Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Innsæis-speki Jónu Rúnu

Manngæska


Eins og við vitum
er eðli okkar mannanna mismunandi og eitt af því sem prýðir einstaka mann er manngæska. Það er vitanlega enginn vandi að vera slæmur og neilægur en það getur verið flókið og fyrirhafnarmikið að vera góðgjarn og réttsýnn.

Hjartagæska kemur meðal annars fram í því
að vilja öðrum vel við allar aðstæður. Gæska í öllum myndum telst uppbyggilegur, andlegur aflvaki og ætti því að efla járæn og heilbrigð samskipti. Það er mikilvægt að vera öðrum góður. Ekkert launungarmál er að við sem erum þannig innstillt andlega finnum fyrir vellíðan og friði í samskiptum við aðra. Líknarlundin er mannkær og óeigingjörn atferlisstefna sem finnur venjulega sinn vitjunartíma. Hún verður þeim sem njóta hennar venjulega til blessunar og ávinnings. Veglyndi getur verið margs konar en telst þó fyrst og fremst tengjast kærleikshvetjandi, jágjörnum lífsviðhorfum.

Við verðum sjálf að rækta upp og hlúa að
þeim eðlisþáttum í innra lífi okkar sem okkur þykja eftirsóknarverðir og heppilegir til að göfga og fága. Góðsemi verður ekki til fyrir tilviljun eða af sjálfu sér. Það þarf að rækta hana og efla eins og annað. Hún fær þó frekar líf í hugskoti okkar og athöfnum ef við skiljum mögulegan tilgang hennar og teljum hana eftirsóknarverðan aflvaka og mikilvægan í samskiptum. Það verður enginn veraldlega ríkur af því einu að ausa aðra kærleika en viðkomandi eignast þess í stað hugþýðan og hamingjuríkan innri auð sem hvorki ryð né mölur fær grandað.

Ágætt er, ef við erum ósátt við aðra,
að reyna eftir megni að hugsa fremur jákvætt en neikvætt til viðkomandi. Hyggilegt er að við mildum vísvitandi neigjarna afstöðu til þeirra sem við eigum í erjum við og þá helst með heppilegu, góðgjörnu hugarþeli. Ástúð getur aldrei misst marks þótt að skilyrði einstaka fólks til að meðtaka hana séu óviðunandi. Það að verða mannkær og jágjarn hlýtur að vera eftirsóknanlegt keppikefli fyrir þá sem vilja efla gæskuna í sjálfum sér og öðrum. Við vitum að það er enginn vandi að vera góður við þann sem er elskulegur og viðmótsþýður. Við vitum líka að það þarf heilbrigða, andlega lífssýn til að sætta sig við og hlúa að þeim sem eru óbilgjarnir og neikærir. Göfgi og manngæska ættu að auka líkur á fullkomnari samskiptum vegna þess að þannig afstaða til lífsins og annarra ýta undir það besta sem innra með okkur býr.

Best er að byggja upp og rækta af kostgæfni það andlega atferli í samskiptum sem er gæskuríkt og göfugt en ekki það sem tengist andlegum nöturleika og annarri álíka ógerð. Manngæskan tengist hugfáguðum og hamingjuhvetjandi lífsstíl. Hún eflir okkur sem góðar manneskjur og þess vegna er vel þess virði að rækta hana upp í innra lífi okkar, sé hún af skornum skammti. Það er mikilvægt að vera mannkær og jásýnn; vera þess megnugur að ylja öðrum og þurfandi, af mannúðlegri mýkt og andlegri reisn.

Skrifað af:
Jónu Rúnu Kvaran


Póstur til Jónu Rúnu

..