Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Jóna Rúna miðill svarar bréfi frá "Huld"
Sambandsleysi
Kæra Jóna Rúna!
Ég vil byrja á þakka þér greinar og pistla í Pressunni áður og nú Vikunni, sem ávalt hafa gefið mér tilefni til hugleiðinga. Tilefni þess að ég skrifa þér er að ég á dóttur sem er þó nokkuð mikið undir tvítugu, og þegar ég horfi til baka hef ég tilfinningu þess, að við höfum ekki í langan tíma ná almennilega saman. Það er kannski rétt að ég segi þér dálítið forsögu okkar.
Ég er alin upp í Reykjavík
ásamt nokkrum systkinum af foreldrum sem voru mjög ólík. Pabbi var gleðimaður töluverður, bæði skemmti sér og notaði þó nokkuð vín, en samt var okkar samband tiltölulega gott þrátt fyrir allt. Mamma var allt öðruvísi, dul og gaf frekar lítið af sér. Hún átti þó til að vera skemmtileg í sparifötunum og á sunnudögum. Reyndar voru þau bæði myndarleg.
Samband mitt við mömmu var þannig,
að ég man lítið eftir henni milli þess sem áður er sagt. Hún virtist svo hlutlaus í öllu. Mér var aldrei hrósað og mér aldrei veitt viðurkenning, sama hvað vel gekk. Ég var talin baldin, skapstór, þrá og ósanngjörn. Sjálf tel ég að ég hafi verið ákveðin, stríðin, músíkölsk, ásamt því að hafa sérlega mikla hreyfiþörf.
Að heiman sleit ég mig undir tvítugu,
ásamt kærasta. Ég og hann vorum ágætir félagar og fluttum seinna út á land og þar kynntist ég honum fyrst. Samband við mömmu rofnaði nokkuð við þetta. Saman eigum við stúlkuna sem vandi minn liggur í. Við slitum samvistum, mér féll ekki, hvað hann var langt frá mér andlega, auk þess gátu foreldra hans ekki fellt sig við mig, fannst ég ekki samboðin honum held ég.
Eftir þetta gaf ég líf þrá minni til að mennta mig
og fljótlega upp úr þessu kynnist ég seinni manninum mínum. Þessi maður var alin upp við mjög mikla einstaklings- umhyggju og var þroskaður. Við dvöldum um tíma erlendis og á þeim tíma á ég barn númer tvö. Þessu barni sinni ég mikið og þar byrjar sennilega að rofna sambandið á milli mín og eldra barnsins. Ósjálfrátt ýtti ég henni burt og hún varð mjög erfið og óstýrlát, sem afleiðing af þessu sem er eðlilegt.
Auðvitað varð þetta vítahringur,
sem ég hefði átt að rjúfa fyrir löngu og sjá fyrir. En á þessum árum uppvaxtar hennar var ég líka að reyna að mennta mig og viðurkenni að í það fór líka mikill tími, sem vafalaust gerði það að verkum, að ég hef jafnvel ýtt henni of mikið frá mér af þeim ástæðum líka, þó erfitt sé að viðurkenna það. Við fluttum við frá útlöndum, þegar hún var en fremur ung og hún var að eigin ósk af og til í lengri tíma hjá föður sínum.
Við náðum þó nokkuð vel saman í um ár,
en ástandið er núna þannig að hún er með pilti, búin að eiga barn og vill mig ekki sjá. Samt voru þau búin að ákveða að búa hér. Kærasti hennar er óábyrgur, og hún vill ekki sjá það. Hún telur okkur vera ósanngjörn og þreytandi. Hann aftur á móti tekur ekki tillit til neins.
Ég sé vel hvernig þetta hefur þróast,
en skaðinn er skeður, við náum ekki saman. Hvað get ég gert til að hlú að og ná til dóttur minnar. Það er eins og sagan sé alltaf að endurtaka sig; það vonda hafi yfirhöndina í sambandi mínu við móður mína og nú við dóttur mína. Ég er óþolimóð, hreinskilin og kannski særi ég aðra óavitandi einmitt af þessum ástæðum. Ég hef náð því, að ástúð, hvattning, og jákvæði eru nauðsynlegir þættir uppeldis
Einhverja hluta vegna hef ég ekki fundið
hlutverk mitt og vinnumarkmið. Ég er á krossgötum og langar að gera listina að aðalatriði í starfi, en vissar efasemdir og skortur á sjálfstrausti hindra það. Kæra Jóna ef til vill sérð þú eitthvað sem mér er hulið og gæti leiðbeint mér, þó ég viti að mörg önnur mál kunni að vera meira aðkallandi. Gangi þér svo allt í haginn og vonandi verður hægt að höggva á hnút þann, sem erfiðleikunum fylgja.
Með kveðju Hulda.
Kæra Huld!
Þakka þér innilega bréfið, sem var bæði opið og elskulegt. Ég varð því miður að stytta það töluvert, bæði til þess að ekki uppgötvaðist hver þú ert, og líka vegna þess að sumt var það hreinskilið, að engin ástæða, er til að það sé nema milli þín og mín. Ég viðurkenni að með því að vera svona opinská við mig er mun auðveldar fyrir mig að bregðast við óskum þínum. Við notumst við innsæi mitt og hyggjuvit. Ásamt þessu skoða ég táknin í rithönd þinni til upplýsingar.
Uppvöxtur kannaður
Það er bersýnilegt kæra Hulda, að eitt og annað í uppvexti sjálfrar þín þarfnast athugunar. Samband þitt við móður þína hefur trúlega verið þér fjötur um fót meiri part ævinnar. Við sem ölumst upp við mikinn tilfinningakulda verðum óneitanlega mun ófærari um að veita okkar börnum þá tilfinningalegu nærgætni, sem þau þurfa sárlega á að halda sem lítil börn.
Pabbi þinn virðist hafa haft hæfileika
til að gefa af sjálfum sér, þrátt fyrir að hegðun hans á milli hafi skapað nokkur vandamál. Mamma þín aftur á móti virðist hafa verið of lokuð til að getað tjáð sínar tilfinningar og er það sorglegt, því auðvitað hefði henni liðið mun betur, ef svo hefði verið. Öll börn þurfa nokkra athygli og vissulega hvatningu í æsku, og ekki síst þau börn, sem virðast stjórnast af tilfinningum sínum fremur en skynsemi, eins og allt bendir til að þú hafir gert í æsku.
Það er því miður mikið um tilfinningalega fjötra
hjá eldri kynslóðum íslendinga og það stafar kannski af því, að þetta fólk var alið upp af fólki sem átti ekki neitt. Lífsbarátta þessa fólks var svo hörð, að það átti ekki mikla möguleika á að rækta viðkæmari þætti uppeldisins á sama tíma og það varð að leggja dag við nótt til að afla nauðþurfta. Hvað þá að hafa stöðugt sálrænt og tilfinningalegt samband við sína, vegna kannski annars vegar þreytu eða þjálfunarleysis í því sem kalla mætti opnunarhæfni innanfrá. Þetta fólk talaði sáralítið um innri líðan það var bara ekki til siðs.
Mamma þín getur hafað verið fremur lokaður persónuleiki
á allt það sem var dýpst í henni og fullkomnast. Það kemur líka fram í bréfi þínu, að hún virðist hafa falið sig töluvert á bak við einhvers konar ytri grímu, sem svo erfitt er að losna frá, jafnvel þó við sjáum að það er ekki til neins gagns að vera í einhverjum feluleik hvert við annað.
Sambúð er stundum flótti
Þú ferð snemma að heima og varla búin að kynnast sjálfri þér þegar komið er bæði barn og maður til að bera ábyrgð á. Samskiptafjötrar þeir sem einkenndu þinn eigin uppvöxt fylgja þér inn í nýja sambandið, og þar koma fljótt upp ákveðnir erfiðleikar, þrátt fyrir ágætan félagsskap og væntumþykju. Þessi fyrri maður þinn er öðruvísi gerður en þú, og ekki inn á þeim skapandi, andlegu línum, sem þú aftur á móti hrífst af.
Hætt er við að þegar við þekkjum ekki okkar innri mann,
séum við gjörn á að reyna að finna hann í gegnum einhvern annan, sem vissulega er algjör misskilningur, eins og kom fjótt í ljós í ykkar sambúð. Hann var ekki á sömu nótum og þú sem bæði langaðir að mennta þig og finna þér verðugt markmið með lífi þínu. Flótti þinn frá ófullnægðu innra lífi, sem kannski lá ekki síst í hæfileikaleysi foreldra þinna til að skynja þig eins og þú ert eða vilt vera skapar fyrst og fremst þessi fyrstu tengsl þín við aðra menneskju og í þessu tilviki barnsföður þinn.
Frelsi er aldrei einhlítt.
Þú finnur að þér gengur vel að mennta þig og myndar í því stússi samband við nýjan lífsförunaut. Þegar bæði er verið að þróa nýtt samband og bæta við þekkingu sína er augljóst að vandfundinn getur verið sá tími, sem við eigum með börnunum okkar. Hitt er svo annað mál, að sektarkennd yfir því liðna gerir engum gott og bætir ekki það ástand sem er ríkjandi í núinu. Í gegnum þennan nýja lífsförunaut kynnist þú fyrst sem fullorðin kona því, sem vitanlega hefði átt að vera þungamiðja þíns eigin uppvaxtar, nefnilega jákvæði og kærleikur, ásamt því sem fellur undir uppörvandi hvattningu af einhverju tagi. Barnið sem þið eigið síðan saman fæðist undir breyttum viðhorfum þínum, og nýtur þar af leiðandi bæði frá föður og móður mikillar ástúðar strax í byrjun.
Aftur á móti er hætt við
að eldra barnið hafi fundið til ómeðvitaðar afbrýði í þess garð, sem getur verið mjög erfitt að sjá við, þó við séum öll af vilja gerð að koma í veg fyrir slíkt. Þetta eldra barn er líka nokkuð smitað af viðhorfum raunverulegs föður, sem gætu hafa verið á skjön við þau nýju, sem þú óneitanlega kynntist með seinni manni.
Ást og athygli
Þegar barn er alið upp á tveim stöðum í æsku, þó svo að um sé að ræða blóðforeldra í báðum tilvikum er það sjaldan kostur, því það verður sem afleiðing slíks óöruggt og jafnvel efins um að það sé í raun elskað og velkomið. Þannig geta viðhorf dóttur þinnar hafa mótast í uppvexti gagnvart þér og föður sínum. Hún virðist með vilja sínum til að vera langdvölum hjá honum vera að leita að athygli og einstaklings umhyggju, sem hún kannski fann ekki nógu vel fyrir þar sem þinn tími og tilfinningar dreifðust mikið og ekkert við það að athuga.
Aftur á móti er hún, að því er virðist að upplagi eigingjörn,
en óvenju tilfinninga-næm og lítil í sér, og af þeim ástæðum nokkuð erfitt að nálgast hana á nákvæmalega þann hátt sem hún kýs. Þó þú hefðir ekkert barn átt fyrir eða eitt tíma í að mennta þig, þá er samt hætt við að erfiðleikar þessir hefðu komið fram vegna þess, að þegar hún er að mótast hefur þú ekki sama þroska og í dag, auk þess sem þú ert líka tilfinningalega að uppgötva í eigin fari eitt og annað sem betur má fara fyrir utan samband þitt við nýja makann.
Börnin öðruvísi sálir
Það að eiga barn er engin trygging fyrir að barnið sé nákvæmlega eins og við sjálf. Hver sál sem gistir þessa annars ágætu jörð, er komin hingað í ákveðnum tilgangi, sem getur verið býsna erfitt að átta sig á hver er. Barni sem er óþjált, mislynt, og óútreiknanlegt verður að sýna mikla þolimæði og það getur verið þrautum þyngra fyrir þau okkur, sem óþolimóð erum árum saman sem er í sjálfu sér ekkert skrítið. Það má líta á tengsl barns og foreldris eins og einn lið í löngu skólanámi og þá eru fögin jafnvel það sem kemur upp á heimilinu,einmitt í samskiptum við barnið. Við viljum flest standa okkur sem foreldrar, sem er ofureðlilegt.
Hitt er svo annað mál að við getum aldrei gert meira
en við höfum þroska og skilning á hverju sinni. Það er líka ágætt að minna okkur sjálf á að barnið þarf kannski líka þessa foreldra sem það hefur í kringum sig til að verða þroskuð sál af reynslu þeirri sem samskiptin gefa af sér. Þessi afstaða er miðuð við það, að lífið sé ekki bara hér og nú, heldur áður og áfram, það er að segja eilíft.
Innsæi og skriftin skoðuð
Þú ert eftir því sem mér sýnist gjörn á að eyða of miklum tíma í hugsun um það sem þú jafnvel getur ekki fengið botn í svo vel fari. Manneskja með eins stórt skap og þú hefur, á mjög erfitt með að fella sig við hugsanleg mistök frá eigin hendi og þess vegna kvelur sú tilhugun þig sennilega mikið, að það kunni að vera af þínum völdum þetta sambandsleysi við dóttur þína, sem er fyrirstaða í heilbrigðum samskiptum ykkar í dag. Þetta er held ég óþarfa harka við sjálfa þig, það er sjaldan einn sem veldur. Það er mjög gleðilegt að þú skulir vilja breyta ástandinu, en mundu bara, að hún hefur ekki sama vilja og þú en þá, og á fullan rétt á að hafa það ekki.
Það er augljóst að þú ert bæði skapandi og listfeng
og af þeim ástæðum nauðsynlegt, að ýta öllum efasemdum um hæfni sína í þeim málum frá. Þér myndi trúlega farnast mjög vel á listasviðum eftir því sem skriftin segir.
Þú ert líka mikil verkmanneskja,
þannig að þér fellur sennilega sjaldan verk úr hendi og þyrftir að læra að slappa betur af, af og til. Þrjóska er áberandi í skriftinni þinni, en á móti mjög sanngjarnt eðli. Það er líka viðbúið að þú getir verið nokkuð langrækin, en ekki nema við endurtekin brot annarra við þig. Þú ert mjög tilfinninganæm, auðsæranleg og átt sennilega mjög erfitt með að taka óheiðarleika og yfirgangi annarra.
Nokkuð stjórnsöm gætir þú verið,
en greind og forvitin um flest, án þess að koma því kannski áleiðis. Þú ert ákveðinn ef þú ert búin að bíta eitthvað í þig, og af þeim ástæðum eru öll frávik frá fyrri ákvörðunum erfið þér, samanber að dóttir þín ætlaði sér að búa hjá þér, en vill ekki núna. Láttu hana algjörlega ráða hvar hún kýs að vera, hún er sjálfráða og verður að fara þær leiðir sem henni henta og það á ekki að særa þig.
Skriftin áfram skoðuð
Hitt er svo annað mál að það kemur svo vel fram í bréfi þínu til mín að þú gerir þér fullkomlega grein fyrir því sjálf hvar skorinn kreppir í ykkar samskiptum; og sennilega væri best fyrir ykkur báðar, að þú skrifaðir henni bréf sem væri þá þín leið til að nálgast hana aftur og í því gerðir þú henni jafnframt ljóst, að þú elskar hana og vilt umfram allt standa með henni og byggja upp gott andlegt samband við hana ef hægt væri.
Það er sennilega ekki hyggilegt
í þessari viðkvæmu stöðu að þvinga hana til samstarfs, heldur nálgast hana óbeint eins og áður sagði með bréfi. Þér veitist sennilega auðveldara þannig að skýra henni frá afstöðu þinni til hennar og sjálfrar þín.
Þú ert hrifnæm og nokkuð fljótfær
ef því er að skipta, en sannleiksleitandi og þess vegna verður þú ekki róleg fyrr en búið er að laga sambandið á milli ykkar. Hvað varðar mat þitt á kærasta hennar er það sennilega rétt, en málið er bara, að hún velur sér þann lífsförunaut, sem hentar þroska hennar í dag og sú reynsla, sem kann að skapast af sambandi þessu fyrir hana, kann að vera eitt af því sem henni er ætlað til að þroskast af, og einmitt þess vegna ekki þitt verk að koma í veg fyrir það, að hún finni út annmarka þess sjálf, ef hægt væri fyrr eða síðar. Ótti þinn og áhyggjur eru eðlilegar, en gera í raun ekkert annað en að lama framkvæmdarvilja þinn, þar sem þú getur litlu breytt.
Þú ert sjálf fullfær um að breyta því sem þarf að breyta
og hægt er að hafa áhrif, með góðum vilja og jákvæðu viðhorfi til þess sem hrjáir og þarft í raun ekki mig eða aðra til að auðvelda þér það. Það er aftur á móti ágætt að gera eins og þú að skoða ástandi með því að trúa annarri manneskju fyrir leyndustu hugsunum sínum eins og þú mér, því með því ertu að neyða sjálfa þig til að finna því sem þú skynjar tilfinningalegan farveg og um leið finna því rökrænan búning með orðunum sem þú nota til að koma hugsunum þínum til mín.
Að lokum þetta
þú ert mjög hreyfanleg hið innra og virðist hafa mjög góð skilyrði til þroska, og verður því að líta á að það sem hendir þig sé liður í áframhaldandi möguleikum þínum til staðfastara og stöðugra innra lífs.
Eða eins og áhyggjufulla konan sagði
eitt sinn þegar allt virtist vera að láta undan í kringum hana við vini sína: "Elskurnar mínar þegar ég ákvað að líta ekki til baka í líf mitt meira en góðu hófi gegnandi og reyna að fremsta megni að lifa fyrir daginn í dag fór allt að ganga betur. Ég fékk betri skilning og aukin tækifæri til ávinnings, þegar ég loksins sá að ég breyti ekki því sem var, heldur einfaldlega því sem er og hana nú."
Guð gefi þér tækifæri
til að glæða lífi, verulega góðu sambandi við dóttur þína.