Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.
Hugleiðingar Jónu Rúnu
Mikilvæg Markmið
Ef eitthvað vantar í sjálfstraustið
er ekki úr vegi að nota svolítinn auka kraft í að uppörva sjálfan sig. Gott ráð er að segja við sig eina af eftirtöldum setningum, að minnsta kosti hundrað sinnum á dag: ég get auðveldlega gert allt sem mér finnst einhvers virði. Auk þess ætla ég að vinna taktfast að því að afreka miklu meiru en ég hef getað fram að þessu.
Ég tek bara einn dag í einu
og stefni að því að allir mínir draumar og þrár verði að veruleika. Ég ætla nefnilega að verða töluvert mikils virði í eigin augum og náttúrulega í augum annarra að lokum.
Ég ætla að reyna að taka aðeins mið af því góða og þrautseiga sem innra með mér býr.
Þessu sama vil ég líka gefa gaum að í fari annarra. Ég læt einungis fá aukið líf og vöxt það sem ég þekki og treysti að séu eftirsóknarverðir eiginleikar og líklegir til að gera líf mitt betra og ríkulegra af alls konar tækifærum og auka við hamingju mína og annarra.
Þegar erfiðleikar angra mig
ætla ég svo sannarlega að snúa vörn í sókn og einfaldlega að standa mig og draga hvergi úr möguleikum mínum til þess að það geti orðið að veruleika.
Ég er nefnilega fullfær um að breyta erfiðu ástandi sjálfri mér til góðs.
Ef ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd
að fólk sem ég hef treyst og virt virðist bregðast mér, þá hreinlega eyk ég margfalt trú mína á heiðarleika og göfgi mannsandans.
Ég hugsa eftir slík vonbrigði meira en áður um þá þætti fólks sem styrkja góðar dygðir og sanna verðleika.
Ég beiti innra afli mínu að því sem getur aukið frelsi og sannleiksást.
Allt þetta er örugglega vísir að velferð minni og annarra.
Í raun og veru vil ég læra
að tjá mig um það sem getur hvatt mig og aukið innihald lífs míns og annarra.
Ég mun vinna að því góða markmiði
að deila til sem flestra öllu því sem gleður, styrkir og iljar hinum sálrænu þáttum mannsins.
Þannig vinn ég á og sé smátt og smátt árangur erfiði míns og um leið aukna hamingju þeirra sem á vegi mínum verða.
Tilgangur viðhorfa minna og vilja
mun verða að lífga upp á umhverfi mitt með góðri og kærleiksríkri
framkomu. Ég hreinlega nenni ekki að sökkva mér niður í það myrkur sem gróft vanmat á sjálfri mér og öðrum getur leitt yfir mig.
Ég vil lifa til þess að njóta
alls þess dásamlega sem lífið hefur upp á að bjóða því ég get alls ekki séð sólin skína í andlegu myrkri píslarvættisins.