Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Þessi síða er tileinkuð verkum Jónu Rúnu Kvaran
Áhrifamáttur hunda
Mynd: Nína Rúna Kvaran
ÓTTINN MISSKILNINGUR
Áhugi minn á hundum vaknaði fyrir um það bil 11 árum þegar kona nokkur auglýsti í hljóðvarpi að hún óskaði eftir nýjum húsbónda handa tíkarhvolpi.Á heimili hennar voru margir hundar og erfitt að brauðfæða þá alla.Þetta var ástæðan fyrir því að hvolpurinn eignaðist athvarf hjá fjölskyldu minni þá fjögurra mánaða gamall.
Fram að þessum
tímamótum í lífi okkar allra hafði ég álitið mig fráhverfa dýrum en komst að öðru við vistaskipti hvolpsins.Það sem gerðist var að þessi tiltekni hundur vakti áhuga minn á þessari dýrategund á annan hátt en áður m.a með gáfum sínum, kærleika og sterkum persónuleika. Eftir að hafa álitið mig hrædda við hunda þá upplifði ég það í kjölfar komu hans að ótti minn við þá til margra ára var á misskilningi byggður.
MIKILVÆGT AÐ STYRKJA SIG Í HÓPNUM
Tíkin fékk fljótt nefnið Kola enda í öllum aðalatriðum svört. Hún hefur gjörbreytt afstöðu minni til ferfætlinganna með gullhjörtun og eðlislægu einlægnina. Góðleikur hunda og sáttfýsi eru óumdeilanleg auk þess sem þeir eru frábærir félagar og tryggir lífsförunautar.Þar sem hundur, er ríkir gleði og hamingja.Þeir eru þannig gerðir að það er erfitt að láta sér ekki lynda við þá jafnvel þó þeir geti verið ágengir og kunni ekki alltaf takmörk sín í samskiptum.Þeir álíta mikilvægt að styrkja stöðu sína í hópnum og fylgja því þeim vilja fast eftir.
HIMNARÍKI OG FYRIRGEFNING
Einhvern tíma las ég það að einu lífverur jarðarinnar sem fyrirfram og án áreynslu ættu vísa himnaríkisvist væru hundar. Þetta held ég að geti verið rétt.Jafnvel þó að slettist upp á vinskapinn á milli hunds og húsbónda hans þá á eigandi hans vísa fyrirgefningu dýrsins.Segja má að hundar séu ómeðvitað sannkristnir. Þeir kunna og vilja fyrirgefa þeim sem hafa gengið á rétt þeirra.Kola hefur einfaldlega aukið skilning minn á mikilvægi þess að kunna að sættast og fyrirgefa ef þannig stendur á. Hún hefur jafnframt átt óbeinan þátt í því að í kjölfar hennar komu tveir aðrir hundar á heimili mitt.
HREINRÆKTUN EÐA FORFEÐURNIR Á HULDU
Hinir hundarnir tveir eru labradortíkur önnur svört og hinn gul.Þær eru gjörólíkar þrátt fyrir að um sé að ræða mæðgur. Ekki þykir mér þær eins vitrar og Kola og fátt er sameiginlegt með þeim og henni annað en það sem býr með flestum hundum. Sumar hliðar þeirra eru jálægar en aðrar neilægar.Þær eru hreinræktaðar en Kola er það blönduð að enginn hefur fyllilega getað áttað sig á forfeðrum hennar í föðurætt, þrátt fyrir sársaukafulla leit.
VISTARSKIPTIN ÞJÁNINGARFULL ÞRAUT
Sara er svört eins og nóttin og alin upp í frumbernsku af öðrum en mér og dóttur minni.Hún hefur því þurft að leggja sig fram við að vinna sig í álit í hópnum sem samanstendur af mér,dóttur minni,Sunnu og Kolu. Vistaskiptin voru Söru þraut og nokkuð þjáningarfull. Hún hafði t.d í frammi ógnandi tilburði þegar hún kom fyrst á heimilið. Með því atferli var hún væntanlega að kanna þá möguleika sem hún gæti haft sem utanaðkomandi einstaklingur í hóp með þeim sem fyrir voru og vissir um sitt.Það er jú áríðandi að standa sig í byrjun samskipta.
LISTFENG EN ÓGNVEKJANDI
Sara er heimarík og geltin þó ágætis hundur sé að öðru leyti.Sérstaklega er hún slæm með þennan óhóflega ósið þegar ókunnuga ber að garði. Hún kann að komast yfir viðskilnaðinn við fyrri eigendur en eitthvað segir mér að erfiðara verði að venja hana af geltinu.Það hefur verið talað við mig um það að láta á hana rafmagnsól til að stemma stigu við geltinu en ég get ekki hugsað mér það.Allt óþarfa gelt og frekjulegt atferli hundsins getur virkað mjög ógnvekjandi á ókunnuga.Sara kann þó nokkuð fyrir sér í listum og látbragði og bregður þeirri kunnáttu iðulega fyrir sig þegar hún hefur hlaupið á sig og valdið óþægindum. Full iðrunar og áfjáð í yfirbót.
EINFÖLD OG ÞRJÓSK
Yngsta tíkin á heimilinu er dóttir Söru og hún heitir Sunna. Hún er einstaklega falleg og ljúf en því miður einföld í hugsun og athöfnum.Eiginlega þannig að til óþæginda getur verið.Sunna er ljós eins og sólin og það geislar af henni góðleikanum og einlægninni.Augun hennar eru eins og tvær bjartar brúnar stjörnur,lýsandi fögur.'I þeim býr sakleysi og góðleikur enda stenst enginn augnatillit hennar og nærveru. Hún er fyrirmyndar hundur þótt þver sé og skilningsvana vegna vitleysis og þrjósku. Hún hefur engan áreitt nema í gegnum eigin einfeldni.
PERLUR MARGÞÆTTRA TILFINNINGAR
Það sem að kemur þó mest á óvart er hvað blendingurinn Kola hefur þótt óhreinræktuð sé, góða greind og næman skilning á þeim sem eru samvistum við hana. Ef ég ætti að hugsa um heimilishald án hundanna þá efast ég um að mér líkaði það í dag.Ég er orðin háð þessum einstöku perlum margþættra tilfinninga þó að þær reyni á þolrif mín af og til og mikil vinna fylgi aðhlynningu þeirra og uppbyggingu. Þó ég hafi oft af gefnum tilefnum misst þolinmæðina við þær þá eiga þær aðdáanda í mér og dyggan stuðningsmann og um þessa staðreynd er þeim fullkunnugt.
HUNDAR ERU GULLS ÍGILDI
Nærvera hunda er andlega uppbyggileg og tilfinningalega nærandi og m.a.af þessum sökum eru þeir mannfólkinu
kærir og áríðandi. Mikilvægi þeirra liggur m.a.í því að þeir hafa miklu fleiri kosti en galla.Góður hundur er gulls ígildi og hann á allt gott skilið. Við verðum vegna mikilvægis hunda að vera góð við þá jafnvel þó að mikið sé fyrir þeim haft á stundum.Hundar eru góðir vinir og fyrirgefa flest enda eru þeir sannir og kærleiksríkir.
Því miður féll Kola frá þann 13.ágúst 1999. Hennar er sárt saknað.