Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Jóna Rúna miðill svarar bréfi frá " Sigga "18 ára

Áhugaverð hugboð


Kæri Jóna Rúna!
Einhverra hluta vegna finnst mér að ég verði að skrifa þér. Þannig er mál með vexti að ég er 18 ára strákur sem er að læra að vera þjónn og finnst það meiriháttar skemmtilegt. Ég er alinn upp fyrir vestan og sakna þess stundum að vera svona langt frá foreldrum mínum og systkinum. Ég á þó ágæta vini hér í Reykjavík og eins er ég mjög ástfanginn af stelpu sem er líka að læra til þjóns eins og ég.

Æska mín var ágæt
nema að því leyti að faðir minn er alkahólisti, sem hætti að drekka fyrir tveim árum. Það var oft spenna og vandræði sem tengdust drykkjuskap hans á heimilinu. Hann lét mjög ófriðlega og var reyndar svolítið ofbeldishneigður síðustu þrjú ár drykkjunnar.

Málið er elsku Jóna, að þegar ég var átta ára fór ég að taka eftir því mjög reglulega að ég virtist oftast eins og vita ef hann ætlaði á fyllirí svona eins og deginum áður. Ég var orðin svo viss þegar ég fann þetta eins og á mér, að ég sagði mömmu það sem fór að trúa á þessi einkennilegu hugboð mín og sagði bara,: " æ ekki einu sinni enn." Það er oft og iðulega að ég eins og veit hvað muni gerast í mínu lífi og annarra fyrirfram. Ég finn t.d. oftast á mér hvernig mér kemur til með að ganga á prófum og jafnvel veit hvaða einkunn ég fæ. Einu sinni þegar ég var 13 ára og var í skólanum varð ég að fara heim og samt átti ég tvær kennslustundir eftir. Mér leið eitthvað svo ömurlega og fannst eitthvað að heima. Þegar ég svo kom heim hafði bróðir minn skömmu áður dottið og höfuðkúpubrotnað. Þegar ég birtist í dyrunum var verið að flytja hann á sjúkrahús. Mér var rosalega brugðið.

Getur verið Jóna að þetta séu tilviljanir
eða eru þetta hrein og klár hugboð? Eins finnst mér ég eins og finna hvort fólk er að segja mér satt eða ekki þegar það er að tala við mig. Það hefur ekki brugðist að þar hef ég rétt fyrir mér. Það hefur alltaf komið í ljós eftir á. Ég er líka frekar myrkfælinn og þætti vænt um ef þú gætir gefið mér góð ráð til að vinna á þeim vanda. Ég get orðið ofsalega hræddur jafnvel í dagsbirtu við eitthvað sem ég finn, en veit ekki hvað er. Kærasta mín skilur ekki alveg þennan vanda minn og mér sárnar rosalega, þegar hún eins og efast um að það sem ég finn og skynja sé raunverulegt.

Það væri gott að fá þínar útskýringar
á þessum hugboðum sem gera mig svona ofsalega hræddan stundum. Innilegar þakkir fyrir skrif þín í Vikuna og eins útvarpsþættina. Gangi þér allt vel. Það sakar ekki, ef þú nennir að þú skoðaðir mig á þinn dulræna hátt svona til góðs fyrir mig. Eins væri sem mest leiðsögn vel þegin.

Innilegar þakkir fyrirfram
Siggi

Kæri Siggi!
Kærar þakkir fyrir ákaflega áhugavert bréf og uppörvunarorð þín til mín. Mér er vissulega ljúft að íhuga og velta fyrir mér vanda þínum og áhyggjum. Við notumst eins og alltaf áður við innsæi mitt, reynsluþekkingu og hyggjuvit til glöggvunar og mögulegrar uppörvunar.

Uppvöxtur ýtir undir meðfætt næmi
Það er einhvern veginn svo að á heimilum þar sem drykkjuskapur er viðloðandi, er mikill þensla oft og iðulega á taugakerfi og tilfinningalíf heimilisfastra. Börnin fara ekki varhluta af einmitt þannig spennu, eins og þú bendir reyndar á í bréfi þínu. Ef þessi börn eru óvenju næm og í ofanálag gædd sálrænum hæfileikum eins og þú má næstum fullyrða, að erfitt ástand heimilisins ýti undir og óbeint auki það sem fyrir er. Öll taugaspenna gerir okkur mun næmari á allt umhverfi okkar og þá sem samvistum eru við okkur.

Það kemur í ljós þegar þú ert átta ára
að þú ert orðinn óvenjulega næmur á ástand og innri líðan föður þíns. Mögulega má rekja það til þess sem er eðlilegt samband við sína nánustu. Fólk sem við erum samvistum við öllu jafna oftar og lengur en annað fólk og kannski óviðkomandi. Eitt og annað í fasi og framkomu ástvina okkar verður okkur ljósara vegna þekkingar, sem er áunnin á hegðun viðkomandi. Ekki þarf í þannig tilvikum að vera neitt dulrænt sem hvílir að baki, heldur einungis að við skynjum margþættar breytingar í viðkomandi og lærum smátt og smátt að geta okkur til um hvað að baki býr.

Hvað áfengisneyslu ástvina snertir
er þannig tilfinning fyrir hugsanlegum áföllum mjög algeng og ofur eðlilegt að bið séum með sterka vitund eða vissu um hvað framundan sé, þegar við þolendur höfum jafnvel árum saman upplifað fyrir neyslu gerandans svipaða eða áþekka hegðun gerandans. Hitt er svo annað mál, að auðvitað getur búið að bak tilfinningu vandræða sálræn skynjun og kallast hún þá hugboð, sem inni heldur nokkurs konar fyrirboða þess sem verða vill eða koma skal. Í þínu tilviki getur hvort tveggja verið skýring á tilfinningu þeirri sem gaf þér grun og jafnvel vissu um að faðir þinn myndi fara á fyllirí í framhaldi af því sem þú varst áskynja eða fannst hreinlega á þér.

Raunveruleg hugboð
Eins og þú segir frá, þá virtist þú fá eins og hugboð um eitt og annað ótengt áfengissýki föður þíns. Ef um raunveruleg hugboð er að ræða geta þau lýst sér í t.d. því að okkur getur fundist eins og við þurfum að fara á einhvern ákveðinn stað eins og þú, þegar þú fannst þig knúinn til að fara heim úr skólanum án þess að vita í raun og veru hvers vegna. Síðan kemur í ljós að bróðir þinn er mikið slasaður og verið er að bera hann burt. Þarna var um raunverulegt hugboð að ræða, sem tengdist tímabundnum erfiðleikum náins ættingja. Hyggilegt er ef við finnum svona ákveðið á okkur, að við eigum að fara eitthvað eða hitta ákveðna persónu að gera það, því venjulegast hefur komið í ljós eftir á, að tilfinningin reyndist geta sannað gildi sitt.

Hugboð eða ýmindun
Munurinn á hugboði og ímyndun er að hugboðinu meðan það varir fylgir algjör vissa, en ímyndun alltaf efasemdir sem blandast við það sem við upplifum. Oftar en ekki hafa hugboð þeirra sem sálrænir eru getað komið í veg fyrir áföll og önnur yfirstíganleg vandræði. Eins hafa þau haft í för með sér ávinning og lukku þeim til handa sem þessum eiginleikum eru búnir. Margir kaupsýslumenn hafa viðurkennt, að engu líkara sé en þeir finni á sér eða fái hugboð um hvar gróða sé að finna. Þannig að ekki þarf hugboðum endilega að fylgja, hætta þeim getur alveg eins fylgt gæfa eða velgegni.

Eitt er þó alveg víst
að hugboð eru aldrei úthugsuð eða á annan hátt að þau tengist rökhugsun eða skynsemi. Þau eru fyrst og fremst tengd innsæishugsun, sem venjulegast framkallast sem afleiðing af einhvers konar tilfinningalegri vissu í upphafi sínu sem síðan tekur á sig rökrænan búning eftir atvikum eða skýrist eins og hjá þér eftir á.

Myrkfælni
Það er ekki óeðlilegt að þú kunnir að finna til einhvers konar óþæginda vegna sálrænna hæfileika þinna og svo kölluð myrkfælni er afar algengt fyrirbæri í hugum þeirra sem sálrænir eru og jafnvel þeirra sem einungis verða að teljast sérlega næmir, en þurfa ekki beint að búa yfir dulrænum hæfileikum. Í andrúmslofti venjulegt lífs eru margþættir straumar og sveiplur hina ýmsu orkukrafta. Ekki þarf endilega að vera um láta að ræða, þegar við eins og finnum eitthvað í kringum okkur. Í mjög mörgum tilvikum er einungis um að ræða samansafn hinna ólíklegustu áhrifa eða andlegrar orku, sem tilkomin geta verið af ólíkum ástæðum og eiga fátt skylt við möguleg áhrif úr hinum heiminum. Við vitum það flest sem talið höfum okkur myrkfælin, að þannig óþæginda tilfinning getur allt eins komið yfir okkur í dagsbirtu.

Eigið orkusvið
Við höfum í kringum líkama okkur andlegt orkusvið sem byggt er upp í litum og hreyfist á ýmsa vegu. Þetta orkusvið er kallað ára og vísindamenn hafa auðveldlega í seinni tíð getað myndað blikið, sem umlykur líkama okkar. Þetta orkusvið virðist mismunandi þétt eða gisið allt eftir hver áruna á. Þeir sem hafa það sem kalla má létt blik verða mun meira fyrir ýmis konar áreiti ólíkra strauma umhverfisins en þeir sem hafa þétt kraftsvið, auk þess sem þeir geta verið ótrúlega næmir á annað fólk.

Þú segist finna hvort fólk segir satt
eða ekki sem vel getur verið rétt ályktað hjá þér, vegna þess að ef manneskja segir ósatt er annars konar kraftur eða útgeislun sem stafar frá henni, en þegar hún segir satt. Ósanninda útgeisluninni fylgja einhvers konar misvíxlanir orkustreymis sem veldur okkur sem skynjum slíkt óþægindum, sem auðveldlega má þjálfast í að túlka, eins og tilefni er gefið til eða við finnum fyrir. Það sem við sennilega finnum fyrir er eitthvað óheill og varhugavert og einmitt þess vegna líður okkur illa í nálægð við viðkomandi.

Til samanburðar finnum við,
ef frá orkusviði manneskju stafar hlýja og kærleikur allt önnur og betri áhrif. Við fyllumst í nálægð við viðkomandi einhvers konar vellíðan og fáum traust á viðkomandi. Þess vegna er oft svo að sálrænt fólk þarf ekki endilega að heyra aðra tala um tilfinningar sínar eða vilja til hlutana, það einfaldlega finnur hvað inni fyrir er og bregst við í samræmi við þessa sálrænu skynjun.

Mögulegar varnir
Til að losna við það sem þú kallar myrkfælni, er ágætt að fara með bænir sem innihalda ósk um vernd og Guðlega forsjá, bera kross um hálsinn og nota viljann til að ýta óþægindunum burt á ákveðin hátt með hugsunum sem erum fráhverfar ástandinu og í eðli sínu jákvæðar. Ótti veldur venjulegast auknu næmi og þá að sjálfsögðu frekari óþægindum sem afleiðingu af skynjuninni sem fælninni veldur. Það er mikilvægt að átta sig á að við getum aldrei dregið annað að okkur, en það sem er nokkurn veginn í samræmi við okkar eigin hugsanir og framkvæmdir. Séum við í flestum tilvikum elskulegar og sanngjarnar manneskjur, sem viljum okkur sjálfum og öðrum allt það besta, er engin ástæða til að ætla að nokkuð verulega slæmt hendi okkur, sem rekja má til tengsla við krafta eða öfl sem kunna að búa í andrúmslofti hins eðlilega lífs.

Efasemdir annarra
Hvað varðar það að kærasta þín og hugsanlega aðrir eigi bágt með að skilja og átta sig á þessum sérkennilegu þáttum tilveru þinnar, er þetta að segja. Dulræn skynjun er eitthvað sem erfitt er að ætlast til að þeir sem ekki upplifa svipað reynslu eigi auðvelt með að trúa að eigi sér stoð í raunveruleikanum. Þannig reynsla er alltaf einkaupplifun þess sem hana finnur eða skynjar. Það sem við getum ekki tengt eigin raunveruleika skynjun gerir okkur fremur fráhverf og tortryggin á þannig skynjun annarra. Við getum ekki sett okkur fyllilega inní það sem gerist í hugarheimi eða tilfinningalífi annarra jafnvel þó við séum að öðru leiti nátengd viðkomandi.

Það er því ekki sanngjarnt
að áfellast kærustu þína, þó hún efist um þann veruleika sem þú einn upplifir. Hún getur aftur á móti lært með auknum skilningi og trúlega, ef hún verður þess áskynja, að það sem þú upplifir kemur fram meðal annars lært að umbera og virða þessa sérstöku og áhugaverðu eiginleika þína. Mundu bara elskulegur að góðir hlutir gerast hægt að öllu allri nýrri reynslu þarf að venjast og aðlagast og kærasta þín er engin undantekning frá þeim gullna sannleik.

Ömurlegra væri hins vegar,
ef þú sjálfur sem skynjanirnar upplifir værir fráhverfur þeim eða hafnaðir þeim hreinlega. Það myndi einfaldlega gera þér mjög erfitt fyrir, því þú ert sýnilega sálrænn og verður það hvort sem þér líkar eða ekki. Hins vegar er sennilegt að eftir því sem þú þroskast meira og styrkist sem manneskja, verið mun auðveldara fyrir þig að sættast á þessa þætti tilveru þinnar, jafnvel þó þeim fylgi óþægindi á stundum. Líklegt er nefnilega að þeir verið þér fremur til styrktar og blessunar þegar frá líður, sérstaklega ef þú berð gæfu til að efla það sem er jákvæðast og heilbrigðast í eigin sálartetri.

Lífshlutverk
Þú hefur kosið að starfa sem þjónn sem er vissulega jákvætt eigi það hug þinn og áhuga. Hitt er svo annað má að næmur einstaklingur eins og þú kemur til með að finna meira fyrir mögulegum óþægindum af t.d. drykkjuskap þeim sem oft tengist skemmtanalífi fólks og þjónar öðrum stéttum meira upplifa í meira návígi, en þeim kannski a.m.k. sumum getur reynst hollt.

Með tilliti til þess að faðir þinn hefur átt við áfengisvandamál að stríða í gegnum tíðina, eru ákveðnar líkur á að um mögulega erfða þætti sé að ræða. Sé svo, er full ástæða til að benda þér á að umgangast vín með varkárni hvað snertir mögulega neyslu þína. Þú er líka sálrænn og af þeim ástæðum einum og sér ættir þú einfaldlega aldrei að nota vín. Vínneysla veikir vilja neytandans og opnar oftar en ekki þann sem neytir.

Þú ert opinn og næmur fyrir
og þess vegna óhenntugt að skapa sjálfur möguleika á frekari opnun sálrænu þátta þinna með áfengi. Viljinn er nefnilega mikilvæg vörn dulræns einsaklings, sem komast vill hjá áhrifum sem eru óþægileg eða óæskileg og jafnvel í eðli sínu neikvæð. Þessar vangaveltur læt ég fljóta með til umhugsunar fyrir þig vegna framtíðar þinnar og kannski annarra sem svipað er ástatt hjá og þér elskan.

Manngerð og möguleikar
Ef við að lokum íhugum manngerðina og hugsanlega möguleika þína í gegnum innsæi mitt kann eitthvað það að koma fram í þeirri úttekt, sem hugsanlega getur auðveldað þér frekari skilning á sjálfs þíns ágæti. Þú er skemmtilega opinn og sveigjanleg manngerð félagslega, sem örugglega átt eftir að verða vinsæll í leik sem starfi. Hugarflug og framkvæmdarþrá eiga eftir að eflast með þér, trúlega þegar þú kemst á fertugs aldur og í framhaldi af því er mjög sennilegt að þú kunnir að framkvæma einhvers konar þrekvirki, sem gæti borið ríkulega ávöxt.

Þú ert fremur lokuð manngerð tilfinningalega,
sem sennilega átt nokkuð erfitt með að standa í útskýringu á dýpri þáttum tilfinningalífs þíns. Þessum veikleika væri gott að reyna rækta sig frá og snúa smátt og smátt upp í andhverfu sína, sérstaklega með tilliti til einkalífs. Þú virðist ekki beint hneigður til verklegra þátta tilverunnar og gætir komist í verulega klípu við það eitt að skipta um dekk á bíl. Það sem þú gætir fengið áhuga á eða fyrir hverju sinni grípur sennilega mjög sterk hug þinn allan, þannig að lítið svigrúm kynni að finnast í hugskoti þín á meðan fyrir annað. Best er sennilega fyrir þig að afmarka athafnasvið þitt og þú varist að ætla þér of marga hluti í framkvæmd á svipuðum tíma. Þú ert trúlega óþarflega þrjóskur á stundum og átt sennilega býsna erfitt með að horfast í augu við eigin mistök. Þetta gæti valdið tímabundnum samskipta erfiðleikum sérstaklega í einkalífi.

Tónlist gæti verið þér hugleikin
og ekki ósennilegt að á því sviði hafir þú einhverja hæfileika. Dulargáfur eru augljósar í upplagi þínu og af þeim ástæðum er hyggilegt að rækta innra líf sitt jafnhliða ytri tilveru þinni. Eftir því sem þú eldist meira verður þú fastheldnari á form og hefðir og kemur til með að vilja virka stöðugur og traustur einstaklingur, sem aðrir bæði virða og taka mark á. Þú þarft sennilega að gæta vel að mjóhryggnum og forðast fremur það sem gæti mögulega valdið erfiðleikum í baki.

Dýr og sjór eru sennilega ofarlega í huga þínum
og þú sækir trúlega félagskap og frið í hvort tveggja af og til. Tækifæri verða mörg í lífi þínu og sennilega flest þess eðlis að þau kerfjast skjótra ákvarðana sem þú ættir að eiga sérlega auðvelt með að framfylgja. Þú er sterkur í bland við nokkuð heppilega viðkvæmni, sem mun gera þig annars vegar úthaldsgóðan og hins vegar næman á mannleg samskipti. Eins og þú sérð elskulegur er eitt og annað býsna áhugavert í manngerð þinni og möguleikum. Það er því full ástæða fyrir þig að líta björtum augum til framtíðarinnar og óttalaust sýnist mér.

Eða eins og Gamli hásetinn sagði
eitt sinn af gefnu tilefni í góðra vina hópi: " Elskurnar mína það kom nú fyrir að maður varð bæði sjóhræddur og myrkfælinn hér á árum áður og ekkert við það að athuga. Verra var þó, þegar maður gleymdi að byggja upp sjálfstraustið og trúarþelið. Á þessum árum hafði maður áhuga fyrir góðu ytra lífi og vann eins og þræll, en láðist að reikna með innra lífinu, af því að maður fékk ekki krónu í vasann í þannig vinnupúli. Hér sit ég því níræður og kenni mér Guðsótta og góða siði og hefur reyndar aldrei liðið betur, þó segjast verði eins og er að heldur svitnar maður of mikið, nokkuð sem ekki hefði gerst ef maður hefði gert sér nógu snemma grein fyrir því, að hamingja og sálarró fást ekki fyrir andvirði þorskhausa heldur í gegnum góða breytni."

Guð styrki þig í staðfastri trú á tilgangsríkt líf
og gefi þér vilja til að efla það sem best er og jákvæðast í eigin fari.

Með vinsemd
Jóna Rúna.


Póstur til Jónu Rúnu


.