Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Grín og gaman. Höfundur: Jóna Rúna
Grillveislan
Það er allt liðið í kasti hérna á Nesinu
vegna þess að ég í sjálfsvarnarskyni seldi nokkrum hér í götunni aðgang að þessari snobb grillveislu sem á að vera hérna í garðinum um helgina. Gamli gaurinn verður að fá að sýna nýju gullfiskaorðuna sín. Glæta.Ég meina ef það á eitthvað að reyna að bögga mig með svona kjaftaði, þá má þetta lið liðast rólega útaf mín vegna.
Gamla ryksugan er gjörsamlega að flippa
vegna þess að eina steikin sem er í gangi núna er af einhverjum gömlum kusu. Pælið í því það á að senda pabba á pallbíl upp í sveit til að leita að sæmilega spikuðu nauti fyrir þetta lið. Skammast maður sín fyrir svona gengi?. Já! Og þá meina ég. "Ég er í kasti!" Ég fer ekki í gamla fermingarkjólnum mínum í grillveislu með snargeggjað lið á hælunum og tíkarspena í hárinu nema að græða eitthvað smá.
Ég meina ég flyt að heiman fyrir helgi.
Var einhver að segja að það saknaði mín enginn? Er kannski verið að gefa í skyn að maður sé eitthvað "noja" eða eitthvað. Ég sagði bara við afa á Grandanum þegar hann nefndi þetta með pylsurnar og gosið. "Gott málefni hefur alltaf forgang. Ég kem í pylsurnar með það sama ef ég fæ frímiðann sem þú vannst á "Iron Maiden" tónleikana í Japan í sumar. Ég sver það:" I just love Japanís."
Ég meina . Ég varð að selja inngang í grillpartíið.
Sénsinn. Maður missir ekki svona meiriháttar tækifæri til að græða smá. Ég bankaði bara upp hjá þessu gengi hér í götunni og sagði frá þessu með gullfiskaorðuna. Orður eru eitthvað svo spes. Það borguðu náttúrlega allir til að fá að sjá gripinn sem pabbi fékk þegar honum tókst að bjarga gullfisk frá hægum dauðdaga, þar sem hann lá á botninum á fiskabúrinu hjá syni mannsins í næsta húsi.
Ég meina, þó afi gullfisksins sé ráðherra
eða eitthvað, þarf ekki að láta eins og aldrei hafi neinn bjargað neinum áður. Fæ ég augngotur? Já. Þetta eru dónar og rúmlega það. Það sjá allir. Ég veit vel að ég seldi nautagrillsneiðina á fimmþúsund kall og ef fólk keypti gos, þá bætist tvö þúsundkall við. Það má segja að þetta hafi bara verið meiriháttar smotterí. Alla vega gerði ég ekkert til að græða á þessu gengi. Það er svo svakalega taugatrekkjandi vinna að búa til svona aðgöngumiða. Það má segja að það fari hver tíkall í rosalegan kostnað.
Gamla settið er trompað
og segir að ég sé ógeðslegt, ofdekrað kvikindi. Eiginlega eigi ég við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Það sjá allir að ég er munaðarlaus og rúmlega það. Við skulum bara athuga það þegar ég verðlagði og rukkaði inn fyrir Jóu vinkonu fyrir síðustu grillveislu í garðinum hjá þeim, þá gekk allt upp með það sama. Jóa komst bæði til Frakklands og London. Það er meira að segja afgangur sem við ætlum að nota til að dressa okkur upp með, til að lenda ekki í afneitun á næstunni. Nógar eru nú "Öskubuskurnar" samt hérna á Nesinu.