Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Grín og gaman. Höfundur: Jóna Rúna
Hallgerður Hádal útbýr veislu

Pabbi og mamma eru alveg brjáluð útí mig
þessa dagana og reyndar afi á Grandanum líka. Málið var að afi átti von á einhverjum frjálsmúrurum í mat á fimmtudagskvöldið og vantaði góða en nýja mataruppskrift. Mamma hefur séð um þessar karlrembuveislur fyrir gamla skaftið, en hún var ekki heima. Hlunkurinn heldur að hann eigi allt kvenfólk í ættinni og hálfpartin neyddi mig til að koma og redda þessari matargerð fyrir sig.

Ég náttúrlega leysti þetta mál
með minni útfærslu af meiriháttar eskimóauppskrift. Í stað þess að nota bara lirfu fiskiflugunnar,( sem ég tel mjög ósmekklegt af eskimóum) notaði ég að sjálfsögðu sjálfa fiskifluguna í aðalréttinn. Það er lágmark að flugan fái að fljúga fyrir verkun og steikingu og pæla svolítið í umhverfinu fyrir átu. Afi var fyrst æðislega ánægður. Ég var í fimm tíma að redda bara brasinu og aðra fimm að gera allt klárt og sparaði mig sko ekki.

Ég setti meira að segja
sjúklegan arfa til skrauts á borðið í einar þrjár gosflöskur fyrir þetta vanþakkláta pakk. Ég gat ekkert lagt mig þennan eftirmiðdag. Það sjá allir að annað gengur bara ekki, ef maður á ekki tapa heilsunni fyrir sautján ára aldur. Um nóttina hringdi sá gamli í algjöru geðsýkiskasti og sagðist vera með dýraverndunar­félagið, lögregluna, og geðlækni á tröppunum hjá sér.

Konan í næsta húsi
hafði hringdi í þetta lið og sagt að hann hefði verið dulbúinn eins og unglingsstúlka allan eftimiðdaginn að veiða fiskiflugur, sem hún sá svo greinilega með því að nota kíki, að hann hreinsaði og síðan steikti á pönnu í eldhúsinu. Manneskjan er algjör fáviti að ruglast á augnakonfekti eins og mér og gamla Ford. Frjálsmúrarnir höfðu fengið kast, þegar afi tók pappírinn af fatinu og þeir sáu sextíu feitar og léttsteiktar fiskiflugur koma í ljós. Gömlu mennirnir voru víst fluttir burt í áfalli og fengu lögreglufylgd heim.

Ég veit ekki betur
en ég hafi verið búin að taka allan óþarfa af flugunum áður en að ég steikti þær, svo þetta stress í þeim var algjör móðursýki og snobb. Jóa vinkona fékk svona eskimóarétt hjá mér um daginn og ég veit ekki betur en hún hafi á fimm mínútum losnað við heilt gengi af sníkjudýrum. Banhungrað lið sem ætlaði að troða sér með Halla bróður hennar í matarboð, sem átti bara að vera fyrir hana og nýja " njólann" sem hún var að byrja með.

Jóa grenjaði rosalega,
þegar að gaurinn hljóp út með genginu og sagði um leið: " Vá! Gellan er eitthvað afbrigðileg." En við skulum bara athuga það, að það var ekki nema von að aulinn hyrfi, þegar Halli bróðir hennar sagði við hann, spældur af græðgi af því að hann fékk ekki að vera með: " Jóa notar ýmist fiskiflugur eða refaskott í matargerðina vinur.” Vonandi verð ég uppgötvuð fljótlega. Ég er meiriháttar, það er á tæru.


Póstur til Jónu Rúnu

..