Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Dulræn reynsla Jónu Rúnu

Lítill snáði í lífshættu

Flest okkar búa yfir ýmsum sálrænum hæfileikum
þótt þeir kunni að hafa farið framhjá okkur. Þannig munu ýmsir kannast við nánari umhugsun, að hafa orðið varir við hugboð hjá sér einhvern tímann.
Þetta getur lýst sér með ýmsum hætti. Sumir finna t.d. á sér óvænt gestaboð eða þess háttar.
Aðrir vita einhvern veginn áður en þeir svara í síma hver vill tala við þá o.s.frv.

Önnur skipti geta hugboð verið
miklu mikilvægari en þessi. Þannig var hugboð sem ég fékk í eldhúsinu hjá mér fyrir allnokkrum árum.
Það var kvöld og ég var við matargerð og alls ekki að hugsa um neitt sérstakt nema náttúrulega pottana og það sem í þeim var að malla.
Allt í einu kom yfir mig furðuleg tilfinning sem ég botnaði ekkert í. Það sótti nefnilega á mig sterk löngun til að fara út úr íbúðinni og fram á gang, en á þessum tíma bjó ég á þriðju hæð í blokk.

Ég reyndi eins og ég gat
að reka þessa vitleysishugmynd úr huga mér. En það blátt áfram
tókst ekki. Eftir nokkurn tíma, þegar tilfinningin var orðin nánast óbærileg, ákvað ég að kíkja fram á gang og athuga hvort kannski væri eitthvað að ske.
Ekkert virtist þar að finna,en þó jókst ónotatilfinningin að mun þegar fram var komið.

Stigagangurinn var langur
og voru sex íbúðir á stigapallinum.
Í örvæntingu minni gekk ég hröðum skrefum eftir ganginum í átt að stórum svölum sem þar voru. Svalir þessar voru hugsaðar sem neyðarútgangur ef í húsinu yrði bruni.
Þegar þangað kom blasti við skelfileg sjón.

Á handriði svalanna hékk
u.þ.b. 4 ára gamall drengur klofvega, aldeilis laus við að skynja þá gífurlegu hættu sem hann var í.
Mér var mjög brugðið og nú voru góð ráð dýr.
Ég sá í hendi mér að ekkert mætti raska ró drengsins því þá gæti honum brugðið svo að hann steyptist fram af svölunum, niður þrjár hæðir og biði jafnvel bana af.

Fyrir neðan svalirnar var bílastæði
og var það malbikað. Ég ákvað að læðast að drengnum og reyna að ná taki á peysunni hans. Ég beið þar til ég taldi öruggt að drengurinn sæi mig ekki og læddist hröðum skrefum að honum.
En um leið og ég snerti peysuna hans rak hann upp skaðræðisóp og virtist um tíma ætla að renna úr greipum mér.
Ég henti mér þá yfir hann og tókst við illan leik að koma bæði mér og honum ofan af handriðinu og niður á svalagólfið.
Þar brast ég í grát með lítinn undrandi dreng þéttingsfast í fangi mér, eins og um mitt eigið barn væri að ræða.

Það er ljóst
að þarna bjargaði sú ónotalega tilfinning sem mig greip, ókunnugum dreng frá hörmulegum aðstæðum sem enginn veit hvað endi hefðu fengið hefði ég ekki látið stjórnast af hugboðinu sem ég fékk af engu tilefni í eldhúsinu mínu.

Gefum því hugboðum okkar jafnan gaum og reynum að fara eftir þeim ef þau benda athöfnum okkar í ákveðnar áttir.

Skrifað af: Jónu Rúnu Kvaran

Efst á síðu

Póstur til Jónu Rúnu

.