Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
























     
Útvarpsþáttur Jónu Rúnu Kvaran
Á nótum vináttunnar

Höfnun
Þá er komið að John og Díönu frá Stór-Ameríku og því sem hent hefur þessar elskur síðan við fengum síðast fréttir af þeim. Það verður að viðurkennast að eftir að ég talaði við Díönu í síma í gærkvöldi var ég gjörsamlega búin. Ástæðan er augljós, manneskjan er ótrúlega nákvæm í öllum frásögnum sínum enda stein­geit, og meira segja dæmigerð segja gárungar. Þetta þýðir náttúrlega að hvert símtal tekur alltof langan tíma sé tekið tillit til þess að ég hef bara tvö eyru og litla þolinmæði þegar um er að ræða svona ítarleg samskipti, óþarfa langlokur og fólk sem telur sig vita allt betur en allir aðrir eins og þessi elska telur og leynir sér ekki í frásagnargleðinni.

Eftir því sem lengra leið á samtal okkar
var ég þó nokkuð viss um að efnið væri bæði furðulegt og forvitnilegt, því Díana fór á fund vægast sagt fáránlegs miðils til að leita sér svo kallaðrar leiðsagnar og fá að auki móralskan stuðning sjálfum sér til framdráttar í nokkrum verulega mikilvægu málum sem hvíla vissulega þungt á henni, að eigin sögn.

Við Íslendingar eru ótrúlega óvarkárir
í andlegum efnum og full ástæða til að endurskoða þar eitt og annað. Þegar við íhugum írafár það sem tengist svo kallaðri andlegri verðmætaleit okkar, kemur nefnilega ýmislegt miður gott í ljós. Við verðum að læra að greina á milli þess sem er einskis virði og þess sem er einhvers virði í þessum efnum og það sem fyrst. Við erum alls ekki alltaf nógu kröfuhörð í skynsamlegu vali á verðmætum, þegar kemur að sannleiksgildi dulhyggju ýmis konar og of margt er hreinlega gleypt hrátt og óhugsað. Þess vegna er ágætt að eyða nokkrum tíma í hallærislega umfjöllun um þessi annars viðkvæmu og vandmeðförnu mál séð frá hugarheimi Díönu og jafnframt láta koma fram, hvað andlegt ofmat er varhugavert og engum til góðs raunverulega.

Vonandi fær enginn svitakóf
þótt langt sé gengið og furðulega á málum haldið. Það er fullkomlega nauðsynlegt að það komi fram hvað þetta getur orðið fáránlegt nánast blekking og jafnvel hættulegt, ef óvandað fólk ræður ferðinni og vitgrannar og hrekklausar manneskjur leita til viðkomandi eins og Díana. John aftur á móti er gjörsamlega andvígur öllu sem við kemur eilífðarmálunum og þolir ekki kukl eða þvaður um andleg verðmæti og verður það að teljast mjög erfitt fyrir Díönu.

John á til að taka alltof stórt upp ísig,
þótt nokkuð bældur sé af augljósum tilhneigingum Díönu til að skipuleggja hann og nánast telja hann einkaeign sína, sem hún geti ráðskast með af eigin geðþótta þegar henni sýnist svo. En hvað um það, að þó Díana sé frekar einföld, lítil og nokkuð feit er framtak hennar í andlegri verðmætaleit eiginlega óskiljanlegt og kannski er ekki hægt að ætlast til að hún sjái nokkuð athugavert við það.

Málið var, að um helgina ákvað hún
eftir mjög nákvæm­lega íhugun, að velja einn miðil út úr auglýsingum blaðanna og drífa sig til viðkomandi í von um viðunandi lausnir á því sem liggur á að fá skynsamleg og nákvæm ráð við, ef hægt væri. Hún er mjög ástfangin af John og má til með að leggja sig alla fram við að gera sig eins áhugaverða og hægt er í hans augum. Það vita það allir sem kynnst hafa áhrifamætti ástarinnar, að það dugar ekki að slá slöku við, ef á að viðhalda þeim eldi, sem hún óneitanlega kveikir í hjarta okkar um aldur og ævi.

Það var komið kvöld
og klukkan langt gengin í níudaginn sem Díana átti að fara á miðilsfundinn, og því dugði ekki annað en að drífa sig af stað, því fundurinn átti að byrja nákvæmlega klukkan tíu. John hafði verið fremur óöruggur með sig allan daginn og margbent Díönu á að ekkert vit væri í að fara á fund miðilsins og þaðan af síður reyna að fá einhver ráð frá þeim framliðnu. Hann sagði, að nógu erfið hlytu vistaskiptin að verða öllu venjulegu fólki, þó ekki væri verið að þvinga þetta fólk niður til jarðarinnar til að fullnægja lægstu þrám fólks.

Þetta sárnaði Díönu mjög,
því hún taldi erindi sín mjög brýn og mjög særandi, reyndar furðulegt að hann skyldi ekki getað áttað sig á hvað svona beint samband gæti verið uppbyggilegt, spennandi og leiðbeinandi. Hún klæddi sig í sparifötin og dró upp úr pússi sínu dásamlegan hatt, sem hafði verið rándýr á sínum tíma og á honum voru þrjár afrískar strútsfjaðrir ásamt parti af fílstönn nokkurri dálítið snjáðri þó. John benti henni á, að ekki væri hyggilegt að fara á miðilsfund með hatt þennan, því vera gæti, að bæði strútarnir og fíllinn sem náttúrlega voru upphaflegir eigendur þessara skrautmuna gætu komið fram á miðilsfundinum og óskað eftir að eigum sínum væri skilað aftur og það í hvelli.

Þessar ábendingar Johns
gerðu Díönu mjög óörugga og hún gat ekki hugsað sér að fara með hattinn vegna þess, að hún taldi að hún hefði enga burði í heilan fíl og kannski þrjá strúta þó mikið lægi við að bjarga sér úr klóm þeirra. Hún ætlaði engum að ögra með þessari ferð sinni, og allra síst þeim sem óvinveittir væru kannski og löngu látnir. Í staðin lét hún á sig slæðu eina ljósa og létta ef vera kynni að hún virkaði bjartari og betri á þá framliðnu og miðilinn ætti auðveldara með að komast í gott og nákvæmt samband.

Eftir að hafa kvatt John og keyrt með tveggja hæða strætisvagni um hálfa borgina, komst hún loks á leiðarenda. Heimili miðilsins var í gömlu illa hirtu timburhúsi og fljótt á litið virtist engin búa þar því dregið var fyrir alla glugga og ekki ljós eða hreyfingu að sjá í húsinu. Hún bankaði létt á ljónshaus sem virtist koma að sömu notum og dyrabjalla og hékk ábúðarmikill utan á gamalli veðurbarinni hurðinni.

Hún var svo spennt,
að það næstum leið yfir hana þegar allt í einu hurðinni var svipt upp og í dyragættinni stóð tvöhundruð punda kvenmaður með góðlátlegt augnaráð, en alltof mikið klæddur og á indverska vísu í þokkabót og þar var komin miðillinn. Díana tók það fram að hún hefði verið svo sláandi lík mér, að sér hefði bara verið brugðið, kannski var hún að vona að hún hefði svipaða hæfileika og ég og væri fullkomlega ómissandi eins og ég óneitanlega er, svo maður láti sig nú dreyma um frægð og frama kannski í Ameríku náttúrlega.

Eftir nokkurt handapat
og minniháttar útskýringar var Díana nánast dregin inn í húsið, því miðillinn greip í hönd hennar og togaði fast, þannig að þær fóru á töluverðum hraða eftir löngum gangi inn í stofu, sem virtist ekkert vanta í nema ef vera kynni kannski skipulag og snyrtimennsku. Fjölskyldumyndir og blómapottar voru mjög fyrirferða miklir upp um alla veggi og hillur

Svartur köttur lá makindalegur
á hvítri mottu og horfði tortryggnislega og frekar frekjulega á Díönu, sem vissulega átti bágt þessa stundina vegna ævifornrar ofsahræðslu við ketti og þá aðalega svarta og svona rosalega stóra. Enda stóð ekki á viðbrögðum kattarins, þegar þær komu inn, hann yggldi sig og hálfpartinn gerði sig líklegan til að stökkva, á Díönu sem með það sama hefði náttúrlega lent inn í eilífðinni eins og sagði og dánarorsök þá verið ofsahræðsla og ókunnugar aðstæður, eins og hún benti svo gáfulega á.

Miðillinn lét hana setjast á gamlan tágstól
en settist sjálfur í stóran slitinn rauðan plússtól, sem greinilega hefði þolað bæði ryksuguna og aðra einstaklingsumhyggju. Eftir að hafa einbeitt sér í smá stund spurði hún hvað Díönu lægi mest á að vita og eftir hverju hún væri að fiska. Díana vissi að ekki mátti gefa miðlinum of miklar upplýsingar og var reyndar ekki alveg viss um hverju raunverulega hún væri að leita eftir með komu sinni í þessa einkennilegu stofu til þessa dularfulla miðils, sem í fljótu bragði virtist sjá í gegnum holt og hæðir.

Díana sagði þó, að hún þyrfti leiðsögn
og ekki væri verra þó hún fengi fréttir af látnum ástvinum ef hægt væri. Miðillinn tók andann á lofti og byrjaði svo á langri lýsingu á sérkennilegri fortíð Díönu og benti henni á þá staðreynd að hún hefði fæðingarblett nokkurn á stærð við geirvörtu ofarlega á læri, sem stækkaði greinilega mjög við alla almenna ertingu. Af þessum ástæðum taldi þessi forsjáli miðill að best væri að gæta hans vel sérstaklega um eða eftir miðnætti. Einungis eitt hár væri á þessum dásamlega fæðingarbletti, sem nauðsynlegt væri að þvo reglulega og greiða líka þó ekki væri ástæða til að klippa það nema þá eins og einu sinni á ári og þá fyrir jól.

Þetta fannst Díönu meiriháttar sönnun
fyrir hæfileikum miðilsins og sá ekki að pilsið hafði dregist óvart upp fyrir blettinn, þannig að öll útsýn var auðveld miðlinum. Miðill sagði jafnframt að hún væri greinilega í nokkrum vandræðum vegna þess að það væri ekki gott fyrir hana að nota alltaf sömu hárkolluna betra væri að skipta reglulega og þá helst miðað við veður og árstíðir. Eins væri ágætt að kollan væri rauð í roki og rigningu.

Eins tók miðillinn fram
að fljótlega í næstu viku bærist henni hugmyndir um mjög óvenjulegan megrunarkúr. Uppbygging kúrsins væri kínversk og hann innihéldi einungis rúsínur helst tveggja gramma ef hægt væri. Matseðill þessa kúrs væri ein rúsína á þriggja tíma fresti allan sólahringinn og þá yfir nóttina líka, en tvær um helgar og þrjár ef kæmu gestir.

Miðillinn taldi að elskhugi hennar
væri óvenjulega karlmannlegur, en ekki beint hlynntur miklum þrifnaði og öðru sem gæti gert hann mun meira spennandi t.d. virtist hann aldrei bursta skóna sína og nennti sjaldan greiða sér, sem vissulega væri fráhrindandi og líklegt til að skapa tilfinningalega spennu á milli þeirra, ef hann tæki sig ekki taki og söðlaði um í þessum viðkvæmu málum og einfaldlega bætti ráð sitt.

Í desember mánuði taldi miðillinn
að hún myndi vakna upp við fjaðraþyt mikinn og verða mjög brugðið, en við eftirgrennslan myndi hún uppgötva jólasteikina í kyndiklefanum. Öruggt væri að rjúpa ein stór og feit af íslensku bergi brotin myndi fljúga inn um gluggann hjá þeim John og þrátt fyrir að hann væri mjög hræddur við fugla yrði hann það blankur eftir þriggja daga fyllirí, að hann myndi nota að minnsta kosti fjóra daga til að handsama rjúpuna og þar með bjarga jólunum hjá þeim hjónaleysum.

Eitt og annað kom fram
sem ekki er rétt að tíunda mjög ítarlega hér, en að lokum er kannski rétt að komi fram vegna þess að Díönu var mjög sár og reyndar öskureið út í miðilinn fyrir að hafa látið svona kjaftæði út úr sér fullkomlega ábyrgðar laust. Því þó Díana sé vissulega með ólæknandi þörf fyrir allt sem dularfullt verður að teljast, er hún lítið gefin fyrir allar fullyrðingar um fyrri líf og ekki í vafa um, að þeir sem sífellt hamra á þeim möguleika væru eitthvað spældir yfir sínum fyrri lífum sérstaklega ef þeir hefðu kannski verið mjög leiðinlegir.

Miðillinn taldi nefnilega
að þeim John yrði eftir nokkrar vikur fyllilega ljóst, að samband þeirra er engin tilviljun því að fram kæmi við nokkurra eftirgrennslan þó, að þau hefðu verið hjón áður og þá á tímum Alexanders mikla og sennilegt, að hún hefði í því hjónabandi verið nokkuð fjöllynd og af þeim ástæðum væri mjög erfitt fyrir John að treysta henni fyllilega nema í undantekningar tilvikum.

Díana varð svo hneyksluð,
að hún stóð upp og benti miðlinum á, að hún væri nú spákona sjálf með vandaða fortíð og dytti ekki í hug að trúa að hægt væri að fæðast aftur t.d. í líki kattar, þó kannski þessi svarti köttur sem lægi þarna feitur og stór á hvítri mottu í stofu miðilsins væri greinilega mjög hrokafullur og minnti hana mjög á einhvern, sem hún væri viss um að hún hefði átt mjög náin samskipti við einhvern tíma áður, enda væri kötturinn alls ekki vinsamlegur eða beint áhugasamur um frekari kynni. Díönu fannst það allt í lagi því hann væri hvort sem er örugglega dóni og hún vildi ekki klína sér uppá þannig kött.

Miðillinn greip þessa spekingslegu tilfinningu
Díönu á lofti og benti henni á, að það væri ekki tilviljun að hún þekkti köttinn, hann væri nefnilega óhyggjandi sönnun á orðum sínum og ályktunum því að í sínum fyrri lífum hefði þessi köttur einmitt verið hirðköttur Alexanders mikla, en einhver ástmey hans fyllst svo mikilli afbrýðisemi út í köttinn og þeim mikla áhuga sem Alexander hefði sýnt honum og því fengið óvandaða menn til að drekkja kettinum. Alexander lét köttinn jafnvel sofa við fætur sér og hafði líka talað við hann um mörg trúnaðarmál sem aðrir fengu ekki aðgang að og þar á meðal voru ástarmál, framhjáhöld og smákækur sem hann hafði.

Miðillinn benti Díönu á
að betri sannanir væri vart hægt að gefa henni, nema ef vera kynni að það breyti einhverju ef henni yrði það ljóst að amma hennar sem fyrir langalöngu væri látin en væri loksins búin að leggja peysufötin til hliðar, að öðru leyti en því, að hún væri enn með flétturnar og skotthúfuna líka.

Við þessar lokaupplýsingar gladdist Díana,
svo að hún fór alsæl frá þessum einkennilega miðli, sem virtist hafa mjög áþekkar lífskoðanir og hún sjálf, auk þess að vera á mjög svipuðu greindarstigi, sem í þessu tilviki var mikill kostur, því enginn getur skilið andlegan boðskap nema hann sé tilreiddur með tilliti til greindarmöguleika þess sem hann þiggur, og hlýtur leiðsögnin líka að miðast við andlegan þroska þess sem leiðsögnina veitir.

Þetta látum við nægja í bili
frá vinum okkar í Stór-Ameríku og vonandi eigum við aldrei eftir að kynnast svona fullkomlega misheppnuðum miðli hvorki hér né annars staðar elskurnar.

Að lokum fáum smáfréttir
að heiman frá Litlu Ameríku. Við Nína dóttir mín skelltum okkur á hljómleika í Reiðhöllinni með " Whitesnake" og við inngang hallar­innar, þar sem húllumhæ þetta var haldið, var leitað að áfengi á öllum hljómleikagestum og þarna við innganginn var ég þukluð bæði fast og lengi af þrem ungum mönnum , sem sögðust vera að leita að og satt að segja finn ég enn fyrir fingrum þeirra hér og þar um líkamann sem kannski er von.

Eftir þessa reynslu er nokkuð ljóst
að ég verð vitan­lega fastagestur á öllum þeim tónleikum, sem leitað er að áfengi á fyrir tónleikahald, þvá¡ég er beinlínis alsæl með að eiga kost á ókeypis þukli sem þessu vitandi það að þegar um er að ræða jafn viktarþungan aðila eins og mig er ekki líklegt að ég eigi kost á svona frábærri líkamlegri áreitni nema við þessar aðstæður.

Það má líka með sanni segja
að forráðamenn hljóm­leikanna hafi verið forsjálir, þegar þeir létu þrjá menn leita á mér og hver fékk um það bil þrjátíu kíló til handfjöllunar og skiptu þannig með sér verkum, að einn fór frá brjósti að höfði, annar frá brjósti að lærum og sá minnsti og langnasti frá lærum að tám. Þetta gerðu þessar elskur mjög kunnáttusamlega og mishratt þannig að við lá að ég missti áhugann fyrir hljómleikunum og óskaði þess að ég fengi meiri tíma með þessum aðgangshörðu þuklurum, sem væntalega voru á góðu tímakaupi við þessa iðju.

Vissulega hefur hvarlað að mér
hvort þukl þetta varði við hegningarlöginn, því einhver af sömu ástæðum hefði kannski verið talin vera að beita mig líkamlegu áreiti eða jafnvel ofbeldi, við aðrar og ómerkilegri aðstæður og hefði sá hinn sami sennilega fengið makleg málagjöld fyrir. Ævar minn benti náttúrlega á af sinni alkunnu háttvísi, að það hefði hvergi komið fram í auglýsingum um hljómleikana, að þessi sérkennilegi forleikur væri innifalinn í miðaverðinu þótt dýrt væri. Þessu til fulltingis er ágætt að hlusta á gott lag til að ég komist yfir hljómleika­ferðina.

Guð gefi ykkur góða nótt

Fara efst á síðu


Póstur til Jónu Rúnu

..