sig í öllum hugsanlegum afleiðingum þessa vanda á barnsálina.
Eins og þú sérð elskan,
þá er í sjálfum sér ekkert óeðlilegt við aukafitu augnabliksins, nema það að hún fer í taugarnar á þér og það er allt eðlilegt líka. Allur vandi þinn er svo innilega tengdur innbyrðis og þess vegna ekkert skrýtið, þó hann taki á sig undarlegurtu og örðugustu myndir fljótt á litið.
Hlutverk þitt er rangt
Þú ert sennilega mjög plagaður af innilokaðri reiði og vonbrigðum, vegna ástands bæði móður þinnar og heimilisins yfirleitt. Nokkuð sem þú ert skikkaður til að taka þátt í, þó það sé þér ógeðfellt. Vafalaust reynir þú útí frá að leyna þessum ömurleika undir drep og þá aðallega vegna þessa, að auðvelt er að skammast sín fyrir það, að allt sé brjálað heima, vegna þess að mamma er kannski blindfull. Þú ert líka baramafullur af sektarkennd, án þess að gera þér beinlínis grein fyrir af hverju. Þannig tilfinning er óþægileg og bein afleiðing ástand, sem er alls ekki á þínu valdi að leysa, þó feginn vildir.
Mamma þín á þar miklu meiri möguleika,
með því einfald-lega að horfast í augu við sjúkdóm sinn og leita sér viðeigandi hjálpar. Hætt er við líka, að þú sér í þó nokkurri sjálfútskúfun og leggir þig fram við að þóknast öðrum á skökkum stöðum og þá ekki síst þeim sem eru utan heimilis, svo sem skólafélögum og jafnvel vinum og kennurum líka. Eins og líf þitt er í dag fer nánast allt þrek þitt í að reyna að hjálpa systkinum þínum og mömmu hvað sem raular og tautar.
Sektarkennd og rangt sjálfsmat
Allt náttúrlega á kostnað þinna eigin tilfinninga og tækifæra um annað og betra hlutskipti þér til handa. Það er líka hægt að gefa sér það, að þegar þið mamma þín rífist og hún jafnvel í framhaldi af því lokar sig af með flöskuna, fyllist þú óbærilegri sektarkennd og kennir þér um hvernig drykkju hennar er háttað í þetta skiptið og jafnvel oftar. Nokkuð sem er afar algegnt hjá börnum áfengissjúkra.
Allar þínar þrár og langanir
eru sennilega gróflega vanræktar, vegna of mikillar ábyrgðar þinnar á öðrum heima. Sennilega gerir þú sáralítinn greinamun á hinum ýmsu tilfinningu þínu og af þeim ástæðum er í sjálfu sér ekkert hentugt, að þú flýtir þér að mynda tilfinningatengsl við hitt kynið. Vart er hægt að ætlast til eftir að hafa búið við svona heimilisaðstæður, að þér sé auðvelt að gera greinamun á t.d. væntumþykju og svo aftur vorkunnsemi.
Af þessum ásstæðum gæti farið svo,
ef þú færð ekki sálfræðihjálp, að sú manneskja sem kæmi í fang þér ætti svipaðan eða jafnvel verri bakgrunn og þá sennilega einmitt brennivínstengdan. Það er engu líkar. en við finnum hvert annað jafnvel án orða. Við kynnumst þessu sérstaka atferli og áhrifum þess öðru meira og erum því eins og seglar á þá sem það þekkja líka og hafa upplifað það svipað. Vegna þess að þér finnst þú sennilega þurfa að vakta mömmu þína og heimilið, ert þú ekki eins félagsleghæfur og þú sem ungur strákur ættir að vera og af þeim ástæðum einangraðri en jafnaldrar þínir. Ofát er því ein af þeim leiðum sem við veljum, þegar aðstæður okkar eru okkur ofraun og við finnum okkur ein og aftengd öðrum.
Björgunar- og píslavottshlutverk
Ef þú elskulegur vilt ekki í framtíð þinni festast í einhvers konar eftirlitshlutverki eða björgunarstörfum andlega, fyrir þá sem ekki geta bjargað sér sjálfir að þína ágæta mati, er eins gott að gera sér grein fyrir því að öll stjórnun fólks hvert á öðru er röng og viðgengst einungis, þar sem um er að ræða skort á ábyrgð á sjálfs síns persónu á einhvern máta hjá viðkomandi.
Þeir sem neita að taka ábyrgð
á eigin persónu, eru oftast nokkuð sjálfmiðaðir og fjarrænir einstaklingar, sem auðveldlega geta verið bæði þunglyndir og fyrirhyggju-lausir og af þeim ástæðum skapað þeir bæði miklar raunir og glundroða í lífi þeirra sem gerast píslavottar í þannig samskiptum manna á milli. Þú verður því elskulegur að komast úr þessu fórnarlambshlutverki í annað og öllu nærtækara hlutverk gagnvert eigin persónu. Þú finnur þig lífsleiðan, sem er ósköp eðlilegt miðað við ástandið heima. Hver nærir þig? Enginn sýnist mér og ef þú svo gerir það ekki sjálfur, þá hrinur sjálfímynd þín smátt og smátt og sjálfvirðingin dvín þannig, að þér finnst þú þriðja flokks vera, sem engan tilverurétt á. Þannig afstað gagnvart sjálfum okkur má ekki viðgangs, því þá fyllumst við óbærilegum lífsleiða og flótti frá raunveruleikanum verður óumflýjanlegur.
Það að deyja breytir engu,
vegna þess að eins og ég hef sagt áður, er allt sem bendir til að við lifum líkamsdauðann og þá nákvæmlega eins, huglægt og við förum héðan. Hvað vit er í því að skapa sér þannig heimkomu í ríki Guðs? Við eigum ekki að velja þá leið að gefast upp á lífinu til breyta með kannski röngum aðferðum aðstæðum okkar og sitja samt áfram uppi með öll vandamálin.
Mál sem verður að leysa hér og nú
og helst áður en við deyjum. Lífið er til að þroskast af því og partur af þroskaferli einstaklingsins er mótlæti ýmis konar. Þitt andstreymi er erfitt, en alls ekki óyfirsíganlegt með Guðs hjálp og góðra manna, auk þíns eigin vilja, til að leita þér skynsamlegrar hjálpar.
Eða eins og grútspældi strákurinn sagði
einu sinni við félaga sína, þegar þeir voru að kvarta yfir peninga-leysi, en langaði svo á fyllerí, enda drengur bráðskarpur og aðlaðandi eða þannig: "Elskurnar mínar, er ekki nóg vesenið samt í veröldinni, þó maður sé ekki að auka það með því að drekka frá sér ráð og rænu. Væri ekki nær að virkja þá vaxtarbrodda heilbrigðs lífs sem meðal annars fellst í því að byrja aldrei að opna brennivínsflösku, vitandi að það veldur flestum vanda á einhvern hátt fyrr eða síðar, þó fátt bendi til slíks í byrjun. Heilbrigðir og hamingjugjafar lífsins, haldi sig nokkuð nærri kaldavatninu og láta Gvendarbrunn um að vökva kerfið, án áhættu eða líkum á þeim fáránleika mannlegra samskipta, sem ótæpilegri víndrykkju oftast fylgir. Jafnvel þó við dettum bara ein helgi undir tappann og ofaní flöskuna, þá er það einum og mikið, ef vitið fellur í flöskuna líka takk fyrir.
Guð styrki þig og örvi
á allan þann hátt sem hægt er, miðað við aðstæður þína núna elskan.
Vonandi færðu fljótlega skynsamlega lausn þinna mála.