Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Grín og gaman. Höfundur: Jóna Rúna
Hvolparnir
Glæta. Eins og það sé í lagi
að fela fyrir öllum að það hafa fæðst hér í Hrafnanesinu frekar ljótir poodle-hvolpar. Málið er að mamma er í geðsýkiskasti vegna þess að Mjallhvít, þessi ofdekraða geðvonda poddletík eignaðist mjög flippaða hvolpa fyrir viku. Það má segja að það eins og vanti yfirbragð rétta kynsins á þessi afstyrmi, þannig að þegar horft er á þá,þá dettur manni í hug að eitthvað mikið hafi gleymst í samsetningunni. Til dæmis eru fæturnir eins og sæmilega stórir blýantar, en höfuðin á þeim á stærð við gamla körfuboltann minn.
Pabbi er alveg með það á tæru
að ljótur labradorhundur hafi nauðgað Mjallhvíti og þessi skaði verði aldrei bættur. Það sést svo innilega hvað þau eru flóttaleg þegar einhver spyr um hvolpana. Þau fela þá í kjallaranum og maður veit svo meiriháttar vel að þau ætla að reyna að losna við þá á ósmekklegan hátt.Það sjá allir. Þetta er svo lúmskt lið. Ég er þess vegna búin að plotta rosalega gott mál. Ég talaði bara við Tótu frænku og bað hana að redda góðum heimilum fyrir þá. Fólk fær ekki poodlehunda af Hrafnanesinu á hverjum degi svona má segja næstum ókeypis.
Rosalega verður annars gott að fá hundrað þúsundkallinn
til að komast loksins í sæmilega gott dress og eitt og annað smá, eins og t.d. vantar mig svo innilega ný tæki og sennilega verð ég að splæsa í skó líka. Það sjá allir að maður verður svo pirraður á að hafa ekki nema rétt fimmtán pör til skiptana.Það fattar enginn þetta höfuðin og fæturna enda má fólk bara vera alsælt með að tengjast Hrafnanesinu svona rosalega í gegnum poodlebibburnar. Tóta þessi herfa pælið í því heimtaði frekjulega sölulaun.
Sumt fólk er ótrúlega frekt.
Eins og hún megi ekki vera ánægð að vita að hún er að bjarga fimm hvolpum frá munaðarleysi. Vonandi selur hún gengið nokkuð snökklega. Baddi bróðir þessi ástsjúki njálgur er enn þá einu sinni í sjálfsvelti útaf gellu sem hann var búinn að planta sér á, en hann segir að hún sé búin að svíkja sig. Mamma má ekkert vera að því að hugsa um mig, vegna þess að Baddi er gjörsamlega móðursjúkur og hótar að ganga í sjóinn ef pían birtist ekki á svæðinu fyrir tólf í kvöld.
Þoli ég svona penppíur?
Nei, og þá meina ég no!. Ég næ engri athygli. Það elskar mig örugglega enginn, enda er ég rólega að deyja. Eiginlega má segja að ég sé dáin. Við skulum bara athuga það að þegar ég ráðlagði Jóu vinkonu þegar hana vantaði í hvelli sæmilega stóra summu til að kaupa tölvu, að týna bara allar rósir í garðinum upp og selja þær hérna í Hrafnanesinu,
þá small allt saman.
Það keyptu allir strákarnir rós af henni á nesinu og þar með var búið að bjarga geðheilsunni þann daginn og enginn gutti á kafi í uppvaski eða öðru þrælahaldi. Perurnar hérna voru svo meiriháttar ánægðar að fá rauðkurnar. Jóa á vasapening út árið og enga öfund.