Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Grín og gaman. Höfundur: Jóna Rúna
Miðillinn
Það hefur verið meiriháttar dæmi í gangi
hérna í Hrafnanesinu síðan um helgi. Afi á Grandanum kom í heimsókn með svakalegan Grænlenskan miðil frá.Pælið í því. Það varð allt brjálað þegar miðillinn sá allt draslið sem búið var að fela á bak við sófann með lokað fyrir augun.Gamli hællinn fór alveg í flækju þegar miðillinn hélt því fram að hann væri svo greinilega búinn að breyta einhverju bæði í efri og neðri góm.
Glætan. Tóta frænka plantaði sér á svæðið
með það sama og miðillinn sá náttúrulega strax að hún hafði grennst um tvö grömm síðan um áramótin. Allir voru rosalega ánægðir þegar það kom í ljós að miðillinn hafði svo innilega rétt fyrir sé vegna þess að Tóta hélt að hún hefði bara misst eitt gramm. Eiginlega átti hún alls ekki von á því að miðillinn væri svona meiriháttar skyggn. Peran er þetta eitt hundrað og tuttugu kíló svo það þarf ótrúlega hæfileika til að sjá að agnar lítil mör hefur týnst svona sviplega af henni eiginlega af sjálfum sér heldur Tóta.
Miðillinn spurði keiluna
hvort hún vildi ekki missa smá í viðbót og bauðst til að böggast með sína menn til hennar einhverja nóttina ef hún hugsaði bara rétt sem svona til hennar. Baddi og Bubbi bræður mínir hurfu bara af svæðinu þegar miðillinn birtist. Maður sér svo innilega hvað er í gangi hjá þessum boltum. Þeir hafa svona slæma samvisku og vilja náttúrulega ekki að allt það svakalega ljóta sem þeir eru að gera verði upplýst af þeim grænlenska.
Mamma hefur verið með rosalega vörtu
á nefinu um árabil. Það var eins og við manninn mælt. Þegar miðillinn birtist á svæðinu þá var eins og vartan stækkaði. Alla vega sást hún mun meira. Pabbi sagði að það væri af stressi sem svona lagað gerðist og reyndi benda keilunni á að fá miðilinn til að galdra vörtuna af.
Afi er rosalega hrifinn
af því að hafa átt þátt í því að miðillinn kom heim og sagði okkur að það væri ekkert mál með svona vörtur hann hefði vitneskju um að minnsta kosti tíu sæmilega stórar vörtur hefðu horfið af konu sem hitti þann grænlenska bara rétt eitt augnablik í umferðarmiðstöðinni þegar miðillinn var að fara í útsýnis ferð með rútu um Reykjavík.
Það er meiriháttar
að hitta svona þrælslega dulræna manneskju verð ég að segja. Sénsinn. Ég týndi uppáhaldsnærbuxunum mínum skömmu áður en miðillinn kom heim og hann sagði bara rosalega afslappaður við mig:,, Engar áhyggjur vina mín buxurnar eru á botni óhreinatauskörfunnar og verðar þar ef þú nærð ekki í þær." Svona buxur sagði hann geta svo auðveldlega týnst ef maður passar ekki uppá þær. Hann þurfti eiginlega ekkert að gramsa í óhreinatauskörfunni má segja. Hann eiginlega stakk strax fingrinum á botninn og buxurnar komu bara uppá yfirborðið með það sama.
Afi var alveg meiriháttar sniðugur
að fá þann grænlenska í heimsókn. Við fílum rosalega hérna í Hrafnanesinu að fá svona miðla á svæðið. Allt andrúmsloftið er eitthvað svo spennandi má segja. Enginn vandamál í gangi. Miðillinn böggar þeim bara í burtu. Hann hefur svo svakalegan kraft að ég hef eiginlega ekkert upplifað meira meiriháttar síðan ég sá drauginn fimm ára. Ég bauð honum að gista hjá okkur og allt varð vitlaust verð ég að segja vegna þess að allir eru að fela eitthvað nema ég.
Ég á engin leyndarmál
og er með samviskuna á tæru. Pabbi segir að það sé ekki líft síðan miðillinn kom og gamla keilan er stanslaust að fela eitthvað sem ekki má sjást. Við skulum bara athuga það að þegar ég fór með miðilinn í heimsókn til Jóu vinkonu þá breytist allt með allt. Enginn reifst þann daginn og Jóa gat beðið um ákveðna hluti allan daginn sem hún þurfti nauðsynlega á að halda af því að miðillinn mátti heyra á það minnst að fólk væri að stressa sig á segja nei hvert við annað.
Allir eiga að segja sem oftast já.
Þannig fáum við betra fólk í fullkomin heim segir sá grænlenski. Það er rosalega rólegt hjá Jóu núna og hún hefur aldrei haft það náðugra. Hún bara tekur við öllu því sem rétt er að henni og það er ekkert smá enda hefur hún legið fyrir og horft á videó síðan um daginn.