Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Hugleiðingar Jónu Rúnu

Hugleiðing í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum

Frelsi er fjársjóður
friðar og kærleika

Af alvarlega gefnu tilefni
vil ég láta nokkur orð falla í þann hryggðarfarveg sem myndast hefur í sammannlegum samskiptum undanfarið, í kjölfar hræðilegra hryðjuverka ofbeldis og grimmdar sem unnin voru á saklausu fólki í Bandaríkjunum þriðjudaginn 11 september 2001.
Í þessum átakanlegu, ómennsku árásum á fólk og mannvirki, kom fram þvílík mannfyrirlitning og fólska, að venjulegt fólk er orðvana og harmi slegið.
Þessi grimmdarverk eru svo fráleit í tilgangsleysi sínu og valdníðslu að það er þyngra en tárum taki að hugsa um þau án þess að fyllast ótta og óöryggi og efast jafnframt um það, að á bak við slíka atburðarrás geti staðið mannsvilji og hugsun.

Því er alfarið hafnað
að framkvæmt þessi sé gerð af guðlegum hvötum. Hún á engin tengsl við Guð eða hans vilja mönnunum til handa.
Atferlið undirstrikar algjöra afskræmingu í hegðun og hugsun og er því áunnin vitfirring í eðli sínu og framkvæmd.
Hvað getur fengið nokkra lifandi veru til þess að framkvæma slík voðaverk á meðbræðrum sínum?
Er ekki mál að linni. Við sem fordæmum þessa skelfilegu framkvæmd lýsum yfir andúð okkar og fyrirlitningu á þeim glæpsamlegu hugleysingjum sem leyfa sér að myrða samferðarfólk sitt við aðstæður sem eru vonlausar, í skjóli einhvers konar trúar á tilgang og réttmæti framkvæmdarinnar.

Það er ekki Guði þóknalegt
að deyða meðbræður sína og grafa undan öryggi þjóða og þegna þeirra með árásum úr launsátri þannig að það verður aldrei aftur tekið.
Mannfólkið mun ekki verða samt eftir þessa fólskulegu framkvæmd.
Mannkynið þarf að standa saman af afli og heilindum gegn öllum sem ástunda hryðjuverkastarfssemi og mynda samstöðumúra sem ekki verður auðvelt að brjóta niður ef styrkur undirstöðu þeirra er sterk kærleiksvitund og ást á mannkyninu sem heild og þeirri jörð sem hýsir það.

Árás hóps hryðjuverkamanna
á bandarískt þjóðfélag og einstaklinga því viðkomandi er jafnframt árás á mannlega reisn hvar sem hún þrífst í heiminum.
Bandaríkjamenn eiga ekki að taka einir afleiðingum hennar.
Voðaverkin eru ekki einkamál þeirra sem framkvæmdu þau eða þeirra sem fyrir þau munu líða um ókomna framtíð, heldur jafnramt mál okkar hinna sem hvergi vorum nærri og mannvonskuspjótunum var ekki beint að í verki.

Við eigum undir öllum kringumstæðum,
hverrar þjóðar eða trúar sem við erum, að leggjast af afli gegn hvers kyns hryðjuverkavaldníðslu og ranglæti.
Ekki síst vegna fólsku og afsiðunar ofbeldisaflanna sem fela sig stöðugt á bak við ranga skildi eigin hugarsmíða í ómennskum framkvæmdum sínum.
Ómannúðlegum hryðjuverkum husgsuðum og framkvæmdum til þess eins að valda stórfelldu tjóni og skelfingu.
Grimmdarverkasmiðirnir valda ekki einungis þeim sem fyrir ódæðum þeirra verða skaða og þungum sorgum, heldur halda þeir okkur öllum sem vitni verða að hörmungum slíkra skemmdarverka í heljargreipum óöryggis og vanmáttar.

Við þurfum að biðja góðan guð
um að vaka yfir fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra sem taka nú afleiðingum af skefjaleysi hryðjuverkanna.
Eins óskum við þess að himnafaðirinn gefi þjóðum heims yfirsýn og andlega þroskavitund sem leiðir mannkynið til réttlátra og ásættanlegra úrlausna varðandi væntanlegar refsingar þessara siðblindu og illu einstaklinga sem hryllingsverk liðinna daga hafa framkvæmt.
Dómstólar eiga að kalla ódæðismennina til ábyrgða á voðaverkum sínum og dæma þá í samræmi við eðli glæpanna.

Við hin eigum að halda okkur til hlés
í þeim efnum. Það er ekkert sem réttlætir árásir á íslamska trúar-og samfélagsmenningu þar sem saklaust fólk er látið líða að ósekju,
þó að það kæmi í ljós að allir sem stóðu að glæpnum reyndust vera múslimar.
Að glæpamönnunum standa vitanlega saklausir ættingjar, börn og fullorðnir ásamt trúbræðrum og öðrum þeim sem tengjast þeim einhvers konar böndum en sannanlega komu hvergi nærri glæpnum. Þeim sem málið er viðkomandi óbeint með þessum sérstaka hætti, eiga ekki að taka afleiðingum af ódæðisverkum viðkomandi.
Nógar eru þrautir þeirra og sorgir samt.
Við vitum öll að við getum ekki fordæmt alla þýsku þjóðina þó að Hitler hafi verið Þjóðverji.
Við getum þaðan af síður fordæmt allt kristið fólk útfrá sama einstakling þó að við gjörþekkjum í dag grimmdarvek þau sem Hitler, kristinn maður, bar ábyrgð á.
Sama sjónarmið verður að að hafa í huga í þessum átakanlega og viðkæma hildarleik óréttlætanlegra óhæfuverka.

Það er jafnframt mjög mikilvægt
að við biðjum fyrir þeim sem eru látnir eða slasaðir í hópi fórnarlamba þessarar ómennsku mannfyrirlitningu og grimmdar sem Bandaríkin hafa mátt horfast í augu við að undanförnu. Ekkert síður en að það er mikilvægt að heimsbúar biðji jafnframt fyrir eftirlifendum hryðjuverksins.

Megi góður Guð vísa
bandarísku þjóðinni og þeim þjóðum öðrum sem sjá nú á eftir ástvinum sínum yfir móðuna miklu, veg kærleiks, trúar og réttlætis varðandi óumflýjanlegan eftirleik þessara illu óhæfuverka. Til að bugast ekki og láta ekki undan grimmdarverkum sem þessum, verðum við þrátt fyrir óendanlega sorg og þjáningar, að passa að missa ekki trúnna á ábyrgar og góðar manneskjur, fullar af guðlegri kærleiksvitund og samhyggð hver til annarar í ótrúlega viðsjárverðri veröld. Ekki síst núna á þessari ögurstund örvæntingar og sorgar

Við trúum því
að fyrr en síðar verði réttlætinu fullnægt. Þrátt fyrir þá vitund vitum við jafnframt að það breyttist eitthvað stórvægilegt þennan dag innra með öllum sem málið er viðkomandi, ekkert síður en hjá okkur hinum sem fylgdumst með atburðarrásinni í gegnum fjarlægð fjölmiðla.
Sú breyting verður vonandi m.a. til þess að við kjósum af meira afli en áður að rækta með okkur aukna tiltrú á gildi góðleikans og mikilvægi samstöðu og velvilja varðandi samskipti við meðbræður okkar og systur.
Lífið er það dýrmætasta sem hvert og eitt okkar á. Enginn á að geta tekið sér það vald að svipta okkur því vegna eigin samfæringar hver svo sem hún kann að vera.
Heimurinn þarfnast góðs fólks sem sér tilgang í því að rækta og hlú að verðmætum gildum góðleikans í sem flestum myndum, sjálfu sér og öðrum til heilla og hamingju.

Við verðum að líta á hryðjuverk
eins og plágu sem fylgir gjöreyðing ef ekkert er að gert. Mennirnir hafa fundið upp lyf gegn ótal sýkingarplágum sem hrjáð hafa mannkynið og afstýrt skelfilegum afleiðugum ýmissa þeirra sem fylgt hefði gjöeyðing ef ekkert hefði verið gert til úrbóta.
Hryðjuverkaplágan er skelfilegri og óútreiknanlegri en allar plágur til þessa, ekki síst sökum þess að hryðjuverkaplágan er úthugsuð af morðingjum sem skortir alla kærleiksvitund, siðferðisskilning og mannúð.
Henni getur skotið upp hvar sem er í heiminum án fyrirvara öðrum til tjóns.
Hvernig þau meðul ættu að vera sem unnið gætu á slíkri grimmdarplágu er hulin ráðgáta, en þau hljóta að vera til staðar þrátt fyrir allt og finnast með Guðs hjálp og góðra manna.

Við vitum að illskan er hraðvirkt
og tortímandi niðurrifsafl sem er fljótara í förum en andstæða þess, kærleiksaflið.
Það virðist því oft á tíðum við fyrstu viðkynningu öflugra. Þegar upp er staðið og að reikningsskilum kemur, þá segja staðreyndir að kærleikurinn hafi þrátt fyrir hægfara vöxt sinn alltaf haft vinning fram yfir illskuna.
Jafnvel þó að ekkert hafi bent til að slíkt væri mögulegt. Kærleikurinn er sannanlega öllum öflum æðri og þar með yfirsterkari illskuaflinu og því heppilegt líknar- og baráttuafl gegn vonsku við allar aðstæður.

Kærleikurinn verður að vera
til í huga og sál mannanna og þaðan á hann að dreifa mætti sínum og vaxtarbroddum.
Sagan segir að þar sem kærleikurinn ræður ríkjum sé gott að vera og friður ríki manna á meðal.
Til þess að vegur hans í veröldinni verði sem áhrifaríkastur þarf það að vera keppikefli réttsýnna einstaklinga og áhrifavalda mannkynsins að ala á tiltrú á mikilvægi kærleikshvetjandi sjónarmiða gegn mannvonsku og skemmdarfíkn í sammannlegum samskiptum.

Ég votta ættingjum og vinum
fórnarlamba hryðjuverkanna samúð mína og bið Drottinn að vernda þá og hvetja áfram til þess lífs sem heldur ótrautt áfram þrátt fyrir þungar sorgir og þjáningarfulla þanka.
Söknuður þeirra sem eftir lifa og vonleysi vegna vanmáttar og vandlætingar á atburðum liðinna daga er mikill og maklegur.
Sorgin er sár og minningar um ódæðisverkin reiðihvetjandi og einmitt af þeim sökum er mikilvægt að þeir sem hlut áttu að máli svari sem fyrst til saka.

Þessi skelfilega árás á menn og mannvirki
í Bandaríkjunum er árás á allan hinn siðmenntaða heim og öll ríki veraldarinnar eiga að taka höndum saman gegn hvers kyns hryðjuverkum hvar sem þau eru framin.
Blygðunarlaus grimmd þessara gjöreyðingarmanna deyddi hundruðir varnalausra án möguleika þeirra til að verja sig auk þess sem hin skefjalausu illvirki náðu að rústa stórfelldum mannvirkjum.
Sú gengdarlausa mannfyrirlitning sem kemur fram í þessum hroðalega glæp gegn mannkyninu er skelfileg og algjörlega óskiljanleg.

Ekkert trúarsamfélag
gæti stutt jafn fólskulegt athæfi gegn saklausum eins og þetta er.
Engin þjóð myndi vilja ala af sér ómennsku sem þessa í líki manna.
Engin fjölskylda vill axla ábyrð á mannslíki sem þessu. Það er af og frá að ýta ábyrgð þessara atburða frá einstaklingunum sem framkvæmdu þau yfir á trúarhópa, þjóðfélög eða fjölskyldur viðkomandi.
Þeir sem þau framkvæmdu hafa sjálfir dæmt sig úr samfélagi manna og verða sem slíkir að taka öllum afleiðingum af þessum ómannúðlega glæp sínum.
Guð vísi okkur veginn til fullnaðarsigurs yfir vonskunni sem í augnablikinu lamar eðlilegt mannlíf í veröldinni.

Skrifað af: Jónu Rúnu Kvaran


Póstur til Jónu Rúnu

..