Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Grín og gaman. Höfundur: Jóna Rúna
Enginn elskar mig

Ég er rólega að geðbilast hérna á Nesinu
og öllum er svo innilega sama. Það elskar mig engin. Ég er greinilega munaðarlaus. Glæta. Ég meina alveg sama þó ég sé svo þreytt og slitin eftir vikuna, þá er mér samt dröslað og ég endurtek dröslað til Tótu frænku klukkan eina mínútu yfir þrjú allar helgar. Pabbi er alltaf eina mínútu að kíkja á hvort þjófavarnarkerfið er í gangi.

Það er algjör óþarfi að láta eins og maður sé fáviti,
þó maður neiti að fara í boð til Tótu frænku á hverjum sunnudegi og borða stanzlaust sömu uppþornuðu brúntertuna með stöfunum manns ofaná og einu kerti til að blása á. Allir í einu náttúrulega. Alveg sama þó allir séu andfúlir og með smitandi sjúkdóma. Það sjá allir. Allir í stressi útaf "boll boll" Tótu frænku. Glæta eins og það séu ekki til fleiri ættingjar en þessi ástsjúka, akfeita, móðursjúka geit sem hugsar bara um mat og hvort Óli kærastinn hennar stækki eitthvað við það að fara í sund tvisvar á dag.

Það sést svo innilega að það hefur
"ekkert" stækkað á bautanum. Hlunkurinn getur ennþá notað gömlu matrósabuxurnar sínar, það sjá allir. Ég er hörð á því að fara ekki á sunnudaginn. Ég er rólega að tapa persónuleikanum. Það spyrja mig allir hvort ég sé búin að taka til rauða flauelskjólinn og ætli að hafa gosbrunn í hárinu og íslenska fánann í fanginu svo Tótu finnist ég ekki vera að vaxa frá sér eða eitthvað.

Ég meina það eru tíu ár síðan ég var fjögurra ára.
Ég neita að gefa þessu liði upplýsingar um ferðir mínar. Það eru greinilega allir á rosalegri spæjaravakt. Gamla liðið sér náttúrlega að það borgar sig ekki að reyna að bögga mig. Ég gef ekki svona pakki kost á svona rosalegu ofbeldi. Ég veit að það verður ekkert talað við mig næstu dagana. Þess vegna læt ég mig bara hverfa í bili.

Þetta lið á eftir að sakna mín rosalega.
Við skulum bara athuga það að síðast þegar átti að neyða Jóu vinkonu til að fara til gamallar frænku sinnar, þá bara sagði ég henni að flýja burt með þetta tveggja daga fyrirvara. Það voru allir svo hræddir um hana, að það má segja að liðið heima hjá henni hafi hlaupið með hana í fanginu heim, þegar þau fundu hana loksins. Allir hágrátandi svona innilega. Ég meina það er ekkert verið að gera í því að koma Jóu í kast. Hún er svo rosalega viðkvæm sál. Hún lætur sig þá bara hverfa smá og allir fara í kerfi.

Við Jóa þolum ekki svona lið
sem er í því að pína fólk til að hlusta á sömu gömlu velluna um vörtur og kláða allar helgar. Okkur kemur ekkert við, þó báðar frænkur okkar séu næstum alskeggjaðar og séu í því að blokka á sér höku- og efrivaradúninn með klökkum árangri,þó stærstu hárin séu alltaf til sýnis. Fær maður velgju? Já og þá meina ég. Glætan. Mér ofbjóða svona hökufléttur á svona gömlum ofdekruðum loðlúsum og Jóu líka.

Vonandi verð ég
uppgötvuð snarlega.

Skrifað af: Jónu Rúnu Kvaran


Póstur til Jónu Rúnu

..