Þú ert gestur númer  

Gestabók

Okkur þykjir vænt um ef þið skrifið í gestabókina og segið ykkar álit á efni síðunnar.

























     
Innsæis-speki Jónu Rúnu

Hindranir


Andlegar sem líkamlegar torfærur
eru liður í lífi margra okkar. Ef við höfum ákveðið að ná árangri í einhverju máli getur okkur þótt ósanngjarnt og fjötrandi að finna til þess að verið sé að tefja framkvæmdir okkar og framgang að ósekju.

Við getum reynt að spyrna á móti
og ákveðið að halda okkar striki þrátt fyrir hlekkina. Auðvitað getur það reynst okkur torvelt og aftrandi ef augljósar hömlur og truflanir eru eins og slagbrandar fyrir áætlunum okkar og þrám. Þegar þannig árar skiptir máli að við séum bæði jásýn og hugrökk og veljum fremur að sigrast á viðstöðunum en að gefast upp fyrir höftunum og láta deigan síga.

Við verðum jafnframt að átta okkur á
gildi þess sem við kjósum að aðhafast og vera nokkuð viss um að það sé þess virði að berjast fyrir. Við getum ekki verið viss um að allt sem við viljum sjá vaxa og dafna geri það án óþæginda og tálma. Oftast þurfum við að vera ákveðin og stefnuvís ef okkur langar til þess að sjá ákjósanlega uppskeru af því sem við áætlum og sáum.

Torveldar aðstæður og afstýrandi
geta óneitanlega verið reynslumiklar og þroskaörvandi. Erfiðleikar eru til þess að sigrast á þeim og það er ekkert fengið við að allt sem við tökumst á við gangi snuðru- og skakkafallalaust fyrir sig. Við sem viljum hafa fyrir hlutunum vitum að það sem krefst fyrirhafnar og fórna vex oft og eflist í höndunum á okkur þannig að við getum verið bæði hreykin og stolt af.

Hindranir eru margvíslegar
og oftar en ekki eru þær fylgifiskar góðra og athyglisverðra markmiða. Best er því að við lítum þær jásýnum augum en ekki neisýnum, jafnvel þó þær séu tímabundið bæði hamlandi og aftrandi. Því er rétt að við eflum með okkur aukna tiltrú á mikilvægiþess að verða ekki sjálf til þess að veikja vinningsvonir okkar með uppgjöf og depurð á tímum tálma og óhagræðis. Við sem viljum vinna til sigurs í sem flestum tilvikum eigum að vera fastákveðiní því að láta ekki augljósar hindranir og skorður draga úr baráttuvilja okkar og vissu um mikilvægi þess sem við erum að vinna að hverju sinni.

Ágætt er að muna að við sem erum ákveðin
og stefnustaðföst eigum mun betra með að yfirstíga og vinna bug á truflunum og öftrunum en þau okkar sem eru lingeðja og sérhlífin. Hyggilegt er að við séum vonglöð og kröftug þegar þvergirðingssveifla og útilokunarþytur umlykja markmið okkar og þrár. Höfnum því hindrunum sem fjötrandi og frjálsræðissviptandi afli í lífi okkar og tilveru. Lítum á torveldar aðstæður sem áskorandi aflgjafa og sigurvísandi árangurskveikju frekar en niðurrífandi og neisama tálmagildru sem örðugt er að uppræta og vinna bug á þrátt fyrir góðan vilja.

Skrifað af:
Jónu Rúnu Kvaran


Póstur til Jónu Rúnu

..