Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Dulræn reynsla Jónu Rúnu
Skyggn á ferð

Í erindum mínum hjá ýmsum félögum undanfarin ár,
hef ég oft til gagns og gamans sagt frá dulrænni reynslu, jafnframt því sem ég hef lagt áherslu á mikilvægi jákvæðrar hugsunar. Hér á eftir ætla ég að bregða upp dæmi um slíka dulræna reynslu.

Þetta gerðist í Connecticut í Bandaríkjunum
en þangað fór ég árið 1983 ásamt góðri vinkonu minni, sem átti það erindi að heimsækja systur sína. Ætlunin var að við dveldumst hjá þessari konu í nokkrar vikur, en hún bjó með tveimur fullorðnum sonum sínum. Þegar þangað var komið fengum við vinkonurnar til afnota kjallara hússins. Það voru notaleg húsakynni.

Ég vil geta þess áður en lengra er haldið,
að þegar flugvél okkar flaug yfir Bandaríkin, fann ég, mér til mikillar undrunar sterka tilfinningu sorgar, næstum óbærilegrar hryggðar og fylltist einhvers konar óskiljanlegu vonleysi. Þessar einkennilegu kenndir færðust í aukana þegar að lendingu kom. Það var engu líkara en ég færi gegnum haf af hugsanagervum, tengdum átökum mannlegra tilfinninga og kennda, sem virtust standa í einhverju sambandi við ofbeldi, átök og styrjaldir.

Hugsanagervi kalla ég fyrirbæri,
sem líkja mætti við ósýnileg ský, sem aðeins skyggnir fá séð og skynjað, en þau er að finna yfir löndum, borgum og reyndar hvarvetna þar sem mannleg samskipti hafa átt sér stað. Þau eru lifandi afl, mynduð af hugsunum manna, sífellt á hreyfingu og mjög virk, ýmist til góðs eða ills, eftir því úr hvers konar hugsunum þau hafa skapast. Í augum skyggnra eru litbrigði þeirra því ýmist fögur eða skuggaleg. Áhrif þeirra á mannsálina geta því verið mjög jákvæð eða beinlínis lamandi. Þetta sýnir ljóslega mikilvægi hugsunarinnar. Þess vegna hvarflaði að mér við lendingu, að hér hlytu að vera ýmsir óuppgerðir hlutir í samskiptum lifenda og látinna.

Það kom mér því ekki beinlínsis á óvart
fyrsta kvöldið mitt í kjallaraíbúðinni þegar ég skynjaði að þar var fyrir hópur látinna. Mér er vitanlega ljóst, að ýmsir sem lesa um slíkt og eru efasemdarmenn og óskyggnir, munu telja þetta hugaróra eina. Um slíka afstöðu hef ég ekkert annað að segja en það, að mér er þetta fullkominn veruleiki, þótt öðrum sé hann hulinn. Það er ekki öllum gefið að trúa því sem þeir geta ekki sjálfir skynjað, jafnvel þótt það sé stutt með rökum.

En áfram með söguna.
Mér varð fljótt ljóst í nálægð þessa löngu látna fólks, að ein veran reyndist hafa sterkasta löngun til tjáskipta við mig. Þetta var ung, forkunnarfögur indíánastúlka, sérlega hárprúð með hátt gáfulegt enni, dökkan augnaumbúnað og óvenjulega hrífandi, næstum töfrandi augnaráð. Hún gekk hægt að rúminu mínu og horfði stíft á mig, fögrum tárvotum augum, sem endurspegluðu í senn eftirvæntingu, hryggð og einhvers konar ótta. Hún rétti fram hendurnar, eins og í bæn, og var með grátstafinn í kverkunum, full trúar og vonar. Hún sagði:,,Elsku hjálpaðu mér. Ég finn ekki barnið mitt. Ég er svo örvæntingarfull. Í langan tíma hef ég reynt að komast í samband við þá sem hér hafa verið, en árangurslaust. En þegar ég sá þig vaknaði von mín. Þú sérð mig og heyrir í mér. Ég veit og trúi því að þú getir hjálpað mér í neyð minni, þreyttri og örmagna.” Ég varð bæði undrandi og snortin. Hvað átti ég að gera? Hvers vegna var hún á reiki í þessu húsi? Af hverju hafði hún orðið viðskila við barnið sitt?

Að vísu hef ég verið gædd bæði skyggnigáfu
og dulheyrn frá barnæsku. Jafnvel þótt ég hafi í mörg ár reynt að létta lifandi fólki lífið, þá efaðist ég um að það væri á mínu valdi að sefa sorg látinnar veru. Einhverra hluta vegna ýtti ég þessu frá mér, því satt best að segja, þá taldi ég mig ekki ráða við þetta vandamál. En það breytti engu, því þessi elskulega en óhamingjusama stúlka hélt áfram að birtast mér kvöld eftir kvöld og endurtók sífellt það sama. Ég ákvað þá að gera allt sem í mínu valdi stæði henni til stuðnings. Ég ákvað að fara leið bænarinnar. Ef það væri Guðs vilji, að ég yrði farvegur til lausnar í þessu máli og stúlkunni yrði að ósk sinni, þá væri ég reiðubúin. Ég fór ekki fram á annað en skynsamlega og réttláta lausn fyrir hana í raunum hennar, sem virtust aðallega liggja í vilja hennar til þess að finna barnið sitt. Henni létti strax við bænir mínar og skömmu seinna birtust tvær bjartar verur sem leiddu hana á brott.

Eftir þetta birtist hún mér ekki um tíma
og ég taldi málið þannig vera úr mínum höndum. Svo var það eitt af síðustu kvöldum dvalar okkar þarna vestra, að okkur vinkonunum var boðið til kunningja gestgjafa okkar. Ég vil taka það fram, að ég hafði í trúnaði sagt vinkonu minni frá samskiptum mínum við iníánastúlkuna. En mér til mikils ama og undrunar erum við varla fyrr sestar í boðinu en vinkona mín fer að segja heimilisfólkinu þar, eins og ekkert sé eðlilegra, frá samskiptum mínum og indíánastúlkunnar.

Ekki varð ég síður hissa
þegar ég varð vör við gífurlegan áhuga húsbóndans á þessari frásögn. Hann hlustaði með mikilli athygli og upplýsti síðan þá staðreynd, að á þessum stað þar sem við höfðum dvalist, hefðu einmitt staðið tjaldbúðir indíána til forna og að í sögu Bandaríkjanna væri að finna frásögn af hernaðarlegum átökum hvítra manna og indíána einmitt á þessum stað. Þótt ég hafi í upphafi verið lítt þakklát vinkonu minni fyrir að fara brydda upp á þessu leyndarmáli mínu hjá ókunnugu fólki, fór þó svo, að ég varð henni að lokum í rauninni þakklát, því að upplýsingar mannsins staðfestu, að það sem ég hafði séð átti sér rætur í raunveruleika fortíðarinnar.

Síðasta kvöldið mitt í Bandaríkjunum
var einhver elskulegasta stund sem ég hef upplifað. Um miðnætti birtist mér enn indíánastúlkan mín, geislandi af hamingju, full af þakklæti. Við hlið sér hafði hún dæmalaust fallegt barn, sem virtist vera dóttir hennar. Erfitt er að lýsa þeim tilfinningum sem um mig fóru. Ég varð enn vissari um mátt og vilja Guðs til þess að koma þeim sem minna mega sín að liði, ef lögmál leyfa. Ég efaðist ekki um að þessar mæðgur áttu að hittast.

Það var dásamlegt fyrir mig
að fá þarna tækifæri til að rétta fram hjálparhönd í gegnum hlýjar hugsanir og fullkomið traust á vilja Guðs. Við horfðumst í augu eitt andartak og hún sagði við mig:,,Elsku vina, ef ég get einhvern tíma, einhvers staðar á leið þinni í gegnum jarðlífið létt þér gönguna, þá mundu að ég á enga ósk heitari en að fá tækifæri til þess að endurgjalda þér það sem þú í einlægni gerðir fyrir mig og barnið mitt.” Síðan brosti hún gegnum tárin og hvarf sjónum mínum.

Eftir að ég kom heim
hef ég oft fundið fyrir nálægð hennar, eins og húnværi að minna mig á loforð sitt. Þess vegna datt mér í hug vorið 1984 að biðja hana að hlúa að persónu, sem ég hafði verið að styðja og var mér mjög kær,en bjó yfir miklum dulrænum hæfileikum. Það er eftirtektarvert að framangreind persóna taldi sig þegar hafa orðið vara við umhyggju og kærleika þessarar látnu veru, séð hana og gat lýst henni. Skynjun okkar á þessari indíánastúlku fór því saman og var það mjög örvandi fyrir mig.

Mér er alveg ljóst
að þessi frásögn mín mun ekki breyta miklu í dagfari fólks, en það er þó von mín, að það veki einhvern til umhugsunar um það að breyta rétt og kristilega. Í þessari frásögn, sem er sönn, endurspeglast það hróplega óréttlæti sem frumbyggjar Ameríku urðu fyrir af hendi hvítra manna og hvernig afleiðingar þess geta birst skyggnum augum í hinum ömurlegustu myndum löngu síðar.

Skrifað af: Jónu Rúnu Kvaran

Fara efst á síðu


Póstur til Jónu Rúnu

.